26.02.1945
Efri deild: 136. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1644 í B-deild Alþingistíðinda. (4555)

148. mál, dýrtíðarráðstafanir

Gísli Jónsson:

Út af nokkrum ummælum, sem fram hafa komið í þeirri dagskrá, sem hv. þm. S.Þ. hefur borið fram, þykir mér rétt að leiðrétta nokkuð af því, sem þar kemur fram. Hann m.a. heldur því fram, að bændur hafi verið sviknir á tvennan hátt, fyrst og fremst um það, að ekki hafi verið mynduð ríkisstj. af Framsfl. og Sjálfstfl. í sambandi við þessa eftirgjöf. (JJ: Það voru ekki alveg þau orð.) Þetta hefur verið leiðrétt af öðrum. Hv. 1. þm. Eyf. fór um þetta nokkru mildari orðum, en hann hefur dregið það til baka, og hv. þm. Str. hefur lýst yfir, að það sé alveg tilhæfulaust. (BSt: Ég sagði aldrei annað en að það hefði verið búizt við því.)

Hv. þm. S.-Þ. segir einnig, að bændur hafi verið sviknir með því, að launahækkun hafi farið fram hér á landi á sama tíma sem bændur gáfu eftir. Þetta er ekki nema að nokkru leyti rétt. Ég vil leyfa mér að benda á, að í bráðabirgðaákvæðum þessa frv. stendur, að ef kaupgjald hækkar á þessum tíma, þá áskilji þeir sér rétt til að hækka vöruverðið í samræmi við það. Þarna er sleginn varnagli við því, að ef svo skyldi fara, að ekki tækist að lækka vinnulaun í landinu, ekki tækist að halda þeim í skefjum, heldur að þau hækkuðu, þá skyldu bændur fá það upp borið með hækkuðu verði á sínum vörum. Þessi rök eru nægileg til að sýna, að fullyrðingar hv. þm. í dagskránni eru algerlega út í loftið.

Mér hefur virzt hv. þm. halda fram, að það hafi verið farið ákaflega illa með bændur í þessu máli. Nú hef ég verið einn af þeim, sem hafa haldið mjög fast á rétti bænda í þessu máli, en mér þykir rétt í sambandi við þessi mál að benda hv. þm. S.-Þ. á þær staðreyndir, sem blasa við í þessu máli. Er þar fyrst að benda á, að þegar hagstofan safnaði gögnum 1942, var tekið framtal ákveðinna manna úr Reykjavík og víðs vegar um land, og niðurstaðan varð sú, að meðaltekjur manna, sem búa í þorpum, sem hafa yfir 300 og upp í 1000 íbúa, hafa á árinu 1942 verið 7600 krónur, meðaltekjur manna, sem búa í kauptúnum yfir 1000 íbúa, hafa verið 10100 kr., og meðaltekjur verkamanna og iðnaðarmanna í Reykjavík eru þetta ár rúmar 14000 kr., en verðlag á afurðum bænda innan lands er miðað við það, að þeir fái 14000 kr. í tekjur. Þessum tölum er ekki hægt að mótmæla, því að þær liggja skjallega fyrir. Er hér miðað við meðalbú, og hefur verið talið af mörgum, að það væri heldur lítið bú. Þá er ekki hægt að ganga fram hjá þeirri staðreynd, að bændum er skapað það verðlag, að þeir geta fengið rúm 14 þúsund, meðan enginn maður, sem býr utan Reykjavíkur, hefur sömu meðaltekjur. Það er því ófyrirgefanlegt að halda fram, að Alþ. hafi hér farið illa með bændur.

