09.01.1945
Sameinað þing: 82. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í D-deild Alþingistíðinda. (5308)

118. mál, kaup á hlutabréfum Útvegsbanka Íslands h.f.

Skúli Guðmundsson:

23. nóv. 1943 var afgreidd frá Sþ. þál. um kaup á hlutabréfum Útvegsbanka Íslands h/f. Ályktað var, að ríkisstj. væri falið að kaupa við nafnverði hlutabréf í áðurgreindum banka af núverandi og upprunalegum eigendum eða erfingjum þeirra, ef þess er óskað fyrir lok des. 1944. Í þeirri ályktun, sem hér liggur fyrir, og brtt. hennar á þskj. 767 er hins vegar um að ræða, að því er mér virðist, almenna heimild til stj. um að kaupa þau hlutabréf, sem Útvegsbankinn eða ríkið er ekki eigandi að. En það er ekki tekið fram, hvort kaupa skuli af upprunalegum eigendum og erfingjum þeirra, eins og í fyrri ályktuninni, eða hvort heimilað er að kaupa öll hlutabréfin. Ég leyfi mér að beina þeirri fyrirspurn til þeirra, sem að þessari till. standa, hvort það sé meining þeirra, að stjórnin hafi heimild til að kaupa öll hlutabréfin, hverjir sem hafa verið eigendur þeirra á umliðnum árum. Einnig væri gott að heyra frá hæstv. fjmrh., hvort heimildin verði notuð þannig, ef hún verður samþ.