11.01.1945
Efri deild: 100. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1716 í B-deild Alþingistíðinda. (4637)

113. mál, laun starfsmanna ríkisins

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Hv. 3. landsk. beindi til mín ákveðinni fyrirspurn um það, hvort ég mundi snúast gegn frv., ef till. mín yrði ekki samþ. Kvaðst hann ekki trúa, að svo væri, og kæmi það sér einkennilega fyrir sjónir. Einmitt eftir að hann hefur lýst skoðun sinni á þessum skilningi l., sem fer í bága við t.d. skoðun hv. 6. þm. Reykv., en kemur heim við mína skoðun, þá þykir mér enn meiri ástæða til að taka alveg ákveðið fram um þetta atriði.

Það hefur ekki farið leynt, að ég hef alltaf gert þetta að skilyrði fyrir að flytja frv., og bezta sönnunin er sú, að 16. des. er útbýtt í þessari hv. d. þeirri till., sem hér um ræðir. Hv. n. hefur því vel getað tekið hana með til athugunar.

Ég lít svo á, að sé það ekki tryggt á einhvern hátt, að allir þeir menn, sem fá launahækkun nú eftir þessum l., verði færðir niður í þau laun. sem þar verða ákveðin fyrir sama starf, sé ekkert vit í lagasetningunni og ekkert réttlæti heldur, að ungir menn, sem nú byrja að taka laun eftir þessum l., haldi þeim áfram óskertum, þó að það yrði 30 ára starf, verði l. þessum síðar breytt til launalækkunar. Það er sannarlega ekki verið að bæta þeim mönnum upp neitt misrétti. sem framið hafi verið á þeim undanfarin ár. Þetta er svo ótvírætt, að sé þessi trygging ekki fyrir hendi, áður en gengið verður frá þessu, get ég ekki fylgt þessari lagasetningu, því að þá tel ég raskað þeim grundvelli, sem samið var um. Ég veit, hvað ég hef sett að skilyrði fyrir því að fylgja l. gegnum þessa hv. d., og ég vil minna hv. 3. landsk. á, hvernig orð mín féllu við 1. umr. hér í d., áður en nokkur stjórnarsamningur kom fram.

Ég undrast þær útleggingar, sem hér hafa komið fram frá hv. 6. þm. Reykv., því að það þýðir ekki endalaust að slá því föstu, að hann einn manna hafi svo mikið vit á l., að enginn maður annar geti haft þar heilbrigða hugsun. Hann veit vel einmitt það, sem hv. 1. þm. Eyf. hefur tekið fram, að ekkert fordæmi er fyrir því, að embættismenn haldi launum sínum óskertum alla tíð, eftir að launalækkun hefur átt sér stað. Það er vitanlega hreinn útúrsnúningur, að það megi breyta þessum l. eins og öðrum. Hér er alls ekki um slíkt að ræða. Það er alls ekki um það að ræða, hvort með nýjum l. megi breyta rétti ákveðinna aðila til að vinna fyrir minni laun en þeir hafa verið ráðnir til. Og ég veit frá mönnum, sem spurt hafa ýmsa lögfræðinga landsins varðandi þetta mál, að þeir hafa ekki verið sammála hv. 6. þm. Reykv. um gildi þessara ákvæða. En ef nokkur vafi er á því, þá er vitanlega sjálfsagður hlutur að setja undir þann leka. Ég hygg, að hver maður hljóti að sjá, að ekkert vit væri í því að semja launal., þar sem ríkissjóður yrði að standa undir slíkri byrði í máske 30–40 ár, og ekki hægt að færa launin niður í samræmi við það, sem þarf á tímum, þegar allt er vitlaust í verðbólgu.