Árið 1943 verður talsverð breyt. á þessum tölum, þannig að þá eru meðaltekjur manna í þorpum 9900 kr., meðaltekjur manna í kauptúnum yfir 1000 íbúa rúmar 14000 kr., en meðaltekjur iðnaðarmanna og verkamanna í Reykjavík rúmar 20000 kr., og þá ættu meðaltekjur bænda að hækka að sama skapi og skrúfan að halda þannig áfram, þangað til hækkunin er orðin svo mikil, að eitthvað verður að gera til að laga þessi mál. Og þá var það, að bændur vildu heldur tryggja sér það, sem þeir hafa tryggt sér, að fá uppbætur á útflutningsafurðirnar, heldur en að taka á sig þá áhættu, sem hv. þm. Str. minntist á, að setja 18 krónur á kjötið og mega búast við að geta ekki selt nema örlítinn hluta af sínum afurðum.

Ég vil þá minnast á fullyrðingar hv. þm. Str. um það, að vitanlega ættu bændur rétt á þessu sama næsta haust án tillits til þess, hvort stríðinu væri þá lokið eða ekki. Ég er þar á annarri skoðun. Dýrtíðarl. frá 1943 eru staðbundin við það, að þau gildi ekki nema meðan stríðið standi, og það var einmitt vegna þess, að bændur litu svo á, þegar þeir gerðu samþykkt sína á búnaðarþingi, að kannske væri þá komið að stríðslokum, að þeir voru fúsir til þessarar eftirgjafar. Ég hef aldrei fyrr heyrt þann skilning á dýrtíðarl., að bændur ættu rétt á þessu eftir stríðslok eða kannske um aldur og ævi. Ég hygg, að það verði ekki sú stefna, sem verður tekin upp í þessu máli. Ég held, að þann dag, sem stríðið í Evrópu hættir, þá hafi bændur ekki lengur þann lagalega rétt, sem dýrtíðarl. veita: Hitt er annað mál, hvort þeir eigi siðferðilegan rétt til að vera ekki lægra settir en aðrir. En öll deilan um þetta mál stafar af þeirri stórkostlegu hagsmunastreitu, sem hefur verið milli bænda og verkalýðsins í sex manna n., því að bændur álitu, að þeir hefðu undanfarin ár haft minni tekjur en verkamenn og þess vegna þyrfti að setja þá hærra. En þetta álíta allir. Þarf þar ekki annað en að líta á þann urmul af brtt., sem komið hafa fram við launal. í Nd. Allir vilja þar komast upp undir það, sem þeir hæstu hafa. Ef í þessari n. hefðu verið ábyrgari menn en þar voru, sem hefðu unnið þannig, að það væri ekki þeirra hagur, að tekjur bænda færu sem hæst upp, þá hefði n. aldrei orðið sammála. En þeir sáu sér hag í, að afurðir bænda færu sem hæst upp til þess að launin færu sem hæst upp. Þess vegna vildu þeir láta vöruverðið fara sem hæst upp, svo að dýrtíðin færi sem hæst. (BSt: Vilja þeir það ekki enn?) Það getur vel verið. Og Alþingi var svo óhamingjusamt, að þar var enginn, sem sá þetta, og bændur sáu ekki heldur fótum sínum forráð, en nú eru menn farnir að sjá þetta betur, eftir því sem tímarnir líða.

Og dagskráin er sýnilega fyrst og fremst flutt til þess að komast í útvarpið. En ég held hv. þm. ætti að taka þessa till. til baka í trausti þess, að ekki líði langur tími, þangað til hann fái aftur inni í sínu gamla blaði. Ég veit, að dagskráin er ekki samin til annars en komast í útvarpið. (JJ: Þm. er af skáldakyni.) Útvarpið er eina tækið, sem hann getur komið máli sínu á framfæri í. En honum hefur oft tekizt betur að halda á pennanum en í þessari till. Það er ekki hægt að sjá, að hún sé samin af þm. S.-Þ. Hún er líka rituð við erfið skilyrði hér í hliðarherbergjunum. Ég vona hann dragi þessa dagskrá til baka og geymi hana, þangað til hann verður betur upplagður til að koma þessu máli til sinna manna.