01.03.1945
Neðri deild: 141. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1846 í B-deild Alþingistíðinda. (4850)

82. mál, endurveiting borgararéttinda

Frsm. meiri hl. (Gunnar Thoroddsen):

Allshn. hefur setið á fundi og rætt málið við dómsmrh. Sameiginleg niðurstaða hefur ekki fengizt í málinu. Mun ég lýsa brtt., sem ég hef flutt ásamt hæstv. forseta (JörB) við brtt. hæstv. ráðh.

Frv. er á þá leið, að dómsmrh. er heimilað að veita þeim, sem sviptir hafa verið borgaralegum réttindum sínum með dómi eða vegna afleiðinga refsidóms fyrir afbrot fyrir 17. júní 1944, réttindi sín aftur án umsóknar. Þetta þótti allshn. of viðtækt og vildi bæta við: „enda hafi ekki hlotizt heilsutjón af verknaði þeirra“. Það er þýðingarmikið að takmarka þessa heimild. Ráðh. vildi í staðinn takmarka heimildina við það, að „enda séu málsbætur fyrir hendi“, — en fella niður skilyrðið: „enda hafi ekki hlotizt _ heilsutjón af verknaði þeirra“. — Við flm. þessarar brtt. viljum breyta frv. þannig, að bæði skilyrðin verði tekin upp í það, þannig að ekki hafi hlotizt heilsutjón af verknaði þeirra og eins séu málsbætur fyrir hendi. Brtt. er sem sagt um það, að báðum brtt., brtt. hæstv. ráðh. og allshn., sé steypt saman.

Að öðru leyti vil ég taka fram, að eftir yfirlýsingu dómsmrh. að dæma er það mjög vafasamt, hvort notuð verði heimildin í l., þótt samþ. verði. Eftir yfirlýsingunni að dæma skiptir mjög litlu máli, hvort frv. verður samþ. eða ekki.