10.03.1944
Sameinað þing: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í D-deild Alþingistíðinda. (4434)

59. mál, talsímaþjónusta í verstöðvum vegna slysavarna

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. — Um afgreiðslu þessarar þáltill. varð samkomulag í fjvn., eins og segir á þskj. 204, og get ég strax um leið látið þess getið fyrir hönd okkar flm., að eftir atvikum og málavöxtum sættum við okkur einnig við þessa afgreiðslu. Að öðru leyti get ég vísað til þess, sem stendur í nál. á þskj. 204, og þeirrar till. til breyt. á sjálfri till., sem með því fylgir.

Í stuttri umsögn, sem póst- og símamálastjóri lét n. í té, eru ýmsar mikilsverðar upplýsingar um þessi efni, og þykir mér líklegt, að hv. þm. þætti fróðlegt að heyra ýmislegt úr umsögn hans, sem þó er tæplega tími til að fara út í nú. En þó vil ég geta þess, að í þessari umsögn eru þær upplýsingar, að skipatalstöðvar séu nú orðnar 422 talsins, en skipa- og bátafjöldinn alls 652, þar af 164 bátar undir 9 tonnum. Af þessum 164 bátum eru aðeins 9 með talstöðvar. Svo koma 198 bátar 10–19 tonna, og af þeim eru 132 með talstöðvar eða 67%. Af stærðinni 20–39 tonna eru bátar alls 136, þar af 129 með talstöðvar eða 95%. Af stærðinni 40–99 tonna eru alls 79 bátar, þar af 77 með talstöðvar eða 98%. Bátar, sem eru 100 tonna og þar yfir, eru alls 75, þar af 75 með talstöðvar eða 100%. — Þetta yfirlit sýnir, hversu útbreiddar talstöðvar eru orðnar í skipaflotanum. En það kom sérstaklega í ljós við umr. þær, er fram fóru í fjvn., að mikil þörf er á því, að sjómennirnir sjálfir á bátunum hafi vakandi auga fyrir þýðingu talstöðva, ekki aðeins fyrir þá sjálfa, þegar svo ber undir, að þeir þurfa að nota þær, heldur einnig vegna annarra til að geta orðið þeim að liði, þegar eitthvað vill til og bátarnir eru í nauðum staddir.

Um þessa sérstöku talsímaþjónustu, sem póst- og símamálastjóri í erindi sínu nefnir hlustvörzlu, segir hann og leiðir rök að því, að ef færa ætti út till., þannig að í hverri einustu verstöð væri hlustað, yrði mikill kostnaður því samfara. Það er sanni næst, að tilgangur flm. er ekki sá, heldur að hlustunarstöð gildi fyrir margar verstöðvar, og við það áttum við ekki sízt, þegar við lögðum áherzlu á hagkvæmt skipulag í þessum málum, að víða væri komið í veg fyrir mikinn tilkostnað. En þessi atriði öll þarf að taka til athugunar, og n. komst að þeirri niðurstöðu, að koma þyrfti á hlustvörzlu nú þegar í öllum helztu veiðistöðvunum og þá einkum í þeim, þar sem veiðar eru stundaðar að vetrinum.

Þá er í umsögn póst- og símamálastjóra lögð áherzla á, að það þurfi sólarhringshlustvörzlu við suðurströnd landsins í Hornafirði. Hann gerir að vísu aths. við, að það þyrfti að vísu kannske ekki að vera sólarhringshlustvarzla þar, en n. getur ekki séð annað en eins sé þörf á henni þar eins og hvar annars staðar. Þá eru Vestmannaeyjar og svo hér við suðurströndina Reykjavík, sem þá hefði a. m. k. gæzlu fyrir Akranes og ef til vill, ef hægt væri að koma því við, fyrir Suðurnes. En það taldi póst- og símamálastjóri ekki vera að fullu rannsakað, hvort verstöðvarnar á Reykjanesi hefðu jafnmikið gagn af hlustvörzlu í Reykjavík og t. d. Akranes eða veiðistöðvar norðan Faxaflóa. En þessi svæði eru talin af honum, — og það tekur n. undir, — vera þau, sem hafa þörf fyrir sólarhringshlustvörzlu þegar í stað.

