27.09.1944
Neðri deild: 56. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1519 í B-deild Alþingistíðinda. (4191)

148. mál, dýrtíðarráðstafanir

Frsm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. — Þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 367, snertir það höfuðdeilumál, sem mest hefur verið rætt um og einna mest ósamkomulag hefur orðið um á síðustu þingum, sem sé hið svokallaða dýrtíðarmál, sem kemur inn á flest svið í þjóðfélaginu. Er öllum kunnugt það kapphlaup, sem vexið hefur undanfarin ár milli kaupgjalds og afurðaverðs. Hefur það valdið mörgum mönnum áhyggjum um, að það sé mjög líklegt til að koma atvinnuvegum landsmanna í stóran vanda þá og þegar. M.a. hefur ekki sízt verið um það rætt og deilt á undanförnum árum, hvert hlutfall ætti að vera milli afurðaverðs landbúnaðarins annars vegar og kaupgjalds hins vegar. Við bændur höfum litið svo á, að á öllu tímabilinu frá 1930 til 1941 hafi þetta hlutfall verið okkar stétt mjög óhagstætt og af því hafi það sprottið, að fólk hafi flutt meir úr sveitum að sjó en ella. Sættir þær, sem urðu í þessu máli með starfi sex manna n. í sambandi við þau l., sem hér er farið fram á að breyta, voru því bændastéttinni allri og landsmönnum öllum mikið gleðiefni, og á þeim sættum byggðu menn þá von, að hér væri fengin undirstaða til frekari friðar á þessu sviði en verið hafði.

Nú er það kunnugt, að á þessu hausti er það, sem þessi l. áttu að koma í framkvæmd í fyrsta sinn, og samkvæmt útreikningi hagstofunnar átti verðlag á landbúnaðarafurðum að hækka um 9,4%. Nú var það að vísu svo, að á síðari hluta tímabilsins hafði kostnaður við framleiðslu á landbúnaðarvörum hækkað meira en sem þessu nam, en af því að það var ekki nema nokkurn hluta tímabilsins, þá varð hækkunin ekki meiri.

Það mætti því þykja undarlegt, að fram skuli koma till. um að fella þessi 9,4% niður. En það er líka kunnugt, að ef ætti að halda óbreyttu verðinu innan lands og bæta það, sem út er flutt, þá mundi það kosta ríkissjóð 30 millj. kr. Hér er því mikill vandi á ferðum, og vissulega hefur það verið mikið deiluefni, að hve miklu leyti væri lagaréttur fyrir framleiðendur þessara vara að fá það verð, sem raunverulega var ákveðið með þessu samkomulagi. Ég hef, og ég hygg, að svo hafi verið um fleiri, sem hafa staðið að samningu þessara l. eða að öðru leyti hugsað um þau eða fjallað, litið svo á, að hér væri í raun og veru ekki annar lagaréttur en sá, sem hefði skapazt í sambandi við skilning á þessum ákvörðunum. Hins vegar er það gefin sök, að um leið og ríkisvaldið tekur í sínar hendur nokkuð af þessari vöru með því að ákveða lægra útsöluverð en sem samsvarar þessum ákvörðunum, þá skapast um leið lagaréttur til, að ríkið ábyrgist bændum verð á hinum hlutanum. Þegar svo var komið eins og nú blasti við um miðjan þennan mánuð, þá varð að taka einhverjar nýjar ákvarðanir í þessu sambandi, og var þá náttúrlega um tvennt að velja eða kannske þrennt. Það var um það að velja í fyrsta lagi, hvort ætti að láta ríkið borga allan þann mismun, sem um er að ræða, og halda vísitölunni í því sama og verið hefur. Í öðru lagi var um það að ræða að sleppa öllu lausu og ákveða verð á þessum vörum innan lands eins og fulltrúar bændastéttarinnar töldu sér hentugast, sem hefði þá orðið mjög miklu hærra og hefði þá hækkað vísitöluna um 30–40 stig að minnsta kosti. Í þriðja lagi var að breyta til og sleppa nokkru af þeim rétti, sem bændastéttin hefur varðandi þessi mál.

