22.02.1945
Efri deild: 134. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1628 í B-deild Alþingistíðinda. (4531)

148. mál, dýrtíðarráðstafanir

Hermann Jónasson:

Það er alveg þýðingarlaust að taka upp umr. á þeim grundvelli, sem umr. um þetta mál eru að komast á, en þó eru það einstök atriði, sem ekki er hægt að komast hjá að leiðrétta, og skal ég gera það þannig, að það gefi ekki tilefni til þess, að þessar umr. dragist úr hófi fram. Ásakanir, sem hér koma fram á Framsfl. fyrir það, að hann hafi ekki viljað mynda stj., eftir að stj. núverandi forsrh. sagði af sér 1943, eru alveg gripnar úr lausu lofti. Því að það, sem olli því, að erfiðleikar urðu miklir við stjórnarmyndun eftir 1942, var það ástand, sem skapazt hafði í íslenzku fjármálalífi á því tímabili, sem stj. Sjálfstfl. fór með völd, frá því um vorið 1942 og þangað til fram undir áramót sama ár, og það þýðir ekkert að tala í þeim dúr sérstaklega að ásaka einn eða neinn fyrir það, að ekki var hægt að mynda stj.. á þessu tímabili. Þvert á móti hefur það upplýstst, að á því tímabili munu sósíalistar, af hvaða ástæðu sem það var, alls ekki hafa viljað mynda stj., og það var upplýst 1944, að það stóð ekki á Framsfl. að mynda stj., þegar fulltrúar fjögurra flokka töluðu saman um það, svo að það er óþarfi fyrir þm. að hrista höfuð yfir því, það stóð ekki á Framsfl. að mynda stj. 1944. Þvert á móti lögðum við fram tilboð um það, að mynduð yrði 4 flokka stj., vegna þess að ekki teldist eðlilegt að mynda ekki þingræðisstj., en um það hafði ekki verið rætt opinberlega, en það er hægt að segja frá því opinberlega hér, og því hefur ekki verið mótmælt, að Framsfl. bauðst til þess 1944. Ég veit, að þeir þdm., sem þátt tóku í þessu, mótmæla því ekki, að Framsfl. bauðst til þess 1944 að taka þátt í stjórnarmyndun, án tillits til þess, hvernig stj. yrði mynduð, enda var, eins og hv. 1. þm. Eyf. tók fram, ekki sett neitt skilyrði. Ég veit, að á búnaðarþingi eru bæði sjálfstæðismenn og aðrir, sem gera sér einhverja hugmynd um það, hvernig þeir vildu helzt láta stjórna landinu, en þar komu ekki fram nein skilyrði. Bændur buðu þetta fram, sem er einstakt í dýrtíðarkapphlaupi því, sem nú ríkir, að gefa þetta eftir, og ég er ekki í neinum vafa um, að þeir gerðu alveg rétt, einnig með tilliti til þess, sem skeð hefur síðan. Ég hef alltaf hugsað mér íslenzka bændur svipaða Þorsteini Ingimundarsyni og býst við, að viðureign þeirra verði að lokum eins og Þorsteins rakka, sem margir þekkja. Þetta er eitt af því, sem bændur hafa gert á s.l. hausti, að stríða við þetta. Hitt er svo allt annað mál, að menn verða að gera sér það ljóst, um leið og þeir athuga, hvað það var, sem bændur gerðu á s.l. hausti, þegar þeir björguðu dýrtíðarmálunum og komu í veg fyrir það, að allt atvinnulíf landsins stöðvaðist, að sama ástandið hlýtur að endurtaka sig í september í haust. Það er búið að hækka kaupið, síðan bændur gáfu eftir 9,4% af því, sem þeir áttu að fá, með þeim vonum, að ekki yrði hækkað kaupgjald, og sú hækkun kemur fram eða á að koma fram í hækkuðu afurðaverði í haust. Það er að vísu enginn vafi á því, að bændur munu taka á þessu einnig með sanngirni, en samt sem áður er þess að gæta, að þeirra framréttu hönd hefur ekki verið mætt á þann hátt, sem verðskuldað var. Og að lokum þetta í sambandi við það, þegar talað var um stjórnarmyndun á s.l. hausti: Það er alveg rétt, að Framsfl. tók þátt í tilraunum til þess að mynda 4 flokka stj., og í okt. í haust. þegar hann gaf eftir og bændur höfðu boðið fram 9,4 % lækkunina á sínum afurðum, en ekki fengust svör um það hjá Alþýðusambandinu, að kaup yrði ekki hækkað, þá vildi Framsfl. ekki taka þátt áfram í þeim samningum, því að hann áleit þá, að þessi lækkun bænda væri á komin á viðunandi hátt. Framsfl. áleit jafnframt, að áframhald kauphækkana og með því að halda dýrtíðarmálunum áfram í því horfi, sem nú er gert af núverandi stj., væri stefnt í ógöngur, og hann er þeirra skoðunar enn. Við lítum, að lágmarkið væri það að stöðva dýrtíðina í haust. Um þetta var ágreiningurinn. Þess vegna er það alveg rétt hjá hv. 1. þm. Eyf., að þegar stj. var mynduð á þeim grundvelli að því er virtist að láta kauphækkanir halda áfram og dýrtíðina vaxa, þá var okkur framsóknarmönnum ekki boðin þátttaka í því. Það var alveg óafgert, hvað við hefðum gert, en samkvæmt fyrri afstöðu okkar í dýrtíðarmálunum hefði þurft að sannfæra okkur um það, alveg eiris og við þátttöku í 4 fl. stj., að sú stj., sem við tækjum þátt í, væri reiðubúin til þess að stöðva dýrtíðina og koma í veg fyrir kauphækkanir. Ég held þess vegna, að það sé óþarfi að vera að halda uppi deilum um þessi atriði, og þess vegna ætla ég að sleppa því. Það er alveg ljóst, að ágreiningur var um margt, en meginágreiningurinn var um þetta, hvort ætti að láta dýrtíðina halda áfram að vaxa eða hvort ætti að stöðva hana. Núverandi stj. gerir sig ánægða með það, að dýrtíðin haldi áfram að aukast svo sem hún hefur gert, síðan hún tók við völdum. Um þetta var ágreiningurinn, og ég held satt að segja, að það fari að styttast, þangað til það sést, hvor stefnan hefur verið réttari í þeim málum, og getum við því sjálfsagt sparað okkur deilur um það.

