15.06.1944
Efri deild: 34. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í B-deild Alþingistíðinda. (446)

76. mál, þjóðfáni Íslendinga

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Ég þarf ekki að svara hv. 1. þm. Reykv. Athugasemd hans var byggð á misskilningi. En hv. þm. Seyðf. hefur viðurkennt það, sem rétt er, að gr. hefði verið betur orðuð með því að gera þessa breyt. á henni, og hann bar ekki annað fyrir en það, að leitt væri að verða að hrekja frv. milli deilda. En þetta er engin afsökun. Hins vegar er það rétt, að 11. gr., eins og hún er nú, er algerlega óþörf að undanteknu því atriði, að l. taki ekki til borðfána, skrautfána og því um líkra fána. Það þarf ekki að setja neina gr. í frv. til að taka það fram, að l. nái til íslenzka þjóðfánans. Það er hugsunarvilla, og þess vegna þarf þessi brtt. að koma. Ég vænti þess, að hv. d. samþ. brtt. mína, eftir að hún hefur fengið þessa skýringu á málinu. Það þarf ekki að tefja málið, þó að það fari til Nd. aftur.

Hvað viðvíkur 12. gr., hefði ég óskað, að ýmislegt hefði verið nánar tiltekið þar, en ég vænti þess, að hæstv. ríkisstj. taki það fram á sínum tíma í reglugerð þar að lútandi, að ekki megi nota fánann fyrir snýtuklúta, illeppa eða bleiur, eins og gert hefur verið. Þessi l. eru til þess, að ekki sé hægt að nota fánann á alls konar varning, eins og fyrir hefur komið. Ég vænti þess, að till. verði samþ. Hún er til þess að bæta frv., en ekki skemma það.