09.03.1944
Neðri deild: 30. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í B-deild Alþingistíðinda. (403)

40. mál, nýbygging fiskiskipa

Frsm. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. — Hv. þm. Ísaf. tók það fram í fyrri ræðu sinni, að stjórnarfari landsins væri stefnt í hættu, ef hafa ætti aðrar reglur um ráðstöfun fjárins en fá ráðh. það vald, taldi það sjálfsagt, eðli málsins samkvæmt. Fyrir réttu ári lá fyrir þinginu mál svipað þessu, og þá var það hv. þm. Ísaf., sem barðist manna fastast fyrir því, að allt önnur skipun yrði höfð um úthlutun styrkja í sama skyni. Þá samþ. Alþ. að veita 2 millj. kr. í styrki til kaupa á fiskiskipum og ákvað, að stjórn Fiskveiðasjóðs sæi um þá úthlutun. Nú á að veita 5 millj. kr. í sama skyni, og þá er því haldið fram, að verið sé að glata dýrmætu, gömlu stjórnarfari, ef öðrum verði falin úthlutunin en ríkisstj. eða ráðh.

Ég vil taka það fram, að ég kýs fremur, að stjórn Fiskveiðasjóðs hafi með úthlutun að gera en mþn., en tel það þó miklu betra en að einn ráðh. hafi valdið. Yfir 300 aðilar sækja um fé til skipakaupa, en líkur eru til, að um 50 fái það. Það er vandasamt verk að velja úr þessa 50 menn, og ég treysti betur til þess fimm manna n. eða þriggja manna stjórn en einum manni.

Þá vil ég benda á, að ef nú á að samþ. þessa brtt., sem hér er lögð fram, og senda málið aftur til Ed., þá er því þar með stefnt í hættu. Ég tel, að atkvgr. í Ed. hafi sýnt, að mjög vafasamt sé, ef ekki ólíklegt, að hún fallist á að samþ. frv. í þessu formi. En hins vegar er allbrýn þörf fyrir, að reglur um notkun fjárins verði settar.

Hv. þm. Ísaf. hefur endurtekið það hér, að meiri hl. mþn. hafi mælzt undan að fara með úthlutun og sé atkvgr. Ed. andvígur. Það kann að vera, að honum sé kunnugt um þetta. (FJ: Mér er kunnugt um það.) En ég veit ekki betur en brtt., sem var flutt í Ed., hafi verið í samráði við formann mþn., og ef svo er, þá vil ég draga þessi ummæli í efa.

Af þessum ástæðum vil ég greiða atkv. með frv. eins og það er og ekki auka á frekari hættu með því að senda það milli deilda.