29.02.1944
Sameinað þing: 24. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í D-deild Alþingistíðinda. (4380)

41. mál, samgöngubætur frá Reykjavík austur í Ölfus

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. — Ég ætla aðeins að segja fá orð, mest út af þessari brtt., sem fram er komin. Ég lét í ljós, þegar ég talaði hér, að fyrir flm. mundi vaka nokkuð annað en till. bar með sér eftir orðanna hljóðan. Það bæri að skoða þetta sem rannsókn, sem nota mætti fyrir framtíðina, en þá á till. ekkert skylt við það mál, sem hér um ræðir, sem sé Krýsuvíkurveginn.

Þetta fékk ég staðfest, er hv. 1. flm. talaði. Þess vegna þætti mér rétt að breyta þessari till. nokkuð frekar, til að fela n. að athuga svo vandlega sem framast má vera t. d., hvort ekki væri hagfellt að leggja hér járnbraut, eða gera till. um sem hagfelldasta lausn samgöngumálanna að undangenginni nákvæmri rannsókn.

Ef till. væri breytt í þetta horf, eru mörg atriði í till., sem benda í aðra átt, og leyfi ég mér að benda sérstaklega á 3. tölulið. Ef n. á að gera svo margháttaðar og ýtarlegar athuganir, er útilokað, að hún hafi lokið þeim fyrir maílok. Mun láta nærri, að óhætt sé að fullyrða, að þessum rannsóknum yrði ekki lokið fyrr en að stríðinu loknu, hvað þá að hafizt verði handa um framkvæmdir, sökum þess að mjög margt þarf að sækja til útlanda af því, sem engin tök eru á að fá nú. Það er því ekki hægt að slá því á frest að greiða fyrir vetrarflutningunum. Þess vegna verður að breyta till. í þá átt, að svona löguð rannsókn verði að fara fram. Það má gera ráð fyrir, að nauðsynlegt væri, að fleiri en verkfræðingar létu til sín heyra um heppileg vegar- eða járnbrautarstæði. T. d. þyrfti að leita til þeirra, sem kunnugir eru snjóalögum, en það eru þeir, sem búa við samgönguleiðirnar. Það er fjarri mér að vilja gera lítið úr sérþekkingunni. Hún er ágæt þar, sem hún á við, en menn mega ekki einblína of mjög á hana. Gott dæmi þess er brú, sem byggð var yfir á fyrir nokkrum árum. Verkfræðingar ákváðu, hve miklu vatnsmagni skyldi gert ráð fyrir í ánni. En bændur, sem bjuggu þar nærri, töldu, að gera þyrfti ráð fyrir meira vatnsmagni, ekki sízt ef jakaburður væri. Þessu var ekki sinnt, en svo fór, að brúin fékk ekki staðizt flóðin í ánni, og tók hana af. Þar voru verkfræðingar að verki, þar skorti ekki sérþekkingu. En hvað gerist? Næsta vetur eftir að brúin var byggð, tekur áin hana, áin neitaði að taka tillit til sérþekkingarinnar. Ekki efast ég um, að verkfræðingarnir hafi reiknað rétt út; það, sem stóð á, var, hvað vatnsaflið var mikið, hvað það var máttugt. Ég vil líka benda á eitt atriði viðvíkjandi Krýsuvík, sem mun hafa verið sagt af fagþekkingu. Það var ekki vitað fyrir nokkrum árum, að þessi leið væri miklu snjóléttari en aðrar leiðir. Nú mælir enginn því í mót, sem nokkuð þekkir til um veðráttufar hér á landi, að þessi leið er snjólétt. Því var sem sé haldið fram af verkfræðingum, að á þessari leið væri mjög slæmt vegarstæði og væri því ekki hægt að leggja veginn á þessum stað. Þarna er að vísu misgott vegarstæði, erfiður kafli til þess að leggja veg yfir, en þó engan veginn óyfirstíganlegur, og nú er talað um snjóþyngsli þarna. Oft fellur þar snjór, en það munar ekki miklu á snjóþyngslum þarna og á láglendi, og við verðum að láta okkur lynda, þó að þessi braut geti orðið ófær jafnsnemma og láglendið, því lengra komumst við ekki í þeim efnum að velja snjólétt vegarstæði. Ég hef því mjög mikið við þessa brtt. að athuga, ef það er þannig, að þessari n. sé ætlað að dæma um allt það verkefni, sem þessi till. gerir ráð fyrir, og ekkert megi gera, fyrr en því er lokið.

Ég ætla svo ekki að blanda mér inn í það, sem farið hefur á milli hv. 1. þm. Rang. og samþm. míns, en af því að hann sagði, að það væri stundum svona, þegar arfi væri látinn í heyið, þá vildi hitna í, þá vil ég benda honum á, að ef hann hefði ekki komið með þennan arfa inn í heyið, þá hefði aldrei hitnað í því. Nú skal ég reyndar segja það, að hann hefur látið það í ljós, að það beri ekki að skilja till. svo, sem hún eigi að vera neitt til hindrunar því, að vetrarvegur verði lagður eins fljótt og örugglega og við höfum frekast ástæður til. Ég mun nú greiða atkv. með þessari till. til n., þó að ég sé óánægður með efni hennar, og geri ég það í því trausti, að hv. fjvn. gerbreyti efni till. Ég mun ekki setja mig á móti því, að þessari umr. verði lokið og málinu síðan vísað til n., ef það er talið betur við eiga.