13.12.1944
Sameinað þing: 75. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 497 í D-deild Alþingistíðinda. (5362)

222. mál, virkjun Andakílsár

Flm. (Pétur Ottesen):

Eins og kunnugt er, hefur hæstv. Alþingi áður heimilað ríkisstjórninni að ganga í ábyrgð fyrir 3 millj. kr. láni til Andakílsárvirkjunarinnar til efniskaupa. Ábyrgðin var þegar veitt, enda var búið að festa kaup á nærri öllu efni til virkjunarinnar, sem er upp á 5000 hestöfl. Það er aðeins eftir að festa kaup á efni til stíflunnar og húsbygginga, sem gert er ráð fyrir að kaupa eftir hendinni. Það, sem vantar nú, er 4,5 millj. kr., og verður þá heildarábyrgðin 7,5 millj. kr. Þau félög, sem standa fyrir virkjuninni, eru sýslufélag Mýra- og Borgarfjarðarsýslu og Akraneskaupstaður. Rafmagn það, sem hér um ræðir, á að leiða til Akraness, Borgarness, Hvanneyrar og allmargra sveitabæja, sem eru í leiðinni, sem leiðslan er lögð um. Og fleiri svæði koma til greina, þar sem þéttbýlt er. Þessi virkjun nær ekki nema til helmings þeirrar vatnsorku, sem hægt er að fá úr Andakílsárfossum. Samkv. útreikningi, sem félagið hefur látið gera, er gert ráð fyrir, að virkja megi 12000 hestöfl. Þess er getið í grg. fyrir till., að miðað sé við áframhaldandi virkjun þessara fossa, með það fyrir augum að leiða rafmagn um fleiri byggðir Borgarfjarðar og e. t. v. út fyrir héraðið. Grg. getur þess einnig, að tilhögun framhaldsvirkjunar þessa staðar fari eftir því, hvaða löggjöf kann að verða sett um þetta efni í framtíðinni. En þessar framkvæmdir falla mjög haganlega inn í það heildarkerfi, sem gert er ráð fyrir, að komið verði á í þessu efni.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, en mælist til, að till. verði vísað til fjvn. að lokinni umr.