Hv. 3. landsk. sagði, að ekki hefði verið raskað grundvallaratriðum með till., sem samið hefði verið um. Það er enginn vandi að fullyrða, að ég hafi ekkert vit á lagafyrirmælum. En ég læt ekki bjóða mér það, að ég hafi ekkert vit á samningum eða standi ekki við samninga og loforð mín. Hér hefur verið lofað ákveðnum skilyrðum, og þegar þeir menn, sem taka að sér að standa að stjórn og fylgja henni og þessu máli sérstaklega, þá er það gert í því fulla trausti, að ekki sé farið út fyrir þá linu. En sé það gert, er sá samningur rofinn, nema fullt samþykki hins aðilans komi til. Skal ég færa sönnur á, að þetta er rétt hjá mér.

Ég skal ekkert um það deila, hvort samið hefur verið um það annars staðar en í þessu frv. eða þeim skjölum, sem hér liggja fyrir, að ganga til móts við kröfur bandalagsins, sem fólgnar voru í hækkun launa lögregluþjóna, tollþjóna og símakvenna. En þótt fallizt sé á þetta, er meira eftir. Það er sem sé upplýst hér af hv. 3. landsk., að það er gengið að öllum kröfum, því að hann sagði, að samningum hefði verið fullnægt, þó að ekki hefði verið gengið svona langt. Segjum nú, að þetta sé ekki heldur brot á samningnum. En það er auðvitað tvímælalaust brot að hækka laun þeirra manna, sem bandalagið hefur ekki krafizt, að yrðu hækkaðir, t.d. forstjóra Skipaútgerðar ríkisins.

Hv. 1. þm. Reykv. blandaði mjög saman málum, er hann taldi það einkennilegt, að sömu aðilar, — og átti hann þar við mig, — sem gerðu aths. við ýmsar stofnanir í sambandi við brtt., bentu á hluti, sem þyrfti að breyta til hækkunar fyrir ríkissjóð. Þetta eru alveg óskyld mál. Ég vil benda á, að ef samþ. á frv., eins og það lá fyrir í upphafi, að ég ekki tali um, eins og það kom frá hv. fjhn., er nauðsynlegt að gera ýmsar breyt.. sem miða til hækkunar, bara til þess að framkalla réttlæti, burtséð frá því, hvort maður er með eða móti þeim kostnaði, sem frv.. í heild hefur í för með sér.

Ég vil benda formanni n. á eitt atriði, sem ég er neyddur til að bera fram brtt. við, hvort sem brtt. n. verður samþ. eða ekki, en það er um tilfærslu á læknishéraðinu á Bíldudal. Er það sett annars staðar í frv. og í lægri flokk en það á að vera. Vil ég benda á, að það er sett í flokk með Ólafsvík. Hefur landlæknir lýst yfir því við mig, að ekki væri ástæða til að styrkja læknisbústaðinn í Ólafsvík, þar sem það væri svo gott hérað. Aftur á móti yrði að styrkja læknisbústaðinn á Bíldudal, það eð ekki yrði unnt að fá lækni án þess að byggja yfir hann. Bíldudalur er þar að auki eitt af stærstu læknishéruðum landsins, og mælir það einnig með því, að laga verður þetta misrétti, þó að það kosti nokkuð fyrir ríkissjóð. Ég tilfæri þetta dæmi til að sýna, að það er ekkert samhengi milli þessara mála.

Hv. 3. landsk. minntist á, að það væri nauðsynlegt að launa alltaf svo starfsmenn ríkisins á hverjum tíma, að hægt væri að fá góða starfsmenn. Ég verð nú að segja það, að ég hef aldrei orðið var við, að ríkið gæti ekki fengið starfsmenn, heldur hitt, að allir vilji vera starfsmenn ríkisins. Ég býst við, að allir vildu vera ráðherrar, þótt það væri skammarlega borgað, og ég er engan veginn viss um, að staðan losnaði hjá forstjóra Skipaútgerðarinnar, þó að hann fengi ekki ráðherralaun. Þetta held ég, að séu engin rök fyrir því máli. Og allir vilja vera prófessorar. Hér er barizt fyrir því að fjölga prófessorum við háskólann, sem álitið er af mörgum, að ekki sé nauðsynlegt. En því hefur verið haldið fram, að þessum manni hafi verið sýnt misrétti með því að hleypa honum ekki inn í þjónustu ríkisins með þessi lágu laun. — Það hefur alltaf verið hægt að fá menn til að starfa fyrir ríkið. En þessi laun út af fyrir sig geta verið of lágt reiknuð. Reykjavíkurbær hefur fengið prýðilegan starfsmann fyrir borgarstjóra fyrir mjög lág laun. Ég geri ráð fyrir, að hann gæti, hvar sem væri annars staðar, fengið betri laun. Það getur verið af áhuga, sem hann starfar að þessu, — sem getur verið nokkurs virði, þó að ekki séu peningar, af því að hann viti, að störf hans eru til góðs fyrir þjóðfélagið.

