16.12.1944
Sameinað þing: 77. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 473 í D-deild Alþingistíðinda. (5289)

180. mál, framkvæmd póstmála

Pétur Ottesen:

Ég ætla ekki að minnast á þá brtt., sem hér hefur verið tekin aftur. Eins og menn sjá í brtt. fjvn., leggur n. til, að felld verði niður úr upphaflegu till. heimild fyrir ríkisstj. til þess að verja fé í þessu skyni, því að fjvn. hefur lagt til, að liðir þessir yrðu hækkaðir með tilliti til væntanlegra framkvæmda á næstu árum. Hitt er svo eins og reynslan hefur sýnt, að það er náttúrlega ekki hægt að einskorða það, að þessi liður fari ekki fram úr áætlun, og þess vegna má náttúrlega líta á slíkan lið sem áætlunarlið, en hins vegar felur sú hækkun, sem þarna er gerð, eða sú upphæð, sem lagt er til, að samþ. verði, í sér bendingu til ríkisstj., að ekki er gert ráð fyrir, að fullnaðarframkvæmdir geti orðið á þessu ári, því að þá hefðu að sjálfsögðu verið teknar upp upphæðirnar miðað við það. Mér þykir svo ekki ástæða til þess að taka þetta frekar fyrir, en ég vildi aðeins, vegna brtt. hv. þm. Barð., taka það fram, að mér fyndist ákaflega eðlilegt, að við þær framkvæmdir, sem væntanlega verður um að ræða á næstu árum, verði það sjónarmið, sem fram kemur í brtt. hv. þm. Barð., haft til hliðsjónar. Ég tel eðlilegt, að reynt sé að bæta þar úr, sem þörfin er mest, og framkvæmdir miðaðar við það, þangað til þetta er komið í það horf, sem væntanlega verður áður en langt um líður, að það, sem lagt er til í till. póstmálan., verði grundvöllur frekari framkvæmda.