10.01.1945
Efri deild: 98. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1699 í B-deild Alþingistíðinda. (4630)

113. mál, laun starfsmanna ríkisins

Bjarni Benediktsson:

Það er nú að vísu ljóst af fundarsókninni, að ekki er ýkjamikill áhugi hv. dm. á þessu máli, en sannast að segja hygg ég, að fá mál séu nú fyrir hv. Alþ., sem öllu meiri þýðingu hafa en þetta mál, og vil ég því fara um það nokkrum orðum.

Mér er það að vísu ljóst sem öðrum. að það frv., sem hér liggur fyrir, er að verulegu leyti gallað og ýmsir annmarkar á því, en ég er engu að síður þeirrar skoðunar, að það muni, eftir því sem á stendur, vera vinningur að fá frv. samþ., ef það breytist ekki í verulegum atriðum frá því, sem það er lagt fyrir. Um brtt. hv. n. mun ég tala síðar, sumar. Það er vitað mál, að í launagreiðslum nú er slíkur glundroði og slíkt ósamræmi, að ekki verður við unað til lengdar, og þó að segja megi með réttu, að núverandi verðbólgutímar séu ekki hentugir að öllu leyti til þess að setja ný launal., þá verður einnig að gæta þess, að með því að láta þetta vera í sama horfi og verið hefur, óbundið í höndum ótalmargra aðila, þá heldur verðbólgan áfram sí og æ að ýta undir hækkun grunnlauna, þar sem hver stofnunin er í kappi við aðra, svo að það hlýtur að hafa sífelldar hækkanir í för með sér. Tel ég þess vegna, að það sé beinlínis frá sjónarmiði ríkisins sjálfs alveg nauðsynlegt að setja slík l. sem þessi hið allra fyrsta, enda er það svo, eins og ég hef þegar sagt og játað er af öllum, að ósamræmið í þessum málum hefur verið svo gífurlegt, að ekki hefur verið við það unandi með nokkru móti.

Það hefur nú farið að vonum, að hv. n. hefur borið fram ýmsar brtt. við frv., og það er út af fyrir sig ekki að furða, þótt mörgum sýnist nokkuð sitt hvað um ýmsar þær brtt. Ég verð nú samt, — án þess að ég á nokkurn hátt vilji áfellast n., vegna þess að ekkert er eðlilegra en hún hafi um það annað álit en við sumir aðrir, — að segja, að mér finnst till. n. að ýmsu leyti sízt vera til bóta, einmitt varðandi það höfuðatriði launal., sem ég drap á áðan, að koma á samræmi í launakjörum opinberra starfsmanna og til þess að stöðva sífelldar hækkanir og kapphlaup þeirra í milli. Ef menn því líta á þetta sem eitt veigamesta atriðið í setningu launal. nú, þá hefur n. því miður algerlega brugðizt þessu hlutverki, vegna þess að hún tekur nokkrar veigamiklar stofnanir undan l. og ætlast ekki til, að þær heyri undir þá almennu löggjöf, sem í þessu efni verði sett. Ég tel það aftur á móti höfuðatriði málsins og vil reyna að fylgja því eftir samkvæmt ýtrustu getu, án þess að ég muni á þessu stigi málsins láta það varða fylgi mitt við frv., til þess mun ég taka afstöðu á síðara stigi málsins. Ég legg höfuðáherzlu á þetta og bið bæði hv. n. og hæstv. ríkisstj. að athuga þetta. Ég vildi vera með frv. á þeim grundvelli, sem það var fram borið, og legg höfuðáherzlu á það, að frv. nái áfram til þeirra sömu starfsgreina, sem það upphaflega átti að ná til. Ég tel, að frv. nái alls ekki tilgangi sínum, ef þessar starfsgreinar verða undanskildar, og að það liggi í augum uppi, að þessar starfsgreinar og starfsmenn þeirra, sem sjálfir hafa skorazt undan að komast undir þessi l., geri það vitanlega af þeirri ástæðu, að ýmist mundu l. leiða til lækkunar á kaupi sumra starfsmanna þessara stofnana nú þegar í stað eða gera starfsmönnum þessara stofnana erfitt um það í framtíðinni að fá kauphækkun umfram það, sem tíðkananlegt er um starfsmenn ríkisins. En frá sjónarmiði okkar, sem teljum verulegan vinning að fá setta um þetta heildarlöggjöf, bæði til þess að koma á samræmi milli manna og til þess að stöðva sífellt kapphlaup í ríkissjóð um aukningu föstu launanna, þá hlýtur það að skipta höfuðmáli, að þetta kapphlaup verði í raun og veru stöðvað, en það verður því aðeins hægt, að þessar mikilvægu starfsgreinar verði teknar undir frv. eða — réttar sagt — látnar haldast undir frv., eins og upphaflega var til ætlazt.

