20.02.1945
Neðri deild: 133. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1801 í B-deild Alþingistíðinda. (4698)

113. mál, laun starfsmanna ríkisins

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. — Ég skal ekki lengja þessar umr. að óþörfu. en vildi segja nokkur orð í tilefni af ræðu hv. 3. þm. Reykv. Hann gerði að umræðuefni þau orð, sem ég lét falla hér í dag, að þetta frv. væri ekki svo vel undirbúið sem æskilegt væri og enginn vildi við það kannast. Hann vildi halda fram. að ég hefði gert of mikið úr þessu, en ég get ekki fallizt á. að svo sé. Ég benti á, að það, sem hér er tekið til meðferðar, eru aðeins launagreiðslurnar, en allt vantar varðandi réttindi og skyldur embættismanna. Ég benti einnig á, að ekki hefði komið fram nein till. um að gera ríkisreksturinn einfaldari eða fækka embættis- og starfsmönnum. Ég sé ekki ástæðu til að endurtaka það. sem ég þá sagði, en ætla að víkja að undirbúningi þessa frv.

Hv. 3. þm. Reykv. sagði, að frv. væri meðal annars byggt á athugunum mþn. frá 1934. Ég veit ekki, hve mikið n., sem haft hefur þetta frv. til meðferðar, hefur athugað þær skýrslur, en mér finnst þó ekki útkoman hjá henni benda til þess, að teknar hafi verið til greina ýmsar þær upplýsingar, sem í þeim felast, enda má á það benda, að þessar skýrslur eru nú 11 eða 12 ára gamlar, en síðan hafa ákaflega miklar breyt. orðið á hag þjóðarinnar og því full ástæða til að taka þær til endurskoðunar og gera sér ljóst, hvernig ástatt er um mörg atriði, sem sú n. tók til meðferðar og gerði skýrslur um.

Þá sagði hv. 3, þm. Reykv., að yfirleitt mundu launin vera ákveðin lægri í þessu frv. en væri hjá öðrum sambærilegum stofnunum, bæði hjá hálfopinberum fyrirtækjum og einkafyrirtækjum. Ég get vel búizt við því, að á það megi benda, að laun við ýmsar aðrar stofnanir en ríkisstofnanir séu hærri. En ég álít, að það sé ekki einhlítur mælikvarði í þessum efnum, því að þótt einstaka stofnanir aðrar eða einstakir menn borgi hærra kaup en eðlilegt er, miðað við þjóðarhag og tekjur landsmanna yfirleitt, þá er það ekki röksemd til stuðnings því, að ríkið eigi að gera það sama. Miklu nær væri að gera ráðstafanir til þess, að þessar stofnanir, sem greiða, óeðlilega há laun, færi launagreiðslur til samræmis við það, sem eðlilegt má heita, miðað við ástandið í landinu yfirleitt.

Hv. frsm. meiri hl. viðurkenndi, að það væri rétt, sem ég hélt fram, að rekstur ríkisins, framkvæmdastjórn þess og opinber starfsemi yfirleitt — allt væri þetta orðið umfangsmikið og kostnaðarsamt og að full þörf væri því á, að ráðstafanir yrðu gerðar til þess að koma á þennan rekstur einfaldara og betra fyrirkomulagi en nú er, enda held ég, að engum, sem athuga þessi mál, blandist um það hugur, að yfirbyggingin á þjóðarskútunni sé orðin nokkuð mikil.

Viðvíkjandi því, sem ég sagði um það, að í sambandi við þetta mál yrði að athuga, hvað þjóðinni væri fært að bera, sagði hv. 3. þm. Reykv., að athugun á þessu væri sama og að skjóta málinu á frest. Um þetta er ég honum ekki sammála. Þó að þetta hefði verið til athugunar við undirbúning málsins, þurfti það vitanlega ekkert að tefja fyrir framgangi þess nú, og jafnvel þótt það hafi verið vanrækt við undirbúning frv., tel ég, að hægt sé að færa frv. til betri vegar að þessu leyti, og í þá átt miðar einmitt brtt. mín.

Út af till. minni sagði hv. 3. þm. Reykv., að það yrði ekki komizt hjá því að setja einhver lágmarkslaun. Það er rétt, enda geri ég till. um það. Samkv. till. minni er ekki gert ráð fyrir, að launin fari niður fyrir þau grunnlaun, sem ákveðin verða. Má vitanlega um það deila, hvort þetta sé rétt, því að auðvitað gæti hagur þjóðarinnar orðið þannig, að grunnlaunin séu svo há, að það þurfi að lækka þau. En ég hef brtt. mína svona vegna þess. að ég geri ráð fyrir, að erfitt mundi reynast að koma þessu fram, ef ekki er eitthvert lágmark, og í frv. er nú ekki gert ráð fyrir, að launin fari niður fyrir þær upphæðim. sem þar eru ákveðnar sem grunnlaun. En það er öllum ljóst, að svo getur farið, að lækka verði, áður en langt um líður, þær upphæðir, og eins og ég tek fram í nál. mínu, tel ég, að þessar grunnlaunaupphæðir margra launaflokka séu nú of hátt settar, miðað við þær tekjur, sem aðrir landsmenn hafa.

