09.10.1944
Neðri deild: 61. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1586 í B-deild Alþingistíðinda. (4215)

148. mál, dýrtíðarráðstafanir

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti. — Það er í raun og veru ekki miklu við að bæta það, sem áður var komið fram í þessu máli. Því, sem máli skiptir, hefur verið svarað, og tel ég því ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um það eða taka fram margt í því sambandi umfram það, sem ég gerði síðast. Ég vil þó benda á, að það er nokkurt misræmi í því, sem kom fram hjá hv. 2. þm. Reykv. og reyndar fleirum, þegar hann talaði um landbúnaðinn, og hefur hv. 2. þm. N.-M. svarað því að nokkru.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að niðurgreiðslur á verði landbúnaðarafurða innan lands væru ekki neytendastyrkur eins og nú væri komið, en að þær gætu verið það, ef annað fyrirkomulag yrði tekið upp. En ef verðið er miðað við það, sem neytendur hafa fyrir sér hér og framleiðendur hafa fengið greitt eftir á, þá kemur þetta vitanlega í sama stað niður. En samtök bænda hafa óskað þess, að þeir fengju strax greiddar verðuppbæturnar, en þyrftu ekki að bíða langt fram á næsta ár eftir þeim greiðslum. Þá væri þetta framleiðslustyrkur, en ekki neytendastyrkur. En vitanlega er útkoman alveg sú sama. Það væri þó betra fyrir framleiðendur, að þessi háttur yrði hafður, til þess að þurfa ekki að bíða langt fram á næsta ár eftir að fá greiðslur úr ríkissjóði, því að þá fengju þeir staðgreiðslu. Það hefur verið talað um, að þessi háttur yrði á hafður hjá mjólkurframleiðendum. Ég er ekki á því, að þetta sé framleiðslustyrkur, heldur eru þetta greiðslur til þess að halda dýrtíðinni í skefjum og til þess að gera framleiðsluna samkeppnisfæra. Það hefur verið talað um, að ef þessi háttur yrði á hafður, þá yrði hann erfiður í framkvæmd. En vitanlega kæmi þetta betur út fyrir framleiðendur, því að þá fengju þeir staðgreiðslu í stað þess að verða að bíða langt fram á næsta ár með að fá þessa styrki borgaða, hvað sem þeir nú eru kallaðir. Ég get verið hv. 2. þm. Reykv. sammála um þetta, því að það er heppilegra frá sjónarmiði framleiðendanna.

Hv. 2. þm. Reykv. var með nokkrar hugleiðingar um landbúnaðinn og um það, hve allt sé þar í miklum ólestri, en hann viðurkenndi um leið, að hann væri ókunnugur íslenzkum landbúnaði og þekkti ekkert til hans, og eins og svo greinilega kom fram í fullyrðingum hans, er hann ókunnugur því starfi, sem þar fer fram.

Hv. 2. þm. Reykv. talaði um það, hve tækni landbúnaðarins væri mjög á eftir miðað við aðra tækni í þjóðfélaginu og afköst landbúnaðarins væru í slæmu lagi af þeim ástæðum. Hann tók til dæmis úr sex manna nefndar álitinu meðalbú, sem hefur 70 fjár, 4–5 kýr og 6 hross. Hann sagði. að ef bú þetta þyrfti að greiða 12 þús. kr. í verkalaun, hlytu vinnuafköst að vera þar mjög slæm og ekki eins og vera þyrfti, það þyrfti að breyta um til þess, sem er í Rússlandi. En nú er það vitað, að þessi framleiðslutækni, sem hann talaði um, er notuð á sumum búum á landinu, sem einkum eru rekin af ríkinu og eru eins og hann vili hafa þau með allri véltækni og vanalega við bæina, þannig að stutt er að koma vörum þeirra á markað og að þeim er reiknað sama afurðaverð og sex manna nefndin ákvað, en þau geta samt ekki staðið undir rekstri sínum. Það er sýnt, að tæknin ein dugar ekki til að standa undir rekstri þeirra. Þegar talað er um að reka allan landbúnað á Íslandi með slíkum stórbúum, þá höfum við sannanir fyrir því, að þau þurfa fullt eins mikinn framleiðslukostnað og þau bú, sem miðað er við í sex manna nefndar álitinu. En þessir menn ættu að skilja það allra manna bezt, hvers vegna svona er komið. Það er af því, að kaupkröfur eru orðnar svo mikill hluti af framleiðslukostnaðinum og alveg ósambærilegar við það, sem er í öðrum löndum. Ég er sannfærður um, að ríkisbúin í Rússlandi búa ekki við kaupgjald neitt svipað því, sem hér er um að ræða og ekki þurfi marga daga til að færa það niður. ef þörf er á. Ég veit líka, að stórbúin í Ameríku búa ekki við neitt svipað kaupgjald og hér er um að ræða. Við höfum því samanburðinn í okkar eigin landi og vitum, að duglegir menn standa fyrir þessum búum. og þau þurfa ekkert minna til þess að geta staðið sig heldur en meðalbú. En vitanlega er þetta svona, af því að þeir menn, sem lifa í strjálbýlinu, gera minni kröfur til lífsins. Ef þeir gerðu sömu kröfur og menn gera hér í Reykjavík, væri framleiðslukostnaðurinn vitanlega margfalt meiri heldur en hann er.

