02.03.1945
Efri deild: 140. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1965 í B-deild Alþingistíðinda. (5130)

254. mál, fasteignamat

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Þetta frv. hefur tekið þeim breyt. í Nd., að ég treysti mér ekki til að fylgja því eins og það er. Nd. hefur gert þá breyt. á frv., að kostnaður við matið skuli greiðast að hálfu leyti af bæjar- og sveitarsjóðum, og það, sem merkilegast er, er það, að þessi breyt. kemur frá fjhn. þeirrar d., sem upphaflega bar frv. fram, en hafði þá ekki þetta ákvæði í frv. Nú er öllum kunnugt, að það er sífellt verið að ganga á rétt sveitarsjóða um alla tekjustofna. Það er nýbúið að samþ. hér þrjú skattafrv., sem öll þrengja kosti sveitarsjóða, en á sama tíma er verið að bæta nýjum skyldum á þessa sífellt rýrnandi sveitarsjóði, og ríkið er þar með að þoka af sér skyldum á fátæka sveitarsjóði. Það er einnig ljóst, og hafa komið um það margar raddir, að nauðsyn sé að breyta svo þessum málum að flytja alla framfærsluskyldu yfir á ríkið, vegna þess að sveitarsjóðirnir eru algerlega að sligast undir þeirri byrði. Það skýtur skökku við, að á sama tíma skuli sveitarsjóðunum vera íþyngt með því að ýta yfir á þá útgjöldum, sem ríkissjóði beinlinis ber að greiða, en heyra ekki að neinu leyti til undir sveitarsjóðina. Ég vil því leyfa mér að bera fram brtt. um, að kostnaðurinn greiðist úr ríkissjóði.