10.03.1944
Sameinað þing: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í D-deild Alþingistíðinda. (4320)

67. mál, norræn samvinna

Stefán Jóh. Stefánsson:

Ég vil fyrst og fremst geta þess, að ég tel það mjög vel til fundið fyrir margra hluta sakir, að Alþingi Íslendinga gefi nú af sinni hálfu yfirlýsing um ákveðna samúð sína með hinum Norðurlandaþjóðunum og lýsi yfir vilja sínum um náið samstarf við þær eftir styrjöldina, þegar samgöngur takast af nýju. Þetta á að koma fram einmitt nú. Við höfum verið nokkur ár sviptir hinum sterku samböndum, sem milli voru, en sá tími hefði sízt átt að verða til þess, að þau gleymdust. Þegar rás viðburðanna hefur kastað okkur út úr einangruninni, finnst mér eðlilegt, að við myndum þeim mun betur eftir tengslum, sem við áttum áður við vinaþjóðir. og sýndum vilja til að endurnýja þau. Þar að auki er það mín skoðun sérstaklega, að það geti horft til mikils menningarauka og öryggis sjálfstæði okkar, ef við höfum sem mest og bezt samskipti við hinar Norðurlandaþjóðirnar. Og þegar við undirbúum algeran skilnað við eitt Norðurlandaríkið, finnst mér næsta nauðsynlegt, að sá atburður yrði síður en svo til að fjarlægja okkur öðrum Norðurlöndum. Af þessum ástæðum og þeim, sem fram voru bornar af flm., tel ég tímabært og sjálfsagt, að till. nái einróma samþykki á Alþingi Íslendinga.

Um brtt., sem fyrir liggja, skal ég ekki vera margorður. Ég tel hvorki heppilegt né eðlilegt, að verið sé að magna upp mismunandi skoðanir, sem menn hafa á mismunandi athöfnum og mér liggur við að segja örlögum einstakra þjóða. Við eigum ekki að leggja okkar sérstaka mat á þá atburði, einmitt af því að kunnugt er þar um skoðanamun innan Alþingis. Þess vegna virðist mér yfirlýsingin eiga að ná til Norðurlandaþjóðanna allra, án þess að farið sé að ýfa upp nokkurn skoðanamun á framferði einstakra þjóða fyrr og síðar. Ég og margir þm., sem hafa ekki séð ástæðu til að nefna í yfirlýsingunni tvær tilteknar Norðurlandaþjóðir, við höfum e. t. v. engu minni samúð með þeim þjóðum en þeir, sem berjast nú fyrir að fá nöfn þeirra tekin sérstaklega í till.

Ég er þeirrar skoðunar, að allar Norðurlandaþjóðirnar heyi nú frelsisbaráttu, sem geti orðið örlagarík. Ég á ekki við það, að Íslendingar heyi nú frelsisbaráttu við neina aðra Norðurlandaþjóð, svo að við þurfum til þess á miklum kröftum að halda. En ef lega smáþjóðar er sú, að stórveldi sjái ástæðu til, með réttu eða af ímyndun, að telja sér land hennar mikilvægt á margan hátt eða þau freistist þar til einhvers konar íhlutunar, er aðstaða smáþjóðarinnar mjög vandasöm, og getur varla hjá því farið, að mjög reyni á þrek hennar á ýmsum sviðum. Þrjár Norðurlandaþjóðanna standa nú í styrjaldarógnum, og geldur hver þeirra um sig mikið afhroð, að sumu leyti óbætanlegt. Þó að Svíþjóð standi utan við, leggur það ríki þungar byrðar á herðar þjóðinni til að vera viðbúið aðsteðjandi atburðum, sem geta stofnað því í háska, hvenær sem er. Eftir því sem ég þekki til norrænu þjóðanna, þar með talinna Íslendinga, hafa þær mjög sterka frelsisþrá, og allar hafa þær sýnt, að þær vilja mikið til frelsisins vinna og til varðveizlu þess. Það hefur verið mjög mismunandi verð, sem þær hafa þurft fyrir það að greiða, en hugurinn jafnan samur hjá þeim öllum.

Ég held því, að till. þessi, sem við þrír höfum flutt, hv. 1. þm. Reykv., hv. þm. Str. og ég, og hefur verið samin af skilnaðarn., tákni vel þann hug, sem þorri Íslendinga ber til Norðurlandaþjóðanna í frelsisbaráttu þeirra. Þær eiga ekki allar í stríði við hið sama, enda ráða því ekki sjálfar, hvernig sú barátta er hafin, en það er í hverju landi um sig barátta, sem verður að heyjast. Við Íslendingar, sem kosið hefðum að hafa engin afskipti af styrjöldinni, þar sem við fáum engu um úrslit ráðið, ættum að hafa nokkuð næma tilfinning fyrir þeim fórnum, sem aðrar smáþjóðir leggja fram í stríði, sem þær hafa lent í nauðugar.

Ég mun ekki ræða einstaka atburði, sem á Norðurlöndum hafa gerzt þessi ár, þótt til þess hafi gefizt nokkurt tilefni. Í raun og veru var samkomulag um þessa þáltill. í skilnaðarn., og sá flokkur, sem nú berst fyrir að breyta henni, átti kost á að starfa að samning hennar eins og aðrir, þótt það sé rétt hjá hv. 2. þm. Reykv., að hann vildi hafa á henni annað orðalag en varð. Ég tel, hvort sem brtt. á þskj. 197 verður samþ. eða ekki, að þáltill. feli það í sér, sem segja þarf: En brtt., sem úr samkomulagi geta dregið og hindrað, að þál. fái einróma fylgi, eru skaðlegar.