Viðvíkjandi tilboðum milli stjórna Sjálfstfl. og Framsfl. þá liggur það ljóst fyrir og er óþarfi að deila um það. Ég satt að segja veit ekki, hvaða pólitíska skoðun fyrrverandi forsrh. hefur dr. Björn Þórðarson, en hitt get ég upplýst í sambandi við það, sem hv. þm. Barð. sagði, að hann hefur alls ekki seinustu ár talizt til Framsfl. Og það tilboð, sem Framsfl. gerði um stjórnarmyndun Framsfl. og Sjálfstfl., þar sem bent var á Björn Þórðarson sem heppilegan forsrh., var miðað við það, að hlutlaus maður væri í oddasæti hjá þessum flokkum í ríkisstj., og tveir framsóknarmenn og tveir sjálfstæðismenn ættu þar einnig sæti. Við þetta var miðað, en þetta var ekki tilboð um það, að það væri ófrávíkjanlegt, að Björn Þórðarson yrði forsrh., þó að það virðist hafa verið ágreiningur um það á milli flokkanna, hvernig hafi átt að skilja það tilboð. Ég taldi rétt, að þetta sjónarmið kæmi fram í sambandi við þau ummæli, sem hér hafa fallið, án þess að haga þeim orðum á þann veg, að þau þyrftu að gefa tilefni til frekari umr. um þessi atriði.