Nú hefur það komið í ljós við athugun hér á þingi, að mjög litlar líkur eru fyrir, að meirihlutavilji sé fyrir því, kannske ekki nema fárra manna vilji, að gengið sé inn á þá braut. að fullt verð sé ákveðið og allur mismunurinn sé borgaður á milli, án þess að nokkuð sé slakað til. Hér var því úr mjög vöndu að ráða, og það mun hafa verið ekki hvað sízt vegna samningaviðleitni flokkanna og athugunar þeirra á málunum, að stjórn búnaðarþings kallaði saman aukabúnaðarþing í síðustu viku til að fjalla um það mál, sem hér er um að ræða. Búnaðarþing var kallað saman til þess að vita, hvort ekki væri hægt á frjálsan hátt að fá samkomulag um að sleppa nokkru af þeim rétti, sem hér stóðu lög til. Var það byggt á þeirri grundvallarskoðun, sem ríkir meðal meiri hluta alþingismanna, að það væri bezt, ef unnt væri, til að komast eitthvað áleiðis í dýrtíðarmálunum, að fá samþykki stéttarfélaga eða forráðamanna stéttanna til að falla frá þeim kröfum, sem þær höfðu gert, og koma þannig málunum í það horf, að allri þjóðinni væmi fyrir beztu. Eins og kunnugt er, varð niðurstaða búnaðarþings sú í vikunni, sem leið, að það samþ. að falla frá réttinum um þessa 9,4% hækkun á landbúnaðarvörum innan lands gegn því, að haldið væri að öðru leyti í sama horfi og verið hefur undanfarið. Þessi ákvörðun búnaðarþings er hér formuð í þessu frv., sem hér liggur fyrir sem lagabreyting, og skal ég ekki að þessu sinni fara langt út í að lýsa því, hvaða arsakir liggja til þess, að búnaðarþing hefur vikið inn á þessa braut, en kem kannske að því síðar.

Í þessu frv., sem hér liggur fyrir, eru þrjú meginatriði. Í fyrsta lagi að fella niður þessa 9,4% verðhækkun, og það er tilskilið, að það sé fellt niður fyrir eitt ár, frá 15. sept. s.l. og til 15. sept. næsta ár. Þar með er náttúrlega ekki verið að neita þeim grundvelli, sem sex manna n. samkomulagið var byggt á, heldur er hér um að ræða bráðabirgðaskipan. Í öðru lagi er ákveðið með þessu frv., að útflutningsuppbætur skuli halda áfram á þær framleiðsluvörur landbúnaðarins, sem þarf að flytja út úr landinu. Í þriðja lagi er svo ákveðið með þessu frv., að halda skuli útsöluverði landbúnaðarafurða óbreyttu áfram með framlagi úr ríkissjóði.

Ég skal þá fara nokkrum orðum um þessi atriði hvert fyrir sig.

Varðandi eftirgjöf á þessari 9,4% hækkun, þá er áætlað, að það muni ríkissjóð 8–10 millj. kr. borið saman við, að það hefði verið borgað að fullu og dýrtíðinni haldið óbreyttri. Hvað frv. snertir, þá er sett í það af hálfu þeirra, sem umboð hafa fyrir bændur á búnaðarþingi og hér á þingi, í 2. lið sú varakrafa, að ef kaupgjald hækkar á þessu tímabili á þá lund, að það verði til að hækka framleiðslukostnað á landbúnaðarafurðum frá því, sem hann er, þá skuli verðlagið hækka í samræmi við það. Ég segi, að það sé varakrafa, því að við, sem að þessu frv. stöndum, gerum ráð fyrir, að til þess þurfi ekki að koma, vegna þess að það ætti að vera mjög ólíklegt og væri mjög óheppilegt, ef til þess þyrfti að koma, um leið og gengið er inn á þessa braut af hálfu bændastéttarinnar, að kaupgjald og þá um leið framleiðslukostnaður yxi á þessu tímabili. Þetta er því meira gert í varúðarskyni en af hinu, að gert sé ráð fyrir, að þetta þurfi að koma til framkvæmda. Það mundi hafa mest áhrif, ef kaupgjald í opinberri vinnu hækkaði á næsta vori, og er þá sjálfsögð og eðlileg krafa af hálfu bændastéttarinnar, að vöruverð hækki í samræmi við það. Þetta er því sett í varúðarskyni, ef til þess þyrfti að taka, en við skulum allir vona, að til þess þurfi ekki að koma.

