09.01.1945
Sameinað þing: 82. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 476 í D-deild Alþingistíðinda. (5301)

118. mál, kaup á hlutabréfum Útvegsbanka Íslands h.f.

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Eins og kom fram í ræðu hv. frsm., var ríkisstj. heimilað á síðasta þingi að kaupa þau hlutabréf í Útvegsbanka Íslands, sem ekki höfðu skipt um eigendur, síðan bankinn var stofnaður. Þetta var nokkur sanngirni, af því að ýmsir af þessum eigendum höfðu svo að segja verið neyddir til að gerast hluthafar til að bjarga bankanum á sínum tíma. Við rannsókn, sem fór fram, hefur komið í ljós, að um 400 þús. hafa ekki skipt um eigendur, og má því gera ráð fyrir, að meginhlutinn af þeim fari til ríkissjóðs. Nú hefur komið fram till. að fela stj. einnig að kaupa erlenda hlutabréfaeign í bankanum. Ég álít þetta skynsamlegt. Eftir því sem hagur bankans er nú, er ekki hægt að sjá, að áhætta sé fyrir ríkissjóð að kaupa þessa eign. Því er ekki heldur að neita, að það er heldur óviðfelldið að hafa erlenda hluthafa í stofnun, sem er orðin að miklu leyti eign ríkissjóðs. Ég er því eindregið fylgjandi till. á þskj. 313. Hins vegar tel ég, að brtt. á þskj. 767 orki mjög tvímælis. Það má segja eins og hv. frsm. gat um, að ekki væri mikil hætta, þó að stj. fengi heimild til að kaupa þessi bréf, en ég sé ekki heldur neinn vinning við það. Það er gert ráð fyrir, að þessi bréf séu keypt með nafnverði. Eins og ég gat um, er ekki ástæða til að ætla, að þessi bréf séu minna virði, kannske eitthvað yfir því, svo að ekki á að vera á neinn hátt eftirsóknarvert fyrir hluthafana að selja bréfin þessu verði, en frá bankans sjónarmiði álít ég það heldur tap. Ég álít það vinning fyrir bankann, að það séu nokkrir menn, sennilega eru það að talsvert miklu leyti góðir viðskiptamenn bankans, sem eiga nokkurra hagsmuna að gæta í sambandi við rekstur hans. Ef litið er á þetta frá sjónarmiði ríkissjóðs, má segja, að engin ástæða sé til að ætla, að hann þyrfti að bera tap, þótt hann keypti bréfin. En hann á svo mikið af hlutabréfum í bankanum, að lítil þörf er fyrir hann að slægjast eftir meira af þeim. Þó að ríkissjóður kynni að geta grætt eitthvað á því að ná í þessi verðmæti af innlendum eigendum, tel ég það ekki mjög eftirsóknarvert. Og sem stendur gæti það orðið ríkissjóði talsvert óþægilegt að kaupa bréfin, sem um ræðir, líklega allt að 1200 þús. kr. Hann þyrfti að taka til þess lán, sem ég sé ekki ástæðu að taka.

Segja má, að samþ. heimildar í þessa átt skipti ekki miklu máli, ekki saki að hafa þarna opna leið. Þó að þessi heimild verði samþ., býst ég ekki við, að hún verði notuð af núv. ríkisstj.