Mér er algerlega ljóst og þekki nokkuð sjálfur af eigin reynslu til þess samanburðar, sem sífellt er gerður milli opinberra starfsmanna, að ekki er stætt á því til lengdar, hvorki hjá ríki né bæjarfélagi, að greiða vissum starfsmönnum lægra kaup en gerist t.d. í bönkum, og ef bankar eiga nú að vera lausir við þessi l. til þess að geta greitt vissum starfsmönnum þar hærra kaup en gerist hjá ríkinu, þá verður það til þess, að við verðum innan örskamms tíma að hækka kaup hjá starfsmönnum ríkisins sem þessu svarar. Þá er í raun og veru II vinningur að þessari lagasetningu og betra að bíða, þar til er rólegri tímar koma aftur. Ég vil þess vegna alvarlega beina því til hv. n., hvort hún vill ekki falla frá þessari breyt. sinni. og til hæstv. ríkisstj., hvort hún vill ekki beita sér fyrir því, að ekki verði samþ. þessi brtt. hv. n., vegna þess að mér er ljóst, að vel gæti svo farið, ef þessi brtt. yrði samþ., að frv. í heild væri stefnt í hættu. Verður þó að taka tillit til annarra mála, sem gera það að verkum, að ég set ekkert úrslitaskilyrði um þetta efni á þessu stigi, en mér sýnist sannast sagt, að frv. sé svo rifið niður með þessari till. n., að hér sé í raun og veru um botnlausa hít að ræða, sem ákaflega erfitt sé að sætta sig við að samþ. Það er í raun og veru allra fráleitasta röksemd, sem ég hef heyrt fram færða, að það eigi að láta það ráða úrslitum í þessu máli, að þær stofnanir, sem vitað er að borga yfirleitt hærra kaup en hjá ríkinu, vilja komast undan þessum l., þegar ætlazt er til, að hér sé komið á samræmi, og vitað er, að þeir menn, sem við þessar stofnanir vinna, hafa allajafna eins örugga vinnu og starfsmenn ríkisins, en oft og tíðum lakar undirbúnir en starfsmenn ríkisins, og sannast sagt gagnstætt því, sem mér heyrðist hv. þm. Barð. segja áðan, eru þeir yfirleitt engu fremur bundnir við störf sín en margir starfsmenn ríkisins. Störfum margra manna er svo háttað, að þeir eiga ekki gott með að hlaupa frá vinnu í starfstíma, það fer allt eftir því, hvers eðlis starfið er og hvernig því er háttað, bæði innan bankanna og hjá ríkinu og bæjareða sveitarfélögum, og hvers konar fyrirgreiðslu er um að ræða í þessu efni. En ég hef aldrei orðið var við það, að bankarnir væru strangari gagnvart starfsmönnum sínum í því efni en aðrar stofnanir. Ég skal ekki fara um þetta fleiri orðum, en tel, að engin rök séu fyrir því að taka þessar starfsgreinar út úr frv., heldur algerlega þvert á móti, og með því að fara þannig að sé í raun og veru réttlæting þess að setja þessi launal. nú ákaflega spillt. Ég er þess vegna undrandi yfir því, að þeir menn, sem sérstaklega hafa gerzt formælendur þess að setja þessi launal. nú, skuli hafa beitt sér fyrir því eða á það fallizt, að þessar starfsgreinar yrðu undanskildar. Ég vil sem sagt beina þessu til hv. fjhn. og hæstv. ríkisstj. og geri það í fullri alvöru og von um það, að það verði a.m.k. tekið til athugunar, án þess að ég á þessu stigi málsins vilji gera það að endanlegu skilyrði fyrir fylgi mínu við málið, en áskil mér allar dyr opnar, eftir því, hverjar undirtektir þessi ábending mín fær. — Þetta er sú höfuðathugasemd, sem ég vildi bera fram, og taldi því skyldu mína að taka til máls við 2. umr., til þess að nægilegur tími væri til athugunar á þessu við framhald málsins.

