18.09.1944
Sameinað þing: 44. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í D-deild Alþingistíðinda. (5034)

107. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Flm. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. — Ég hef borið fram till. til þál. um endurskoðun l. nr. 80 frá 11. júní 1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, og l. nr. 33 frá 3. nóv. 1915, um verkfall opinberra starfsmanna. Legg ég til, að ríkisstj. verði falið að skipa sérstaka sjö manna n., er hafi það starf að endurskoða hvor tveggja l. og gera till. til breyt. á þeim, eftir því sem henni þykir þurfa.

Í grg. fyrir till. er skýrt nokkuð frá ástæðum fyrir því, að till. er fram borin. Ætla ég, að þar sé gerð nokkurn veginn fullnægjandi grein fyrir því, að till. er fram komin, en ég vil þó með nokkrum orðum undirstrika þau sjónarmið, sem þar koma fram.

Þegar l. um stéttarfélög og vinnudeilur voru sett 1938, voru vart til önnur lagafyrirmæli um þetta efni en l. um sáttatilraunir í vinnudeilum og l. um verkfall opinberra starfsmanna. Stéttarfélögin höfðu náð að þróast án þess að um þau væru settar sérstakar reglur. En af þessu leiðir það, að bæði stéttarfélögin og þjóðfélagið eru í vafa um það, hverjum félögin eigi aðgang að. Um það verður ekki lengur deilt, að stéttarfélögin séu lögleg í tilgangi sínum, og um það er ekki heldur deilt, að félögin séu löglegur aðili til þess að semja um kaup og kjör meðlima sinna. En fram til 1938 voru ekki til nein ákvæði um réttarstöðu stéttarfélaga. Sérstaklega kom það fyrir, að deilur yrðu milli félaganna og meðlima þeirra um það, hver væri réttur aðili um kaupsamninga. Einkum kom það fyrir, að meðlimirnir gerðu sjálfir samninga, sem voru þeim óhagstæðari en samningar félaganna, en þeir voru teknir gildir umfram samninga félaganna sjálfra. Það ríkti því mjög mikil óvissa í þessum efnum einkum í sambandi við verkföll og vinnustöðvanir, og var það oft mjög bagalegt. Fyrstu lagaákvæði, sem voru sett um þessi mál, voru l. frá 1928 um sáttasemjara í vinnudeilum. Í þeim er gert ráð fyrir því, að ríkið skipi og kosti slíkan sáttasemjara, en nánar er það ekki útfært, og vald sáttasemjarans varð í reyndinni ekki neitt. En með þessu eru líka talin upp öll þau ákvæði, sem til voru um þessi efni fyrir 1938, er l. um stéttarfélög og vinnudeilur voru sett. Þau l. voru algert nýmæli í íslenzkri löggjöf, og með þeim var því verið að leita fyrir sér um heppileg lagafyrirmæli um þessi mál. Í erlendri löggjöf voru þá hins vegar til mörg og ýtarleg lagafyrirmæli um þetta, og þegar þessi l. voru sett hér, þá mun varla hafa verið til nokkurt menningarríki í Evrópu, sem ekki átti lagafyrirmæli um þessi mál.

Það, sem einkum þurfti að gera, er l. voru sett hér 1938, var að taka upp og samræma þau fáu ákvæði, sem hér voru til, og þó sérstaklega að kynna sér rækilega erlend lagafyrirmæli um þessi mál og reyna að velja úr þeim það, sem heppilegast mundi hér heima, og koma þessu saman í einn samfelldan lagabálk. Það var mikill vandi að vinza úr þessu og breyta því eftir íslenzkum staðháttum, en inn á þá braut var horfið.

Nú hafa þessi l. verið hér í gildi í 6 ár, og þennan tíma hefur verið mikið umrót í þjóðfélaginu, mikið um vinnudeilur og verkföll og mörgum málum vísað til Félagsdóms. Á þessum tíma hefur því fengizt mikil reynsla á þessi l. Mér hefur því virzt rétt að taka þau nú til athugunar og endurskoðunar og byggja á þeirri reynslu, sem fengizt hefur. Ég mun ekki taka það fram hér, hvaða atriðum ég telji, að helzt þurfi að breyta, — um það geta verið mjög skiptar skoðanir, en ég tel rétt að endurskoða þessi l. og rétt, að að þeirri endurskoðun vinni einkum þeir aðilar, sem mesta reynslu hafa fengið í þessum efnum síðan l. voru sett.