Varðandi útflutningsuppbæturnar, sem eru miðaðar við ársframleiðslu á landbúnaðarvörum, þá er ekki hægt að segja um það frekar nú en verið hefur, hvað þær mundu nema mikilli upphæð; það fer eftir því, hvaða verði vörurnar seljast erlendis og hvað mikið þarf að flytja út. Verðið, eins og það er ákveðið eftir till. sex manna n. er ekki hærra en það, að gera má sér von um, að það verði ekki stórupphæðir, sem greiða þarf á þær vörur, sem fluttar eru út, og er það miðað við það álit n., að verðið sé ákveðið nokkurn veginn í samræmi við það, sem ætla má, að vörurnar seljist erlendis. Aðalkostnaðurinn, sem af þessum ákvæðum leiðir, er bundinn við kjötframleiðsluna, og fer hann eftir því annars vegar, hvað verðið er erlendis, og hins vegar og kannske einna mest, hvað mikið þarf að flytja út af kjöti.

Það er nú svo, að með þessu fyrirkomulagi, að halda verðlaginu svona mikið niðri, að kjötið sé selt í heildsölu innan lands á 5.75 kr., þá er það mjög ódýr vara borið saman við annað, og sannleikurinn er sá, að nú er gert ráð fyrir, að slátrun verði með minnsta móti, m.ö.o., að kjötframleiðslan á markaðnum í haust verði með minnsta móti. Þess vegna má ætla, að það, sem þarf að flytja út af kjöti á þessu ári, verði minna en venjulega og þess vegna verði kostnaðurinn ekki eins mikill og t.d. s.l. ár.

Varðandi niðurgreiðslurnar, sem kallaðar hafa verið, sem eru uppbót á vörur, sem seldar eru á innlendum markaði, sem er mjög mikil upphæð, þá hefur frá upphafi verið ágreiningur um, hvort það sé rétt leið til úrlausnar í dýrtíðarmálunum að fara inn á hana eða að halda henni áfram. Fyrsta till., sem kom fram hér á þingi varðandi þetta mál. var flutt af mér 1940 í frv., sem ég flutti um að leggja fram 2 millj. í því skyni að bæta upp kjöt og mjólk. Því var illa tekið og talið fjarstæða ein að verja svo hárri upphæð til þessara hluta, og þess vegna náði það ekki fram að ganga. Svo leið og beið 1940, 1941 og 1942, og áfram hélt verðhækkunin og kauphækkunin, en fyrst 1943 er farið inn á þessa sömu leið og það í miklu stærri stíl en mér hafði nokkurn tíma dottið í hug, því að á árunum 1943 og 1944 hefur mjög miklum upphæðum verið varið til þessara niðurborgana, og ég held, að nú sé svo komið, að nálega allir hv. þm. séu á einni skoðun um, að ef þessu væri hætt og dýrtíðinni sleppt lausri, þá séu miklar líkur til þess, að meira eða minna af okkar atvinnuvegum stöðvist. M.ö.o., ef vísitalan færi upp í 320 eða þar í kring, þá yrði kaupgjald og annar kostnaður svo mikill, að ekki væri hægt að reka framleiðsluna við þau skilyrði. Þess vegna er það, að ég hygg, að mikill meiri hluti þings verði með því að halda þessu áfram í þeirri mynd, sem lagt er til í þessu frv. En þetta frv. er frá sjónarmiði okkar flm. aðeins byrjun, en undirstaðan undir því, að hægt sé að halda áfram á sömu braut. Frv. er byggt eins og menn vita á till. búnaðarþings, sem byggðar eru á víðsýni og þjóðhollustu. Vera kann, að það verði svo, að margir bændur, sem eru þessu ókunnugir og hafa ekki kynnt sér allar aðstæður, taki þessu illa og telji, að hér sé gengið á rétt bændastéttarinnar miklu meira en eðlilegt er og sanngjarnt. Ég er sannfærður um, að ef þessi viðleitni verður ekki undirstaða undir öðru meira, undir því að stoppa dýrtíðarkapphlaupið og koma til leiðar, að þessum málum verði skipað á annan og betri veg en verið hefur, þá verða þessir menn mjög óánægðir og vonsviknir fyrir, að þessi tilraun hafi ekki komið að því gagni, sem til var ætlazt. Áframhaldið þarf þess vegna að fylgja með. Í fyrsta lagi þarf, áður en þessu þingi lýkur, að afla fjármuna og það mjög mikilla til að fullnægja þeim kröfum, sem samþ. verða, þ.e.a.s., það þarf að fá fé til þessara hluta, sem að vísu hefði þurft ekki síður, þó að þetta frv. væri ekki samþ. Það byggist á því, hversu illa er komið með okkar ríkissjóð. Hann er ekki fær um að taka á sig þessi aukaframlög, án þess að aflað sé fjár með nýjum sköttum eða tollum. Í öðru lagi er það svo, að það mun vera ætlun margra og ég hygg vilji margra, að þetta ætti að verða byrjunarundirstaða að samvinnu á þingi um: myndun ríkisstjórnar, og ímynda ég mér, að óhætt sé að segja, að það sé ein höfuðorsökin til þess, að tveir af nm. í fjhn. hafa ekki gerzt flm: að þessu frv., að þeir vildu fá til vegar komið, áður en málið yrði sett inn í þingið, undirbúningi að frekara framhaldi í þessu sambandi, en við hinir, sem flytjum frv., lítum svo á, að þessi byrjun mætti ekki dragast, til þess að hægt væri að feta sig áfram lengra á þeirri braut, sem hér er um að ræða, sérstaklega ef það gæti orðið til að leysa þær deilur í okkar þjóðfélagi og baráttu milli stétta, sem nú standa yfir. Það mundi þess vegna verða fagnaðarefni, ég hygg fyrir flesta, ef ekki alla hv. þm., ef samþykkt þessa frv. gæti orðið byrjunarundirstaða undir að leysa Alþingi úr þeim dróma, undan þeim krossi, sem það hefur mátt bera á undanförnum árum út af því ástandi, sem hér hefur ríkt.