Hitt er ekki að undra, þó að hv. n. flytji aðrar minni brtt. við frv. Um þær skal ég ekki fara mörgum orðum. Mér þykir þó um sumar, að þær skipti nokkru máli, eins og t.d. till. um það að hækka hámarkið í lægsta launaflokknum vegna þess, að í þeim flokki sé sumt fólk, sem eigi að fá hærra kaup en annað. Á þessu sýnist mér sem sagt engin þörf, ef þessi er ástæðan til þess að hækka hámarkið. Eðlileg úrlausn til þess að gera réttlátan mun á starfsfólki er vitanlega að hækka í flokki þær manneskjur, sem hærri eiga að vera, en hafa ekki hið almenna hámark hærra, enda vitað mál, að fjöldamargt fólk. sem á skrifstofum vinnur, hefur tiltölulega litla undirbúningsmenntun og vinnur ákaflega einföld störf. Þetta fólk á í rauninni sízt kröfu á því, jafnvel þótt það hafi unnið í langan tíma, að hafa hærra kaup en verkamenn eða aðrir þeir, sem útivinnu stunda. Störf margra þessara manna eru hrein og bein viðvaningsstörf, vegna þess að þeir hafa ekki heilsu til þess að vinna almenn verkamannastörf, og þess vegna sízt ástæða til að setja hámark þeirra hærra en gengur og gerist um tekjur manna upp og ofan. En ég skal þó játa, að atriði eins og þetta getur valdið nokkrum ágreiningi, og eins það, hvernig einstökum störfum er skipt í flokka, og verð ég að segja það, að ýmsar af till. hv. n. í því efni komu mér ákaflega kynlega fyrir, eftir því sem ég hafði litið á mikilvægi einstakra starfa.

