10.03.1944
Sameinað þing: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í D-deild Alþingistíðinda. (4441)

63. mál, fáninn

Frsm. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. — Það lítur út fyrir, að þetta mál, sem hér liggur fyrir, sé nokkuð flókið, því að margar hafa komið um það tillögurnar. Þegar málið var til meðferðar í allshn., var um það lítill ágreiningur, og var aðallega eitt, sem n. fannst nauðsynlegt að bæta við. Það var, að lagt yrði fram frv. til fánalaga í vor með það fyrir augum, að það yrði samþ. þá þegar, svo að til væru fánal., um leið og lýðveldið væri stofnað.

Aðrar breyt. voru smávægilegar. Þó varð það að samkomulagi að orða till. um. T. d. þótti ekki eðlilegt, að í henni stæði: „að sem flestir Íslendingar eignist fána“, — og er í stað þess komið: „að sem flest heimili á Íslandi eignist fána og noti hann“. Opinberum byggingum og fyrirtækjum er sleppt, þar sem fáninn er þegar til á öllum slíkum stöðum. Það ákvæði var fellt úr till. að fela ríkisstj. að gera þær ráðstafanir, sem flm. fara fram á í upphafl. till., en í stað þess lagt til, að Alþ. skori á bæjarstjórnir og sýslunefndir o. s. frv. að vinna að því, að fáninn verði notaður meira en gert hefur verið. N. fannst ekki ástæða til að kveða sterkar að orði, því að henni var ljóst, að ef lagt yrði fram frv. til fánalaga, mundi það tekið fyrir, hvernig landsmenn skyldu haga sér gagnvart fánanum.

Hv. flm. féllust þegar á, að rétt og nauðsynlegt væri að leggja fram frv. til fánal., þegar Alþ. kæmi saman næst, en óskuðu eftir, að till. yrðu samþ. eins og þær fóru frá þeim, að þessu einu breyttu.

En í kvöld er útbýtt hér nýjum till., og tveir af flm. þeirra eru einmitt flm. upphaflegu till. Þessar síðustu till. sýnast mér vera soðnar saman úr upphafl. till. og till. allshn., svo að ég get gert flm. það til þægðar að samþ. till. á þskj. 224. Þar halda þeir sér við það ákvæði, að Alþ. álykti að fela ríkisstj. þær ráðstafanir að hvetja til notkunar á fánanum, og ætlast þeir til, að ríkisstj. skipi bæjarstjórnum og sýslunefndum að framkvæma það verk. Það er engin ástæða til að hafa á móti því, að till. sé orðuð á þennan hátt, ef ríkisstj. vill verða við þeirri áskorun og talið er, að það sé heppilegra en með orðalagi allshn.

Í till. á þskj. 224 virðast flm. ætlast til, að ríkisstj. með samningsumleitunum við verzlunarsamtök tryggi það, að fáanlegt verði nauðsynlegt efni og fánastengur. Ég verð að segja, að ég kann betur við orðalagið eins og það var áður, að Alþ. beini þeirri áskorun til verzlunarsamtaka, að svo verði. Ég get ekki búizt við, að ríkisstj. fari í samningsumleitanir við verzlunarfyrirtæki um að hafa þetta efni, og skil ekki heldur, að svo mikið þurfi að hvetja verzlunarstéttina til þess. En þetta eru smámunir, sem óþarfi er að deila um, og ég get sem sagt gert flm. það til geðs að samþ. till. á þskj. 224.

Það er víst, að ekki er nema nauðsynlegt og eðlilegt að brýna fyrir landsmönnum að bera virðingu fyrir fána sínum og nota hann. Við vitum, að nágrannaþjóðir okkar sýna fánum sínum meiri virðingu en við gerum. Það er vart til bændabýli á Norðurlöndum, sem ekki hefur fánastöng. En hvað eru margir sveitabæir á Íslandi, sem eiga fána, og hve mörg íbúðarhúsin í kaupstöðunum? Þessu þarf að breyta. Fáninn er tákn frelsisins og hefur því áreiðanlega góð áhrif á alla Íslendinga og þroskar það, sem íslenzkt er og þjóðlegt.