Hv. 2. þm. Reykv. ræddi um það, að Framsfl. væri að kenna útstreymið úr sveitunum og að það stafaði af því, að ekki væri unnið nóg að því að skapa landbúnaðarbyltingu og koma landbúnaðinum í betra horf. En hann játaði, að af því mundi leiða margfalt meira útstreymi úr sveitunum, vegna þess að fólkið hefði þar ekki allt atvinnu. Það að taka vélar í notkun gæti orðið til þess að kippa atvinnunni undan nokkrum hluta landsmanna, nema þá með því móti að sjá þeim fyrir atvinnu ekki verri en þeir voru áður við.

Hv. 2. þm. Reykv. talaði um það, að ekkert vit væri í því að hafa menn við framleiðslu á vörum, sem ríkið ábyrgðist greiðslur á, hvort sem þörf væri á þeim eða ekki. Ég gleðst yfir að heyra þessa yfirlýsingu frá hv. þm., vegna þess að hans flokkur hefur haldið því skýlaust fram sem kröfu, að ríkinu bæri skylda til þess að skaffa fólkinu atvinnu, hvort sem ríkið hefði hag af því eða ekki. Ég á von á því, að sú krafa komi upp, ef einhvern tímann kreppir að með atvinnuvegina, sem ég er viss um að verður, þegar öll ástands- eða setuliðsvinna hverfur úr sögunni og atvinnugreinarnar dragast saman, vegna þess að þær verða ekki samkeppnisfærar á erlendum markaði. Það er gott að hafa þessa yfirlýsingu frá formanni Sósfl. fyrir fram, að vitanlega eigi enginn maður í þjóðfélaginu heimtingu á því, að ríkið borgi vinnu, sem engin þörf er fyrir, og fyrst og fremst þurfi þjóðfélagið að hafa gagn af því, sem unnið er. Ég er að mörgu leyti sammála þessu, en ég bjóst bara ekki við því frá þessum hv. þm., því að áður hefur oft kveðið við annan tón hjá honum.

Það er ekki heldur mikið í samræmi við þau fögru orð, sem hann lét hér falla um það, að miklu meira þyrfti að vinna að umbótum í sveitunum, það, sem komið hefur fram hjá þessum hv. þm. og flokki hans gagnvart þeim málum, sem sveitirnar varðar mestu, og skal ég benda á nokkur mál, sem ég veit, að hann kannast við, hver afstaða hans flokks hefur verið til.

Það hefur verið skoðun okkar í Framsfl. og krafa, að til þess að skapa svipuð þægindi handa öllu fólki í landinu, þurfi að fá þá orku, sem til þess þarf að koma á, svipaðri tækni í sveitunum og hér er í kaupstöðunum. Það, sem sveitirnar þurfa að fá er rafmagn, og þess vegna hefur hér á hv. Alþ. verið borin fram till. um, að sveitirnar fái til þess sömu aðstöðu og kaupstaðirnir hafa nú. Ég veit ekki betur en að þessi hv. þm. og flokkur hans hafi barizt móti því. að sveitirnar hefðu þar jafna aðstöðu, og sagt, að kaupstaðirnir ættu að ganga fyrir og að það væri ekkert vit í því að fara að leggja rafmagnstaugar út um allt land. Kaupstaðirnir eiga að ganga fyrir. segja þeir. Þar hafa þeir tekið afstöðu með þeim ríkari, en þeir vilja ekki hjálpa þeim, sem ekki hafa fengið þessa aðstoð.

