03.10.1944
Sameinað þing: 50. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 386 í D-deild Alþingistíðinda. (5124)

102. mál, síldarverksmiðja Siglufjarðarkaupstaðar

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég vil aðeins segja örfá orð til að gera grein fyrir afstöðu minni í fjvn. Ég óska þess ekki að verða þessum þrem nm. samferða. Siglufjarðarkaupstaður hefur nú æ ofan í æ verið að biðja um ábyrgð hjá Alþ. Í fyrravetur var farið fram á ábyrgð fyrir 6 millj. kr. fyrir rafveituna, og í vetur þurfti að fá viðbót, 2 millj. kr., og hugðu menn, að þá mundi linna ábyrgðarkröfunum frá þessum kaupstað, og greiddu margir nauðugir atkv. með þeirri ábyrgð. Nú í sumar milli þinga er aftur hafizt handa um að fá ábyrgð fyrir hálfri annarri millj. kr., og er nú breytt um aðferð. Þetta á að nota til síldarverksmiðju á Siglufirði, og leikur á tveim tungum um það, hvort ekki sé eins mikil nauðsyn, að ríkið greiði fyrir því, að síldarverksmiðjum sé komið upp á öðrum stöðum. Það sýnist sem ekki sé mikil nauðsyn á að biðja um þessa ábyrgð, þegar búið er að útvega 4 millj. kr. til þessarar verksmiðju, en samt er farið fram á hálfa aðra millj. til viðbótar. Ég held, að það væri vandalaust fyrir bæinn að afla þessa fjár án þess að leita til Alþ. Annars ætla ég ekki að deila um þetta atriði, en treysti mér ekki til að greiða atkv. með umræddri ábyrgð, því að ég tel mikinn vafa um nauðsyn þessarar verksmiðju. Í öðru lagi er það, að ef þessa er svo mikil þörf, þá ætti bærinn að geta aflað þessa fjár af eigin rammleik. Og í þriðja lagi hafa þessar beiðnir um ábyrgð æ ofan í æ fælt mig frá þeim. Ég sé ekki annað en kominn sé tími til að spyrna fótum við og segja nú nei við þessari ábyrgðarbeiðni.