Þá ætla ég að svara nokkrum orðum hv. 1. þm. Reykv. Hann sagði, að ekki mætti miða launin við kaupsýslumenn og iðnaðarmenn. Svo vildi hann beina því til mín persónulega, hvort mér þætti um of að lifa af launum X. flokks. Ég álít þá vera lítið um rök, þegar menn fara í svo persónulegar umr. og spyrja um, hvort ákveðnum manni þætti ekki of lítið að lifa af launum, sem á að skapa öðrum manni. En ég skal svara þessu. Og hann sagði, að það væri sambærilegur undirbúningur, sem þessir menn legðu í undir starf sitt eins og ég hefði þurft undir mitt starf. Og úr því að hv. þm. vill fá þetta upplýst, skal ég svara þessu nokkuð. Ég hef athugað nokkuð X. flokk í frv. Á fyrstu síðu eru húsverðir. Ég hygg, að það yrði ekki mikið eftir af bændum úti um land, ef þeir ættu þess kost að fá fastlaunað starf með sömu launum, 6600 kr. í grunnlaun. Og ég veit, að margi2. bændur úti um land eru svo vel undirbúnir undir lífið, að þeir gætu verið húsverðir hjá ríkisstjórninni. — Svo ætla ég að halda áfram, og þá eru hér aðstoðarhjúkrunarkonur. Ég ætla ekki að bera mig neitt saman við þær, ég hef aldrei borið verk mín saman við kvennaverk yfirleitt. Ég veit, að hjá þessum hjúkrunarkonum er um mikið og fórnfúst starf að ræða, og ræður þeirra betri maður sjálfsagt miklu um, að þær taka að sér þessi störf, auk þess sem stundum hefur komið til löngun eftir að ná í lækninn, þó að slíkt eigi sér kannske ekki stað hér á Íslandi. — Svo eru á bls. 5 í frv. gæzlumaður plötusafns, afgreiðslumaður auglýsinga, iðnaðarmaður og afgreiðslumaður viðtækjasmiðju (allir við útvarpið). Þessir menn eiga hver um sig að hafa 6600 kr. í grunnlaun á ári eftir frv. Ég er viss um, að úr hópi bænda og sjómanna og verkamanna fengjust fjölmargir menn til þess að skipta um fyrir þessi laun og vinna að þessum störfum. — Þá eru á bls. 7 í frv. næturverðir við landssímann í X. fl. með 6600 kr. grunnlaun, o.fl. menn. Ég skal ekki segja, hvað mikið þarf að læra til þess að geta verið næturvörður við landssímann. Hann þarf að kunna að gefa sambönd. En hvort sá undirbúningur er sambærilegur við það, sem ég hef orðið að gera til undirbúnings mínu starfi, getur hver, sem vill. gert sér í hugarlund, og kem ég að því síðar. — Þá eru afgreiðslumenn tóbakseinkasölunnar. Ég held, að þeir þurfi ekki mörg ár til þess að undirbúa sig undir það starf, kannske að fara á verzlunarskóla eða vera í búð áður. Svo eru blöndunarmaður tóbaksgerðar og bókarar III. fl. hjá áfengisverzluninni, með sömu laun eftir aðalfrv. Og svo koma brtt. fjhn. Þar er umsjónarmaður Landsspítalans settur í X. flokk. — Og svo kemur hér kafari. Ég hygg, að erfiðast muni vera að fá bændur til þess að gerast kafarar. Þó þarf ekki margra ára nám til þess að læra það, auk þess sem sá maður er ekki undir yfirborði sjávar allt sitt líf, heldur aðeins stundum. — Svo koma hér í sama fl. og allir, sem áður eru taldir, næturverðir við landssímastöðina í Reykjavík og á Akureyri, iðnaðarmenn og línumenn landssímans, bréfberar í Reykjavík og á Akureyri, aðstoðarmenn I. flokks og bifreiðarstjórar. Það er hægt að fá unga bændur til þess að læra á 14 dögum að vera bílstjórar og taka svo að sér svona starf fyrir þetta kaup. Svo koma bókarar III. fl. aftur í sama fl. — Og þá held ég, að þetta sé nægilegt til þess að sýna fram á, hvaða fólk það er, sem er í þessum flokki. Í þessum fl. eru sköpuð betri skilyrði um lífsafkomu — fyrir þó miklu styttri vinnutíma — en talið er, að bændur hafi árið 1945, sem bændur hafa enga tryggingu fyrir að fá í framtíðinni. En þessir launamenn, sem ég hef talið, eiga eftir skilningi hv. 3. landsk. þm. að hafa þessi laun um aldur og ævi.

