16.10.1944
Sameinað þing: 55. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í D-deild Alþingistíðinda. (5143)

102. mál, síldarverksmiðja Siglufjarðarkaupstaðar

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. — Umr. þær, sem hér hafa farið fram, eru að ýmsu leyti merkilegar og einstæðar í sögu þingsins. Það er alveg rétt hjá hv. þm. S.-Þ., að vissulega er það einn höfuðkostur og einkenni hvers góðs stjórnarfars, að fjármálaspilling eigi sér ekki stað. Þegar ásakanir koma fram um það, er nauðsynlegt, að það sé skoðað ofan í kjölinn. Hins vegar á þetta góða áform ekki að verða til þess, að hafnar séu ofsóknir og ásakanir gegn einstökum þm. fyrir það, að þeir gerast stuðningsmenn máls, sem aðrir þm. eru á móti, þegar það í raun og veru liggur fyrir og er viðurkennt, eins og nú þegar er viðurkennt í þessari umr., að ekkert óleyfilegt hafi átt sér stað. Undirstaðan fyrir þeim ásökunum, sem hér hafa átt sér stað frá hv. þm. S.-Þ. og hv. þm. Barð., hlýtur þó að vera sú, að þingmeirihluti hefði ekki fengizt fyrir þessu máli nema því aðeins, að sú þóknun hefði verið greidd, sem hér er um að ræða. En þóknunin hefði ekki getað fengið þessu áorkað nema því aðeins, að hefði hún ekki verið greidd, hefðu menn ekki goldið þessu atkv. Það er ekki nema tvennu til að dreifa. Annaðhvort hefur þóknunin haft áhrif eða ekki. Hv. þm. halda því ekki einu sinni fram, að meiri hl. þm. eða yfirleitt nokkrir aðrir en einn þm. hafi haft af þessu nokkurn fjárhagslegan hagnað. Það er bara einn þm., sem þeir taka út úr og segja, að hafi hagnazt á þessu, en hinir allir skuldbundið sig með málinu, án þess að fjárhagslegum hagnaði hafi verið til að dreifa hjá þeim. Þar með er a.m.k. komið í ljós, að málið sjálft hefur haft nægan stuðning, hvað sem afstöðu hv. þm. Seyðf. líður. En svo kemur það einkennilega fram, að þó þessir hv. þm. segi í öðru orðinu, að hv. þm. Seyðf. hafi auðvitað ekki borið fé á aðra þm., þá halda þeir því fram í hinu orðinu, eins og hv. þm. Barð. sagði berum orðum, að hann hefði fengið fé fyrir að útvega atkv. hv. þm. (GJ: Hann fékk það líka.) Hann fékk það líka, segir hv. þm. enn þá. Vill þá hv. þm. Barð. í fullri alvöru bera það á mig og aðra hv. þm., sem undir þetta höfum skrifað, að við höfum látið atkv. okkar föl fyrir milligöngu hv. þm. Seyðf.? — að hv. þm. Seyðf. hafi heildsölu á atkv., ekki aðeins mínu, heldur líka annarra hv. þm.? Ég spyr nú hv. þm.: Er hann einn sá alvitri þm., sem ekki einungis veit, af hvaða ástæðum hann fylgir málinu, heldur veit einnig, að við vitum ekki, hvað við gerum, þegar við tökum afstöðu til málsins? Sannleikurinn er sá, að annaðhvort verður hv. þm. að segja hreinlega, að atkv. okkar hafi fengizt fyrir ofangreinda milligöngu hv. þm. Seyðf., eða falla frá sinni kæru. Þar í er engin millileið. Annaðhvort hafa þessir peningar orðið til þess, að atkv. fengust með málinu, sem ella fengust ekki, eða hér er ekki um saknæman hlut að ræða. Ég segi fyrir mitt leyti, að ég skrifaði einna fyrstur manna undir þessa yfirlýsingu af mínum flokksbræðrum, og þá vissi ég fullvel, hvað