Hv. 3. þm. Reykv. sagði, að hann sæi ekki. að till. mín, þótt samþ. yrði, mundi gera afkomu ríkissjóðs betri. Um þetta em vitanlega ekki hægt að segja. Það er framtíðin. sem mundi skera úr því. Hagur ríkissjóðs fer fyrst og fremst eftir því, hvernig aðalatvinnuvegunum vegnar. Ef hin nýja tækni og vinnubrögð, sem marga dreymir um, verður til þess að auka framleiðslutekjur þjóðarinnar frá því, sem nú er, má gera ráð fyrir, að hagur ríkissjóðs batni um leið, og þá á hann að mínu áliti að vera fær um að greiða hærri laun en ef framleiðslutekjurnar lækka. Ég vil sem sagt láta launamennina þola súrt og sætt með öðrum mönnum í þessu landi. Þegar erfiðleikar steðja að aðalatvinnuvegunum og tekjur ríkissjóðs lækka, eiga þeir að taka á sig hluta af þeirri byrði. En þegar vel gengur og atvinnuvegirnir blómgast og þeir, sem við þá starfa, fá auknar tekjur, eiga starfsmenn ríkisins einnig að njóta þess.

Annars hefur verið á það bent í þessum umr. í dag, að eiginlega vildi enginn við það kannast að hafa samið þetta frv. Það fylgdi frv., er það var lagt fyrir, nál. frá n., sem skipuð hafði verið til að athuga þetta mál. Var n. þannig skipuð, að því er mig minnir, að hver þingflokkur lagði til einn mann, en auk þess voru þar fleiri menn að verki, aðallega fulltrúar frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. Þetta nál. var þó ekki undirskrifað af öllum, sem starfað höfðu í n. Fulltrúi Framsóknarflokksins t.d. var þar ekki með, því að hann var óánægður með niðurstöðuna að ýmsu leyti. Ég hafði líka heyrt þetta áður, að í rauninni vildi enginn við þetta kannast sem sitt afkvæmi.

Ég skal ekkert frekar ræða þann ágreining, sen gert hefur vart við sig, um það, hve útgjaldaaukinn mundi nema miklu fyrir ríkissjóð við samþykkt þessa frv., því að ég hef ekki haft tíma til að yfirfara þá útreikninga, sem um þetta hafa verið gerðir, en þarna ber allmikið á milli. Hv. 3. þm. Reykv. kallaði brtt. mína víravirkissmíð. Ég er ánægður með þetta nafn, því að ég hef séð fallega gripi, sem kallaðir eru víravirki. Með brtt. minni geri ég tilraun til að gera góðan grip úr þessari vankantasmíði, sem hér liggur fyrir, og ég held, að hv. 3. þm. Reykv. og fleiri ættu að hjálpa mér til við það.

Hv. þm. benti að lokum í ræðu sinni á það, að til væri einfaldari leið í þessum efnum en sú, sem ég sting upp á, að láta launin breytast eftir framleiðslutekjum þjóðarinnar eða tekjum landsmanna í heild. Þegar harðnaði í ári og ríkissjóður ætti erfitt, þyrfti vitanlega að hækka tekjuskattinn. Við höfum hér í hv. d. séð framan í skattafrv. frá hæstv. ríkisstj. nú nýlega, sem óneitanlega benda til þess, að stjórnarflokkarnir telji þetta eðlilega leið. Og þessi ummæli hv. þm., sem er einn af stuðningsmönnum hæstv. ríkisstj., gefa e.t.v. fyrirheit um það, að menn fái að sjá meira af slíku í náinni framtíð. En hvort þjóðinni er það hollama og þar með launamönnunum, sem hækkaðir skattar lenda náttúrlega verulega á sem öðrum, að þessi leið verði farin, en reynt sé að stilla í hóf útgjöldum og skipta þeim tekjum, sem þjóðin hefur yfir að ráða á hverjum tíma, svo sanngjarnlega á milli manna sem unnt er, — það efast ég nú mjög um.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum. Ég held, að þær ræður, sem fluttar hafa verið, gefi mér ekki tilefni til þess.