18.09.1944
Sameinað þing: 44. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í D-deild Alþingistíðinda. (4878)

98. mál, áætlun strandferðaskipa og flóabáta

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. — Í þessari till. felst áskorun til ríkisstj. um að láta nú þegar semja áætlun um ferðir allra þeirra skipa, sem sigla í strandferðum við Ísland og gerð eru út af Skipaútgerð ríkisins, og einnig hinna ýmsu flóabáta, sem styrk hafa úr ríkissjóði.

Strax í ófriðarbyrjun 1939 voru gefin út brbl., sem bönnuðu allar upplýsingar um ferðir skipa, en þó voru undantekin skip, sem sigldu við strendur landsins. Nokkru síðar var gefin út auglýsing um bann þetta. En þótt strandferðaskipin væru undan skilin í auglýsingunni, hefur þótt rétt að gefa ekki út áætlanir fyrir þau, að óbreyttu ástandi í landinu. Nú hafa breytzt svo mjög allar aðstæður, að ekki virðist lengur ástæða til að leyna ferðum skipa með ströndum fram, enda hafa þegar verið gefnar út áætlanir fyrir nokkur af skipunum, sem í strandferðum eru, án þess að það mætti andúð frá herstjórninni.

Þegar litið er yfir hina ágætu skýrslu skipaútgerðar ríkisins fyrir 1943, er það ljóst, að viðkomufjöldi skipanna hefur verið mikill á mörgum stöðum á landinu, t.d. á fjölda staða nær 2 viðkomur á viku að meðaltali. Þar kemur líka nákvæmlega fram þörf landsmanna um flutning á vörum og farþegum, svo að það ætti að vera auðvelt að skipuleggja þessar ferðir. En það er svo nú, að jafnvel þeir staðir, sem njóta mikils viðkomufjölda, hafa ekki nema hálft gagn af því, vegna þess að ekki er vitað um þessar ferðir með nægum fyrirvara. Útkoman er því sú, að hvorki hafa þegnarnir notið ferðanna til fulls né útgerðin notið hinnar hagkvæmu niðurröðunar, sem hægt er að fara eftir, eftir fyrirfram gerðri áætlun.

Ég sé, að kostnaður við strandferðirnar s.l. ár hefur orðið nærri 4 millj. kr., og þess utan við landhelgisgæzlu rúmar 3 millj., svo að hér er um mjög mikla fúlgu að ræða til strandferðanna, án þess að þær séu á nokkurn hátt skipulagðar. Það ber því allt að sama brunni, að nauðsynlegt sé að laga þetta sem fyrst, og þess vegna er till. mín fram borin.

Ég skal geta þess, að mþn. í póstmálum er í þann veginn að skila áliti sínu. Það byggist mjög á því, að hægt verði að framkvæma reglulega flutninga pósts, að ferðir með ströndum fram séu reglubundnar, og póstmálastjórnin óskaði eftir því við mig, að gerð yrði ofurlítil breyt. á till., sem hnígur að betri samvinnu við póststjórnina. Ég óska því, að málinu verði frestað og till. vísað til allshn., svo að hún geti í samvinnu við póststjórnina breytt till.