Það, sem ég tel einkum þurfa athugunar við, er það, að ýmis ákvæði l. mættu vera fyllri og ýtarlegri. Þegar l. voru sett, þá var það mjög haft í huga að hafa þau sem einföldust, til þess að þau yrðu þægileg í framkvæmdinni. Nú er mér ekki grunlaust um, að komið hafi í ljós, að ýmis ákvæði þeirra mættu vera fyllri en þau nú eru. Viðvíkjandi einstökum ákvæðum þá er m. a. ákvæði II. kafla um vinnustöðvanir og framkvæmd þeirra, en eins og kunnugt er, þá eru ákvarðanir um vinnustöðvanir og einnig framkvæmd þeirra aðeins heimilar vissum aðilum, og þær mega ekki koma til framkvæmda fyrr en að 7 sólarhringum liðnum frá því er tilkynning um þær er gefin út. Það getur verið álitamál, hvort eðlilegra sé að skipa þessum málum með nokkuð öðrum hætti, t. d. hverjir eigi að hafa vald til þess að ákveða vinnustöðvanir, en er l. voru sett, þá var haldið við það að víkja sem minnst frá þeim reglum, sem myndazt höfðu með félögunum. Nú hefur það komið í ljós, að það getur verið ráðizt í vinnustöðvun, án þess að sá vilji meðlimanna sé á bak við, sem ætti að vera. Ég hef ekki athugað vel, með hverjum hætti þessu yrði bezt komið fyrir, en það mundi verða verkefni n. þeirrar, sem ég legg til, að skipuð verði. Það gæti einnig verið mjög álitamál, hvort rétt væri að hafa frestinn alltaf 7 daga. Þegar l. voru sett, þá var um það rætt, hvort ekki væri ástæða til þess að láta gilda mismunandi reglur um vinnustöðvanir eftir því, hvort um hreina vinnustöðvun til kauphækkunar væri að ræða eða samúðarverkfall eða þá vinnustöðvun af einhverjum öðrum ástæðum. Nú hafa þessi l. verið í gildi í 6 ár, og sami frestur hefur gilt um allar vinnustöðvanir, og eftir þá reynslu ætti að vera hægt að segja um, hvort rétt væri að gera upp á milli mismunandi vinnustöðvana. Þá er einnig rétt að athuga, hvernig viðskiptum milli aðila verður bezt háttað, meðan á vinnustöðvun stendur, og hvernig yrði bezt komið fyrirmælum um meðferð verkfallsbrjóta. Þá má og benda á það, að nauðsynlegt er að athuga betur ákvæðin um sáttasemjara, og það þarf að ákveða valdssvið hans nánar en gert hefur verið. Öll þessi ákvæði tel ég að þurfi að athuga nánar. Þessi l. hafa nú verið í gildi í 6 ár, og þau voru sniðin hóflega í fyrstu, og er því nú ástæða til þess að athuga hvort ekki megi nú bæta þau og gera þau fyllri, enda kom það fram hjá flm. frv. 1938, að þörf mundi vera á því að taka l. til endurskoðunar áður en langt um liði.

Þá hef ég einnig lagt til, að tekin yrðu til endurskoðunar l. um verkfall opinberra starfsmanna frá 1915. Þessi l. voru sett í sambandi við deilu við starfsfólk Landssímans, er það hótaði verkfalli til þess að fá launahækkun. Þessi l. voru sett í flýti, og var því ekki tími til mikils undirbúnings undir þau. Síðan þessi l. voru sett, hefur hins vegar orðið mikil breyting á í þessum efnum. Verkalýðsfélögin voru þá vanmáttug og naumast viðurkennd, og m. a. kom það þá fram hjá sumum þm. í sambandi við þessa lagasetningu, að vafasamt væri, hvort verkföll væru heimil, og voru l. sett í samræmi við þann tíðaranda. Nú er eðlilegt að taka þessi l. einnig til athugunar og þá, hvort ekki mundi heppilegast að taka ákvörðun um opinbera starfsmenn upp í vinnulöggjöfina. Það hafa líka komið fram eindregnar óskir um það, að bæði þessi l. yrðu nú tekin upp til athugunar og umr.

Ég hef lagt til, að í þetta verði skipuð 7 manna n., sem verði skipuð einum manni eftir tilnefningu Alþýðusambands Íslands, einum eftir tilnefningu Far- og fiskimannasambands Íslands, einum eftir tilnefningu Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og einum eftir tilnefningu Vinnuveitendafélags Íslands. Enn fremur eigi sæti í nefndinni forseti Félagsdóms og ríkissáttasemjari. Auk þess verði einn valinn af ríkisstjórninni án tilnefningar.

Ég hef þarna nefnt til þá aðila, sem mest hafa átt við þessi l. að búa og mesta reynslu hafa fengið af þeim. En ef aðrar till. skyldu koma fram um skipun í þessa n., þá er ég tilbúinn að ræða þær. Ég legg svo til, að sá háttur verði hafður um afgreiðslu þessarar till., að umr. um hana verði frestað og henni vísað til allshn.