Í strjálbýlinu þarf að gera margar framkvæmdir saman borið við það, sem þarf í þéttbýlinu, og þessar framkvæmdir á að gera jafnauðveldar fyrir þá. sem búa í sveitunum, og þá, sem búa í þéttbýlinu. Ég hygg, að erfitt sé að færa fólkinu sambærileg kjör, hvar sem er á landinu, öðruvísi en því séu veittir sömu möguleikar til að njóta sömu þæginda og sömu aðstöðu til starfa eins og þeir, sem hafa hana bezta.

Þá taldi hv. 2. þm. Reykv., að þegar þm. Siglf. hefði verið að tala um, að afköst landbúnaðarins væru ekki nema 1 á móti 70 samanborið við sjávarútveginn, þá hafi hann átt við þungamagnið, en ekki við verðmæti afurðanna. Það sér nú hver maður, hve viturlegt er að bera saman þungamagnið, en ekki verðmætið. Ég hygg, að jafnvel úreltur atvinnuvegur gæti sýnt langmest þungamagn. Auk þess var það augljóst, að hv. þm. hafði enga hugmynd um, hvað þungamagn landbúnaðarafurðanna er, þar sem hann taldi alla mjólkurframleiðslu í landinu minni en þá mjólk, sem kemur á Reykjavíkurmarkaðinn, og annað var eftir því hjá þessum hv: þm. Slík rökfærsla, að bera saman þungamagnið, gerir engan mann vitrari, leysir ekki úr neinum vanda og færir engan nær því raunverulega í þessum málum.

Um bollaleggingar hv. 2. þm. Reykv. um það, að landbúnaðinum sé haldið niðri af pólitískum ástæðum, sé ég ekki ástæðu til að ræða. En sé svo, að landbúnaðinum sé af pólitískum ástæðum haldið niðri, þá er það gert af þeim flokki, sem ekki vill veita lið og aðstoð þeim till., sem hér hafa komið fram um aðstoð við hann og endurbætur á honum. Fyrir öllum tæknilegum framförum landbúnaðarins hefur Framsfl. barizt, en flokkur hv. 2. þm. Reykv. á móti þeim. Þeir hafa barizt á móti rafmagnsmálinu og ræktunarmálinu, og frá þeim hefur andað köldu í nýbýlamálinu. þó að vitað sé, að búið er að koma upp mörgum nýjum býlum í landinu fyrir þessa löggjöf, þrátt fyrir mótstöðu þeirra. En nú ætla þessir hv. þm. víst að fara að gera betur, og ég fullvissa hv. 2. þm. Reykv. um það, að við framsóknarmenn munum ekki verða til þess að draga úr því, að þeir leggi fram krafta sína betur en þeir hafa gert hingað til til að bæta aðstöðuna hjá fólkinu í dreifbýlinu. Hingað til höfum við ekki heyrt annað en gyllingar, þegar þeir hafa talað um þessi mál, en mætt fullkominni andstöðu, þegar átt hefur að leysa málin hér á Alþ. Ég man ekki eftir neinu máli landbúnaðarins, sem þeir hafa viljað styðja. En þeir hafa komið með frv., sem hafa verið heldur illa undirbúin og í rauninni óframkvæmanleg, vitanlega í því trausti, að þau kæmu aldrei til framkvæmda, til þess að þurfa ekki að standa við það. sem í þeim var.

Ef landbúnaðinum hefur verið haldið niðri af pólitískum ástæðum, þá er það flokkur hv. 2. þm. Reykv., sem hefur gert það, en nú ætlar hann að bæta ráð sitt og láta þá, sem í dreifbýlinu búa, njóta réttlætis, eða ég held, að ég hafi mátt skilja þetta af ræðu hv. 2. þm. Reykv., og fagna ég því, að hann bersýnilega hefur bætt ráð sitt.