Ég segi þetta ekki til þess að halda því fram, að X. fl. sé oflaunaður, heldur til þess að sýna, hver stefnan er í öllum þessum málum yfirleitt. Og úr því að hv. 1. þm. Reykv. vill vita, hvað ég hef orðið að leggja að mér til þess að undirbúa mig undir lífsstörf mín, þá get ég sagt honum, að það starf kostaði mig nám í 8 ár og þar af helming tímans utan lands á minn eiginn kostnað án alls styrks frá ríkinu. Og ef það væri skilyrðið til þess að vera húsvörður í Reykjavík, að menn þurfi að læra í 8 ár og helming af þeim tíma utan lands, þá er hægt fyrst að bera mig saman við þá. (MJ: Er hv. þm. Barð. á launum eins og X. fl.?) Það kemur ekki málinu við. Auk þess hef ég orðið að láta 90% af tekjum til ríkissjóðs undanfarin ár. Það eru því engin rök í málinu að bera mig saman við launtaka í X. flokki. Og þegar menn grípa til slíkrar rakaleysu sem hv. 1. þm. Reykv. gerði hér, sem mig undrar, að hann skuli hafa leyft sér, þá vantar gild rök.

Þegar fjórir af fimm nm. leggja til vissa afgreiðslu máls, eins og hér á sér stað, er þess ekki að vænta, að deildin setji sig upp á móti því, og hv. 1. þm. Reykv. veit, að þingstörf ganga jafnan þannig. Það eru margir hv. þm., sem hafa ekki tíma til þess að kynna sér svo málin sem n. verður að gera, er sérstaklega fjallar um það, og munu hv. þm. verða að byggja á því nál., sem fyrir liggur í málinu. Og menn hafa ekki tækifæri til þess að lesa svo hvert þskj., að þeir geti tekið upp baráttu eftir þeirri athugun gegn nál. yfirleitt. Þess vegna hvílir skylda og ábyrgð á hv. n. Og ef n. hefur ekki hugsað málið eins og hún átti að gera, þá eru það ekki aðeins svik við þjóðina, heldur líka þingið. Það er því skylda hverrar n., sem um mál fjallar á Alþ., að gera sér ljóst, hvernig l., sem verið er að setja, verka í framtíðinni fyrir þjóðina. Og ég efast um, að þeir menn, sem sett hafa fram þetta frv. og brtt. við það, hafi hugsað mjög langt fram í framtíðina um það, hvernig ákvæði þessa frv. koma til með að verka, ef að l. verður.

Svo var það eitt, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði. að hann hefði setið allan tímann með hnífinn til þess að skera niður laun í frv. Ja, sá kuti hefur ekki bitið vel. — eða kannske þeir hv. nm. hafi haldið um blaðið og skorið með skaftinu?