En um leið og inn á það er gengið af hálfu umboðsmanna bænda á búnaðarþingi og Alþingi að sleppa þeim rétti, sem bændur eiga til hærra verðs, þá ætti það að vera hvöt og áskorun til annarra stétta að ganga sömu leið. Það ætti að vera hvöt og áskorun til þeirra, sem standa nú í verkföllum. að hætta þeim verkföllum og láta byrja vinnu með sama kaupgjaldi og verið hefur. Ef það er álitið, að þeir atvinnurekendur, sem þar standa í deilum að hinu leytinu, hafi það góða aðstöðu, að þeir standist við að borga hærra kaup en þeir hafa gert, þá er miklu réttara að nota þá aðstöðu þeirra til skattlagningar heldur en að standa í slíkum vinnudeilum, sem hér hafa verið og eru.

Annars er það svo, að þótt það líti svo út, að hér sé í bili að nokkru leyti fórnað stéttarhagsmunum þeirrar stéttar, sem hér er um að ræða, sem sé bændastéttarinnar, þá er það líka fyrir hana gert, því að hún hefur ekki þá tryggingu sem skyldi fyrir sölu á sínum vörum. og það er þeim eins og öðrum fyrir beztu, að unnt verði að stöðva þetta kapphlaup, sem stefnir út í ófæru.

Ég vil því vænta þess, að þetta frv. verði samþ. hér á þingi, sem ég hef ekki mikla ástæðu til að efast um, það er mála líklegast til að hjálpa til, að snúið verði frá þeim háu fjárkröfum, sem gengið hafa allt of langt undanfarið.

Annars er það svo, að ekki verður komizt kringum það hér á þingi að það verður að fá glöggan og greinilegan útreikning á framleiðslutekjum þjóðarinnar, svo að hægt sé að fá réttar og raunhæfar upplýsingar um, hvaða kostnað, kaup og laun atvinnuvegirnir þola til að geta borið sig í rekstri, svo að það sé ekki alltaf gersamlega í óvissu, eins og verið hefur undanfarið. En ef þingið gengur á annað borð inn á þá braut, þá ætti það að vera hvöt fyrir þá menn, sem sitja hér á þingi, að ganga ekki lengra en góðu hófi gegnir í að hækka fastalaun, sem hér munu vera allháværar kröfur um.

Í trausti þess, að hv. þm. sjái, að hér er stefnt á rétta braut, og vinni að því allir í sameiningu, að haldið verði áfram á henni og að það verði undirstaða undir frekara samstarfi, þá vænti ég, að frv. nái fram að ganga. Ég sé ekki ástæðu til að leggja til að svo stöddu, að frv. verði vísað til n. Það er flutt af meiri hl. n. og hefur verið þar til meðferðar undanfarna daga, en náttúrlega ræður hæstv. forseti því og d. í heild sinni.