09.03.1944
Efri deild: 26. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í B-deild Alþingistíðinda. (387)

40. mál, nýbygging fiskiskipa

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

Það er að vísu dálítið erfitt að ræða þessar till. hv. þm. Barð., þótt þær hafi verið lesnar upp skilmerkilega, því að þær eru svo margbrotnar, að erfitt er í fljótu bragði að átta sig á hinu raunverulega innihaldi þeirra. En það lætur að líkum, að ég, sem hef fylgt þessu frv. óbreyttu, mun ekki taka við slíkri grautargerð sem þessari með neinni lyst, og ég er hræddur um, að svo geti farið, að fleiri hv. dm. þyki grauturinn nokkuð snöggsoðinn. (BrB: Hafragrautur þarf ekki að sjóða nema í 3 mín.) Eitt er þó ljóst af þessum brtt., að verið er að gera tilraun til að gera málið að engu. Það kann vel að vera, að þessi tilraun sé óafvitandi gerð, en svo mikið er víst, að verði brtt. samþ., mun málið ekki ná fram að ganga á þessum hluta þings. Nægir mér að vitna til ummæla minna hér fyrr í dag, að ég teldi þetta atriði svo mikilsvarðandi, að ég vildi ekkert eiga á hættu um, að málið yrði ekki samþ. á þessum hluta þings, og mundi því ekkert gera til þess að tefja það.

Ég skal aðeins benda á eina brtt., sem ég man nokkurn veginn, þess efnis, að það er mþn. í sjávarútvegsmálum, sem á að úthluta styrknum, þegar ríkissjóður er búinn að kaupa skipin og á að fara að selja þau aftur. Mig furðar mjög á því, að þetta skuli koma frá hv. þm. Barð., eins og hann lýsti þessari n. í dag, að hún væri a.m.k. klofin í þrennt um þetta mál eða ef til vill í fimm hluta, og þó voru þessir partar ekki samstilltir, tveir og tveir héngu að vísu saman, en þó ekki að fullu sammála. Svo er það þessi n., sem hann vill, að úthluti þessum hlunnindum. Þetta út af fyrir sig gerir það að verkum, að ég get ekki fylgt neinni af brtt., því að þarna er flm. svo gersamlega í mótsögn við sjálfan sig eftir lýsingu hans í dag á þessari n. Annaðhvort er honum ekki ljóst, hvað hann er að fara, eða hann er að koma málinu fyrir kattarnef. Ég segi því rétt eins og er, að ég vænti þess, að hv. dm. taki þann kostinn að hafna öllum þessum brtt., því að sýnt er, að hver einasta brtt., sem samþ. verður, leiðir til þess, að málið verður að fara til n. Ég veit einnig, að allar þessar brtt. eru í fyllsta ósamræmi við vilja meiri hl. hv. Nd. Ég verð því að leggja til, að hv. dm. felli allar þessar brtt. og að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir. Hv. dm. verða því að gera það upp við sjálfa sig, hvort þeir vilja koma málinu fyrir kattarnef með þessum brtt. eða styðja gott málefni og láta frv. ná fram að ganga nú.