26.02.1945
Efri deild: 136. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1647 í B-deild Alþingistíðinda. (4558)

148. mál, dýrtíðarráðstafanir

Jónas Jónsson:

Ég þakka hæstv. forseta fyrir sanngirnina, sem hann sýnir með því að leyfa okkur að gera grein fyrir máli okkar frekar.

Fyrst vil ég leyfa mér að leiðrétta hinn duglega og frjósama ræðu- og þingskjalagerðarmann, hv. þm. Barð., sem álítur, að það hljóti að vera af eintómri fordild, að ég kem með eina litla dagskrá. Ég verð að játa það, að mér finnst það furðulegt, að þessi þm., sem hefur áhuga á svo mörgum málum. skuli undrast það, þótt aðrir noti sér einn tíunda af þeim rétti, sem hann hefur tekið sér, oft með miklum árangri, til þess að hafa áhrif á gang mála. Fyrsti, þm. Reykv. hefur látið svo um mælt, að ég væri að tefja mál hér. Ég vona, að hv. þm. sjái, að það er ekki málþóf, þótt ég ræði þetta mál, því að ég tel þetta stórt fjárhagsmál, þar sem ég álít, að ranglega sé haft af stærstu stétt landsins 8 millj. kr. Og hv. þm. þarf ekki að ofbjóða ræður mínar, þar sem hann hélt stundum tveggja tíma ræður á sínum yngri árum. Mínar ræður eru lítilfjörlegar í samanburði við það.

Þar sem ég hef afar nauman tíma, get ég aðeins stiklað á stóru. Það hefur komið í ljós í þessum umr., að bæði fyrsti þm. Reykv. og þm. Str. vilja ekki viðurkenna þá túlkun á sex manna nefndar samningnum, sem blöð flokka þeirra gerðu, fyrst eftir að samningurinn var gerður. Blöðin túlkuðu samninginn þannig, að bændur gátu ekki skilið orðalagið öðruvísi en að ríkið stæði í ábyrgð fyrir þessum greiðslum. Og þegar ég ber það saman, sem blöð þessara flokka sögðu, eftir að samningurinn var gerður. og það, sem forráðamenn sömu flokka sögðu í haust í sambandi við stórt mál, er þá lá fyrir, og það, sem þessir menn endurtaka nú í þessum umræðum, þá styrkir það mig í þeirri trú, að skoðanaskipti hafi átt sér stað hjá leiðtogum þessara flokka. En vitaskuld má búast við því, ef kjötið hefði verið hækkað upp í 18 kr. kg, að hafinn hefði verið strækur af hálfu þeirra manna, sem búnir voru að hækka kaup sitt. Nú liggur það í hlutarins eðli, að það var lífsnauðsyn að halda landbúnaðarvörunum í lægra söluverði heldur en þær áttu að vera samanborið við aðrar vörur. Þar við bættist, að yfirlýstur tilgangur l. var að veita bændum rétt til að hækka vöruna örlítið, og þegar það er einnig athugað. að Alþ. og ríkisstjórn eru alltaf að lækka hana og lækka, þá er það sönnun fyrir því, að það er siðferðileg skylda fyrir ríkið að borga mismuninn.

Hv. þm. Barð. hafði um það almenn orð og neitaði því, að bændum hefðu verið gefin nokkur fyrirheit. Ég vil minna hann á það, að Morgunblaðið, sem hefur mjög góðar heimildir í Sjálfstfl., deildi á mig í haust fyrir að vera að spilla friðnum með því að koma á fundi, þar sem bændur mótmæltu, vegna þess að þeir töldu sig vanhaldna af því, sem þeir álitu sig hafa rétt til að fá. Þm. Barð. mótmælti því, að það hefði verið sagt í sambandi við stjórnarmyndun. En vildi hann eða einhver annar útskýra það, hvers vegna leiðtogar þessara flokka fóru herferð saman í sambandi við þetta mál?

Ég vil svo enda þetta mál með því að beina því til hv. þm. Barð., sem er eini málsvari síns ágæta flokks hér eins og stendur, að það er staðreynd, að 5 Sjálfstfl.-þm. tóku afstöðu gegn stjórninni, vegna þess hvernig stjórnarmyndunin varð. Og það er eftirtektarvert, að í þessum 5 manna hópi er einn í stjórn Búnaðarfél. Íslands og tveir aðrir búnaðarþingsmenn. Og það er ákaflega ótrúlegt, að þessir þm. hefðu ekki vitað, ef ákveðið hefði verið að ganga í samstarf með kommúnistum. Þetta eru allt áhrifamiklir menn innan Sjálfstfl. og áttu mikinn þátt í að kalla saman búnaðarþingið og réðu þar miklu. Þegar þess er gætt, að þeir tóku svo afstöðu gegn flokki sínum við stjórnarmyndunina, þá er ekki hægt að komast hjá að álykta, að þeir telji, að þeir hafi verið blekktir í sambandi við samköllun búnaðarþings og gerðir þess. Ef hv. þm. óskar að afsanna þetta, verður hann að koma með haldríkari röksemdir gegn þessu en hann hefur gert hingað til. Ég ætla mér að vera fáorður um þetta. Það er vitað, að hv. þm. Str. vann mikið að því að koma á stjórn milli Sjálfstfl. og Framsfl., hvort sem hann hefur nú hugsað sér að vera í henni sjálfur eða ekki, svo að honum var það mikið metnaðarmál að koma þeirri samvinnu á, þótt svona færi.

Það eru rök lífsins, sem styðja þessa dagskrártill. mína, þegar burt verður blásið því óholla andrúmslofti, sem hvílir yfir stjórnarmynduninni og því, sem þar er viðbundið.