ég var að gera. Ég átti langt samtal um þetta mál og hafði kynnt mér það rækilega, áður en ég ritaði undir þessa yfirlýsingu, og taldi, að hér væri um mál að ræða, sem fyllilega væri stuðnings vert. Í þessu liggja enn þá þyngri ásakanir hjá hv. þm. í garð þingbræðra sinna en jafnvel ásakanir þeirra í garð hv. þm. Seyðf., ef þeir gera svo lítið úr getu okkar til að dæma um þingmál, að þeir ætla, að við ritum undir slíkt gersamlega hugsunarlaust og að einhver málflutningsskrifstofa úti í bæ geti fyrir vissa þóknun haft atkv. okkar í heildsölu. Spurningin er: Halda þessir hv. þm. því fram, að slík heildsala eigi sér stað, eða halda þeir því ekki fram? Ef þeir halda því fram, að slík heildsala hafi átt sér stað, er um að ræða ásakanir ekki einungis á hv. þm. Seyðf., heldur og meiri hl. alls þingsins. Hv. þm. Barð. hefur af eintómri hvatvísi fallizt á dylgjur hv. þm. S.-Þ. og að vissu leyti lent í gildru hjá honum, því að fyrir hv. þm. S.-Þ. vakir hvorki að ná sér niðri á hv. þm. Seyðf. né meiri hl. hv. þm., heldur er þarna um að ræða innanflokksdeilur hans við forystumenn síns eigin flokks. Hann hefur talið, að með þessu fengi hann færi á að gera þá eitthvað tortryggilega, en kemur ekki auga á það í ofsa sínum, að hann ræðst þarna á þá stofnun, sem hann sjálfur á sæti í og hefur því miður átt mikinn þátt í að móta síðustu ár. En annaðhvort er fyrir hv. þm. að játa, að þeir beri okkur meðþingbræður sína þeim sökum, að slík atkvæðaheildsala hafi átt sér stað, eða að falla frá öllum ásökunum í þessum efnum. Þótt þm. kunni að einhverju leyti utan sinna þingmennskueiginleika að hafa verið við mál riðnir, hefur það aldrei verið talið vera því til fyrirstöðu, að hann mætti taka afstöðu til þess hér á þingi. Þvert á móti hefur, eins og ég drap á hér áðan, átt sér stað, að þm., eins og t. d. hv. þm. S.-Þ., hafa í raun og veru verið launaðir starfsmenn tiltekinna fyrirtækja til að gæta hagsmuna þeirra hér á þingi. Af því að ég fór of skammt í að rekja þá sögu áðan, hélt hv. þm., að hann gæti lauslega frá því sloppið, en í sambandi við þau ummæli hans áðan, að samvinnufélögin væru stærsta verzlun á Íslandi, má minna á, að hv. þm. gekkst, eftir að hann var kominn á laun hjá þeim, manna mest fyrir því og hefur tileinkað sér heiðurinn af því að útvega þessari stærstu verzlun á Íslandi skattfrelsi. Gæti það og verið, að einmitt skattfrelsið hafi orðið til þess, að þessi stærsta verzlun á Íslandi hefur haldið þessum hv. þm. uppi og hans lítið þarfa skóla. Nú segi ég alls ekki, að þarna sé um að ræða beinan vísvitandi óheiðarleika hjá hv. þm. S.-Þ. Hann hefur verið trúaður á samvinnustefnuna, hefur trúað því, að samvinnumannabörnin séu svo veik í trúnni, að þau mundu snúast móti samvinnuhreyfingunni, ef þau gengju í skóla með öðrum börnum á landinu. Allt í góðu skyni gert. En úr því að hann allra manna fyrstur hefur umr. á þingi um það, að menn eigi ekki að styðja mál á þingi, sem þeir hafa starfað að utan þings og e.t.v. haft einhverra hagsmuna að gæta við, kemst hann ekki hjá því, að hans eigin saga verði sögð þar líka.