02.03.1945
Efri deild: 140. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1965 í B-deild Alþingistíðinda. (5186)

254. mál, fasteignamat

Frsm. (Magnús Jónsson):

Ég vil aðeins benda á, að brtt. samhljóða þessari skrifl. brtt. var borin fram í Nd. og felld þar, og ég veit þess ekki von, að n. hafi snúizt hugur í því máli. Frv. fer í Sþ., ef því er breytt hér, og þá er málinu að sjálfsögðu hætta búin, af því að þá þarf frv. aukinn meiri hl., og þá er óséð um, hvernig um málið fer. Mér þætti mjög hæpið að hleypa málinu þangað, því að hér er um að ræða mál, sem miklu skiptir og verulegur sparnaður er að.

Út af brtt. hv. þm. Barð. vil ég annars segja það, að hér getur naumast verið um verulegan kostnað að ræða nema þar, sem þessir sérstöku matsmenn eru skipaðir, og það kemur þó á þau bök, sem eru breiðust til að bera það, nefnilega Reykjavík og aðra kaupstaði, og ekki er það óeðlilegt, úr því að bæjarstjórn á að skipa annan manninn, að bærinn beri kostnaðinn. Ég skal annars ekki segja mikið efnislega um þessa till., en ég mun taka afstöðu móti brtt., af því að hún gæti stefnt málinu í hættu, ef hún væri samþ.