07.03.1944
Sameinað þing: 27. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 155 í D-deild Alþingistíðinda. (4245)

51. mál, hafnargerð í Ólafsfirði

Emil Jónsson:

Ég skal verða við tilmælum hæstv. forseta og stytta mál mitt.

Í fyrsta lagi vil ég skýra frá því, að hér er um að ræða verk, sem ekki mun kosta aðeins 200 þús. kr. eða 300 þús. kr., heldur 500 þús. kr., — það, sem ætlazt er til, að gert verði í sumar. Ríkisábyrgð sú, sem farið er fram á í brtt. á þskj. 150, yrði því alls ekki fullnægjandi, til þess að verkinu yrði lokið. Það, sem farið er fram á í þáltill. á þskj. 87, er aðeins, að ríkissjóður kaupi sjálfur efnið, sem nú hefur fengizt útflutningsleyfi fyrir frá Ameríku, en það verður að svara næstu dagana annaðhvort nei eða já, annars er engin von til, að efnið komi í tæka tíð, svo að hægt sé að vinna að hafnargerðinni á þessu sumri. En vegna synjunar sýslun. Eyjafjarðarsýslu um ábyrgð á láni fyrir Ólafsfjarðarkauptún til hafnargerðarinnar er þessi leið farin, svo að efniskaupin gangi ekki kauptúninu úr greipum.

Þegar lögreglustjóri Ólafsfjarðar fór fram á sýsluábyrgð, lá fyrir loforð frá peningastofnun hér um 300 þús. kr. gegn ábyrgð. Eins lá fyrir 275 þús. kr. frá ríkissjóði og loks loforð frá annarri stofnun um lán að upphæð 125 þús. kr. Málið lá þannig fyrir, að eðlilegt virtist, að sýslun. Eyjafjarðarsýslu hefði ekki látið á sér standa. Í langflestum tilfellum hafa sýslun. gengið í ábyrgð fyrir sama hluta og ríkissjóður, og ég er ákaflega hræddur um, ef einni sýslun. tekst að losa sig undan þessari ábyrgð, að aðrar komi á eftir. Þetta tel ég varhugavert, því að þessi hemill er ætlaður til þess að tryggja ríkissjóði það, að ekki verði ráðizt í verk, sem sýslun. telja óráðleg. Þess vegna legg ég nokkuð upp úr því, að þetta form sé nokkurs virði.

Nú er sá munur á þessum till., sem hafa komið fram annars vegar frá þremur hv. þm., sem flytja þáltill. á þskj. 87, og hins vegar frá hv. þm. Barð., að í hinni upprunalegu till. er gert ráð fyrir, að ríkisstj. sé heimilað að kaupa efnið, og hafði ég skilið það svo, að efnið yrði ekki afhent viðkomandi hafnarn. til afnota, nema trygging sú, sem l. heimta, sé gefin. En á þskj. 150 er heimilað, að ríkisstj. ábyrgist lán án nokkurrar sýsluábyrgðar. Ég veit ekki, hvort það vakir fyrir tillögumanni, að þessarar ábyrgðar verði ekki síðar krafizt, en það er opin leið til þess. Ég held það felist ekki nein sérstök hætta í þessari till., eins og hún er úr garði gerð upphaflega, því að jafnvel þó að Ólafsfjörður gæti ekki notað efnið, yrði hægt að koma því í verð á annan hátt, en tryggt samt, að starfið þyrfti ekki að tefjast í sumar vegna ófullnægjandi ábyrgðar nú.

Ég skal viðurkenna, að það er varhugavert að ganga í ábyrgð fyrir þetta fé, þegar ekki er ljóst, hvert sýslun. stefnir, og gætir nokkurs misskilnings í áliti sýslun. Samkv. till., sem borin var fram í sýslun. og birtist í Degi, sem mér hefur rétt núna borizt upp í hendurnar, virðist hugur sýslun. sá, að koma sér í lengstu lög hjá því að taka á sig ábyrgð á lánum, en sér, að varhugavert er að ganga inn á þá braut vegna annarra.