Svo er það Ísafjörður og Siglufjörður. Við, sem höfum flutt þetta mál, teljum það nauðsyn, að staðir á Austurlandi, eins og t. d. Norðfjörður, sem hefur mesta útgerð þar, yrðu aðnjótandi þessarar hlustvörzlu þann tíma, sem sjór er þar mest

stundaður, en það mun vera mest sumar- og haustmánuðina. Sem sagt, þessar stöðvar, sem ég hef nú talið upp, eru nauðsynlegar að dómi bæði póst- og símamálastjóra og n. Hann minnist að vísu ekki á Norðfjörð sérstaklega, en ég held, að það sé af gleymsku. Það eru þessar stöðvar, sem af póst- og símamálastjóra og n. eru taldar þurfa að framkvæma þessa sérstöku hlustvörzluþjónustu nú þegar, að hlustað sé allan sólarhringinn.

Svo er þar fyrir utan lagt til, að ríkisstj. sjái svo um, að gætt sé fyllsta öryggis á varðskipum og gæzlubátum og þar þurfi hlustvarzlan að vera stöðugri en verið hefur. Það kom í ljós, þegar farið var að ræða málið í fjvn., að á sumum gæzlubátunum hafði það komið fyrir, að tæki til þessara hluta voru tímunum saman ónothæf, og má það furðu gegna. En þetta var upplýst, og þess vegna er skýrt frá því hér. Fjvn. lagði áherzlu á, að allt varðandi talstöðvaþjónustu á varð- og gæzluskipunum væri jafnan í góðu lagi og talstöðvaþjónustan þar rækt slindrulaust. Þá féllst n. einnig á það sjónarmið, sem fram kom hjá fagmönnum póst- og símamálastjórnarinnar, að samvinna sjómanna og báta væri mjög nauðsynleg, og má segja, að það starf, sem unnið er í landi bátunum til hjálpar, njóti sín ekki nema til hálfs, nema vel sé á móti tekið á sjónum. Sjómenn þurfa að gæta þess að hafa talstöðvar sínar í lagi og reyna eftir föngum að njóta þeirra, ekki einungis til þess að hlusta til lands fyrir sig sjálfa, heldur líka til að hlusta á aðra báta, og það er að því, sem 3. liður brtt. fjvn. snýr, að eftir slíku samstarfi við útgerðarmenn og talstöðvar sé leitað.

Það kom fram í fjvn., að í rannsókn væri að undirbúa heildarkerfi fyrir radíóvita og miðunarstöðvar, og benti þá ríkisstj. á það, að hún feli þeim sömu aðilum, sem nú vinna að því að undirbúa heildarkerfi fyrir radíóvita og miðunarstöðvar, hliðstæða athugun á því, hvernig hlustvörzluþjónustunni að þessu leyti yrði bezt fyrir komið. En hins vegar var n. á þeirri skoðun, að fleiri aðilar kæmu þarna til greina en sérfræðingar, sem stj. hefði falið þessa rannsókn, og taldi þörf á því að leita álits Slysavarnafélags Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandsins og Alþýðusambands Íslands um þetta mál. Er gert ráð fyrir því, að þessar stofnanir vilji góðfúslega láta menn frá sér til þess að ræða við þá sérfræðinga, sem eiga að undirbúa heildarkerfi fyrir radíóvita og miðunarstöðvar. Það er gert ráð fyrir, að þessir menn ræði sérstaklega við þessa sérfræðinga um það, hversu koma megi á sem beztan og öruggastan hátt talstöðvaþjónustu og hlustvörzlu í sambandi við slysavarnir, þannig að þessi merkilegu áhöld, sem líklega eru meira notuð af íslenzkum fiskiskipum en skipum annarra þjóða, geti orðið að sem beztu gagni og komið í veg fyrir slys, að svo miklu leyti sem það er unnt, og að öðru leyti til þess að hjálpa sjávarútgerðinni sem bezt á ýmsan hátt. N. er það ljóst, að þetta þarf gagngerðrar athugunar við og að margt þarf að athuga og lagfæra í þessum málum, bæði að því er snertir meðferð tækja í bátum, hlustvörzlu í landi og hlustvörzlu á sjó. Þó að n. hafi til bráðabirgða gert þær till., sem ég ræddi áðan um, þá er henni ljóst, að það er aðeins hluti af því, sem vinna þarf. Hún álítur, að bezt verði þetta skipulagt með því fyrirkomulagi, sem farið er fram á í brtt. á þskj. 204.