Það þurfti yfirleitt ekki að koma málinu við, hvað óviðkomandi menn sendu af kröfum. Og það er enginn Salómonsdómur um slíkt mál sem þetta, þótt einhver þeirra, sem mest bera úr býtum, setji fram háar kröfur um launahækkun og þeir, sem minna fá, vilji svo fá hækkuð laun til samræmis. Nei, það er að gefast upp á málinu að hlaupa eftir slíku. Það átti að rannsaka, hvað rétt væri í þessu sambandi, en ekki, hverjar væru kröfur þeirra, sem mest laun fá, heldur einnig, hverjar væru kröfur þeirra, sem bera ábyrgð á greiðslunni. Þess vegna vona ég, að hv. 1. þm. Reykv. taki upp aðra aðferð í þessum efnum en hann hefur haft.

Hv. 1. þm. Reykv. sagði einnig, að ekki kæmu málinu við þessar 470 þús. kr., sem væru afleiðing launahækkunar. Ég undrast. að hann skuli láta slíkt út úr sér. Hér er ekki um annað en launahækkun að ræða, þegar um það er að ræða að greiða á fimmta hundrað þús. kr. í lífeyrisgjöld, sem eru lögboðin gjöld. Hitt er það, að ekki aðeins sveitarstjórnir og bæjarstjórnir, heldur líka einstaklingar verða að greiða hærri laun vegna þessara afleiðinga. Og það hefur ekki verið hugsað um þær afleiðingar, og þær verða margar og viðtækar, ef þessar till. ná fram að ganga.

Svo minntist sami hv. þm. enn fremur á það, að vel mætti reikna út, hvað kæmi af þessu fé aftur í ríkissjóðinn. Og mér heyrðist næstum á honum, að fundin væri þarna allveruleg bót á erfiðleikum ríkissjóðs, sem sé bara að hækka launin, til þess að skattarnir í ríkissjóðinn hækkuðu um leið. Ég vil segja, að þá væri ekki mikill vandinn, ef ekkert þyrfti annað en hækka laun embættismanna, til þess að ríkissjóður fengi af þeim meiri skatta, og þá væri vandræðum hans lokið.

Ég vil ekki ræða neina sérstaka liði í þessu frv., því að það yrði tekið sem sérstök persónuleg árás á þá menn, sem starfa í þeim eða hinum fl., sem um væri að ræða. En ég vil skjóta spurningu til hv. formanns n. út af 22. gr., þar sem sagt er, að skrifstofustjóri landssímans og skrifstofustjóri póstmála skuli hafa 10200 kr. Eru þessi embætti til í landinu? Ég veit ekki til þess, að þau séu til. Nú getur verið, að hægt sé með þessum l. að stofna þessi embætti, ég skal ekki um það segja. En mér vitanlega er hvorugt þessara embætta til. Ég vildi, að hv. n. athugaði fyrir næstu umr., hvernig stendur á, að þetta er komið hér inn.

Ég get ekki fellt mig við þá till., sem fram er komin frá hv. þm. S.–Þ., að hún komi í staðinn fyrir brtt. mína. Munurinn á þessum tveimur till. er þessi: Ef samþ. er till. hv. þm. S.–Þ., þá er ríkissjóður skyldugur til að greiða laun eftir þessum l., er frv. hefur náð samþykki til ársloka 1947. Og ég tel engar sannanir fyrir því, að ríkið þoli það. Ef hins vegar brtt. mín verður samþ., þá er hægt að færa launin niður. hvenær sem ástandið breytist svo. að það væri nauðsynlegt til þess að samræma launakjör embættismanna við launakjör annarra manna í landinu. Og það er það eina, sem rétt er og viturlegt. Þess vegna get ég ekki fylgt frv., þótt brtt. hv. þm. S.-Þ. verði samþ. Og ég mun ekki heldur geta fylgt frv. út úr hv. d., ef brtt. mín verður ekki samþ. eða önnur hliðstæð, sem tryggi þessi mál eins og ég vil gera með brtt. minni.