11.02.1944
Sameinað þing: 15. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í D-deild Alþingistíðinda. (4265)

29. mál, Suðurlandsbraut um Krýsuvík

Gísli Jónsson:

Ég vil í sambandi við framlagið til Barðastrandarsýslu minna á, að þessi héruð hafa síðan um aldamót fengið stórar fjárhæðir til vegagerða, meðan Barðastrandarsýslu var gleymt. Hv. þm. og aðrir greiddu atkv. með 175 þús. kr. til Barðastrandarsýslu nú til að bæta fyrir gamlar syndir, því að undanfarið hefur aldrei verið lagt fram það til vegagerða þar, sem sýslan átti heimtingu á í samanburði við önnur héruð. Og ég er viss um, ef það væri lagt undir dóm hlutlausra manna, að Krýsuvíkurvegurinn mundi ekki koma nr. eitt, tvö eða þrjú. Ég þekki fleiri kjördæmi en Barðastrandarsýslu, sem enn þá líða undir því að geta ekki fengið einn vegarspotta, hvað þá fjóra, eins og hér er lagt til. Þessi hv. þm. hefur aldrei svarað því, hvort nauðsynin að flýta Krýsuvíkurveginum sé svo mikil, að verjandi væri að taka það fé, sem lagt er til annarra hreppa héraðsins í vegafé, til þess að fullnægja þessari þörf, því að fáist ekki um það samkomulag, þá er þörfin ekki eins mikil og hann vill vera láta. En það, að hann vill ekki ræða grundvallaratriðin fyrir till. 1942, sýnir, að allt, sem hann hefur sagt um það atriði, er á engum rökum reist.