10.03.1944
Sameinað þing: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 207 í D-deild Alþingistíðinda. (4323)

67. mál, norræn samvinna

Jónas Jónsson:

Ég ætla aðeins að segja fáein orð út af þeim skriflegu brtt., er fram hafa komið hér á síðustu stundu. — Ég vildi hér undirstrika það, sem raunar áður hefur verið gert af hv. aðalflm. till., að í svona máli, sem er það vandamál, er snertir alla íslenzku þjóðina og sambúð hennar við aðrar þjóðir, er óhugsandi, að bráðabirgða brtt., sem kastað er inn í þingið á síðustu stundu, geti bætt þær till., sem gerðar hafa verið af fjölmennri n., er unnið hefur að þeim um langan tíma. Ef nokkurn tíma ætti að neita um afbrigði fyrir till., væri það undir þessum kringumstæðum, af því að slíkt hugsunarleysi má ekki eiga sér stað.

Í þessu sambandi vil ég rifja það upp enn einu sinni, að ekkert hefur glatt íslenzku þjóðina meira í sambandi við meðferð sjálfstæðismálanna síðastliðna mánuði en sú sameining, sem orðið hefur hér á Alþ. um skilnaðarmálið og allt, sem því viðkemur, eftir að þjóðin óttaðist, að um það kynni að verða ósamlyndi. Það er áreiðanlegt, að virðing þjóðarinnar hefur ekki aðeins vaxið, heldur hefur Alþ., ríkisstj. og einstakir menn réttilega vaxið í áliti fyrir þátttöku sína í þessum málum, og verður það ekki metið til fulls, hversu mikilsvert það er fyrir smáþjóð, að hún standi saman í frelsismáli sínu og nái samkomulagi um það. Enda þótt það hefði ekki verið nema einn maður á móti skilnaði hér á Alþ., hefði það þýtt mikinn frádrátt við kjörborðið í vor, þegar að því kemur, að þjóðaratkvgr. fer fram. Og eitt er víst, að ekkert styrkir okkur eins út á við og sú sameining, sem hér hefur komið fram um þetta mál. Þess vegna er það mikið óhapp, að tveir þm. úr Sósfl. skyldu sjá ástæðu til þess að koma fram með brtt. um þetta mál, hvað sem þeir annars kynnu um það að hugsa, eftir að flokksbræður þeirra í skilnaðarn. ásamt hinum flokkunum voru búnir að koma sér saman um meðferð málsins þar. Það er því mikið óhapp, eins og ég hef áður sagt, að tveir þm. fara að reyna að gera till., sem hefði verið vel frambærileg á venjulegum tímum og ef um venjulegt mál væri að ræða, en eins og nú er ástatt, getur aðeins leitt til sundrungar um þetta mál og er eingöngu til leiðinda. Það er því langt frá því, að þeir, sem að þessari brtt. standa, geti nokkuð grætt á henni, heldur skaðast þeir mest á henni sjálfir, einmitt þar, sem þeir sízt vilja, hjá almenningi.

Út af síðustu brtt., sem komið hefur fram skrifleg, vil ég enn taka það fram, að æskilegt væri málsins vegna, að flm. tækju hana aftur, því að það hlýtur að vera talið óframbærilegt að ljúka þessu máli með skriflegum brtt., þar sem það er eins vel undirbúið og hægt er. Mér skildist á hv. 1. þm. Reykv., frsm. skilnaðarn., að till. þessar væru í raun og veru gerðar í samráði við skilnaðarn. til þess að fá sem sterkasta einingu í þessu máli, og álít ég því, að menn ættu að tala sem stytzt. Hins vegar verða þeir menn, er standa að brtt., að skilja það, að þeir ættu ekki að bera þær fram. En ef þær koma fram, er skylda okkar að fella þær, og er ekkert annað löglegt að gera þjóðarinnar vegna.