Þó get ég ekki stillt mig um að benda hér á það, að mér sýnist, að bæði í frv. sjálfu og ekki sízt í till. hv. n. sé um of gert lítið úr starfsemi eins embættismannahóps, sem við þekkjum allra manna bezt til, en það eru hæstv. ráðh. eða ríkisstj. Ég sé ekki, að nein sanngirni eða nein rök mæli með því, að þessir menn, sem fara úr sínum venjulegu störfum, menn, sem beinlínis hafa orðið að leggja niður sín venjulegu lffsstörf og jafnvel glatað stöðu sinni vegna þess, þótt ekki sé það títt, eigi ekki að hafa töluvert hærri laun en jafnvel æðstu embættismenn, sem þó í framkvæmdinni hafa tryggingu fyrir því, að þeir eru látnir óáreittir í stöðu sinni, meðan þeir ekki brjóta neitt af sér, og mega jafnvel brjóta töluvert mikið af sér, til að þeir séu sviptir starfi. Þessir embættismenn hafa og eftirlaunarétt,, sem ráðh. hafa ekki. Mér sýnist satt að segja, að við, sem að nokkru leyti berum ábyrgð á þeim mönnum frekar en öðrum, ættum óneitanlega að launa þeim sæmilega, svo að þeir geti lifað eins og stöðu þeirra sæmir. Ég kem sannast sagt ekki auga á neinn flokk starfsmanna ríkisins, sem gæti komið til mála að hafa í sama flokki. Hæstaréttardómarar kæmust næst því, en þó horfir öðruvísi við fyrir þá en ráðh. Staða þeirra er trygg, og nái þeir 65 ára aldri í henni, halda þeir fullum embættislaunum. Það er rétt, að miklu skiptir, að þeir séu engum háðir fjárhagslega og freistist ekki til afglapa í stöðu sinni af fjárhagslegum ástæðum, og staða þeirra er ein virðulegasta staða landsins. Þess vegna er það kannske skiljanlegt, að þeir hafi sömu laun og ráðh., þó að ég telji það hæpið. En þegar t.d. símamálastjóri eða forstjóri Skipaútgerðar ríkisins eru settir í sama flokk, þá finnst mér sannast sagt um þvert bak keyra, og það verður að leiðrétta. Ég hef ekki borið fram brtt. um þetta við þessa umr. Ég geri ráð fyrir, að ég muni gera það við 3. umr., ef ekki verða aðrir til þess, þegar betur er séð, hvernig fer um afgr. þessa máls.

Það eru, eins og ég hef sagt, ótalmörg önnur atriði, sem mér komu kynlega fyrir sjónir, bæði í frv. og till. n., en ég vil ekki vera að elta ólar við það á þessu stigi málsins, sérstaklega vegna þess, að n. segir sjálf, að hún muni athuga þau betur.

Áður en ég lýk máli mínu, vil ég loks taka það fram út af brtt. hv. þm. Barð. í þá átt, að það skuli tekið fram í l., þegar þar að kemur, að heimilt skuli vera að breyta launakjörunum með venjulegum l., ég vil taka það fram, að ég mun greiða atkvæði á móti till., en ekki vegna þess, að ég sé henni ósamþykkur efnislega, heldur vegna þess, að ég tel sjálfsagt miðað við nútíma hugsunarhátt og samkv. gildandi stjórnskipunarl., að þessum l. sé heimilt að breyta eins og hverjum öðrum l., og ég þekki ekkert það ákvæði í stjórnskipunarl., sem geri það að verkum, að menn þurfi að óttast, að þessum l. megi ekki breyta eins og hverjum öðrum l. Og þar sem ég lít svo á, álít ég það fráleitt af mér að samþ. brtt. hv. þm. Barð. Við gætum alveg eins sett þann fyrirvara um önnur l., að þeim mætti breyta með venjulegum l., en þetta hefur enginn gert. (GJ: Þetta er einhver misskilningur.) Nei, þetta er enginn misskilningur. Ég hef lesið till., og hún er þannig: „Verði lögum þessum síðar breytt í heild eða í einstökum atriðum til launalækkunar, skulu þeir, sem laun taka eftir þessum lögum, færðir niður í þau laun, sem þar verða ákveðin fyrir sama starf.“ Það segir, að verði l. breytt, skuli breyt. gilda. Efni hennar er nákvæmlega það, sem ég var að segja. Ég get ekki annað séð en við gætum nákvæmlega eins samþ. það í hvert einasta skipti og l. eru sett, að yrði l. breytt, ætti að fara eftir þeirri breyt., en ekki því, sem áður var í gildi. Ég veit, að minn góði sessunautur áttar sig á þessu, þegar á það er bent, og sér, að till. hans er óþörf. Hitt get ég skilið, að hann hafi viljað láta það koma hér fram. að þessi væri skilningur manna, því að alls ekki væri hægt að samþ. þetta frv., eins og nú standa sakir. ef ekki er hægt að breyta l. einhvern tíma seinna. — Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um málið á þessu stigi.