20.02.1945
Efri deild: 132. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1513 í B-deild Alþingistíðinda. (4168)

287. mál, húsnæði í þarfir ríkisins

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. — Hæstv. ráðh. hefur nú raunar sagt margt af því, sem ég álít, að skipti hér mestu máli. Það er áreiðanlegt, að ríkið skortir mjög skrifstofubyggingar, hvað sem öðrum byggingum líður, og það er sennilegt, að það muni borga sig að byggja yfir ríkisstofnanirnar við Arnarhól nú, þótt dýrir tímar séu. Og það er alveg rangt, að með því væri tekinn spónn úr aski hinna sjúku, því að það mundi í mörgum tilfellum verða til lítils sparnaðar fyrir ríkið að reisa þessar byggingar fyrst á öðrum stað. Það er einnig vafasamt, að hér vanti sérstaklega sjúkrahús, sé miðað við annað. Ég hygg, að samkvæmt skýrslum landlæknis séu fleiri sjúkrahús hér á landi en í flestum öðrum löndum í heimi í hlutfalli við fólksfjölda. Aftur á móti vantar hér flestar þær byggingar, sem nú er talið, að þurfi til að halda uppi ríkisskipulagi. Og þótt vont sé að segja um, hvað skal meta mest í þessum efnum, þá er a.m.k. ekki óeðlilegt, að menn reyni fyrst að ná til jafns við aðrar þjóðir um hið allra nauðsynlegasta til að halda uppi ríkisskipulagi, en til þess skortir nú mjög opinberar byggingar, áður en við förum langt fram úr öðrum þ jóðum í öðrum efnum.

Nú er ég ekki að gera lítið úr heilbrigðismálum og þörf góðrar skipunar í þeim efnum, en menn verða að gera sér ljóst, að það er fleira en eitt nauðsynlegt.

En það, sem einkum kom mér til að standa upp, voru ummæli, sem hv. þm. S.-Þ. lét falla.

Hann kvað fyrst hafa verið í ráði að byggja ráðhús í Reykjavík, það hefði verið lengi í undirbúningi, en loks hefði verið horfið að því að reisa skrifstofubyggingu. Þetta er rétt.

En þær athuganir, sem fram hafa farið, hafa sýnt, að venjuleg skrifstofubygging er það dýr, að það getur legið nær að ráðast í fullkomna byggingu, ef byggt er á annað borð á þessum tímum. Þetta er þó ekki nægilegt til, að ég verði á móti þessu frv., þar sem telja má víst, að alltaf verði þörf fyrir þetta pláss. Nú er stjórnarráðið húsnæðislaust. Stjórnarráðshúsið er upphaflega reist sem hegningarhús og er alls ósæmilegt húsnæði fyrir æðstu stjórn landsins. Hitt er ég í meiri vafa um, hvort rétt sé að flytja Hæstarétt í bráðabirgðahúsnæði, úr því sem komið er.

Ég hreyfði því eitt sinn, að Hæstarétti yrði fengið húsnæði í Háskólanum, en nú er það orðið of seint. Ég held, að bezta lausnin á því máli sé að reisa Hæstarétti nýtt hús, og þrátt fyrir allt tal um dýrtíð, þá hef ég ekki trú á, að við höfum í annan tíma betri tök á að reísa okkur dómshús.

Ég mundi því hallast að því, að Hæstiréttur noti þetta húsnæði næstu 2–3 ár. Það er ekki verra, en það, sem Hæstiréttur hefur orðið að búa við í fjórðung aldar, eða það, sem æðsta stjórn landsins verður nú við að búa. Þörfin er fyrir hendi um betra húsnæði, bæði hjá stjórnarráði og Hæstarétti, og það er ekki rétt, að verr fari um Hæstarétt en ráðherrana. En mér virðist það þó eðlilegra. að þegar Hæstiréttur skiptir um húsnæði, þá fái hann ný og varanleg húsakynni. Ég hef svo ekki meiru við þetta að bæta.