26.01.1945
Sameinað þing: 88. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 525 í D-deild Alþingistíðinda. (5380)

222. mál, virkjun Andakílsár

Gísli Jónsson:

Ég held, að hollt sé, að hv. þm. geri sér það ljóst, að hér er um stórmál að ræða, og ég hefði vonað, að útiloka mætti úr umr. þessum allt persónulegt. Ég hef hlustað á ræður hv. þm. Borgf. og hv. þm. A.-Húnv., og mér fannst ekki koma fram svo mikill skoðanamunur. Ég vil nú bera fram till., sem ég vænti, að verði til þess að flm. till. á þskj. 837 taki sína till. til baka. Þm. Borgf. hefur getið þess, að það sé ekki ætlun sín að tefja heildarlausn þessara mála, svo að ótti við það er ástæðulaus. Till. mín hljóðar svo: „Við tillgr. bætist nýr málsliður, er hljóði svo: Ábyrgð ríkissjóðs er bundin því skilyrði, að yfirumsjón með verkinu og reikningshald sé falið manni, sem ráðuneytið samþykkir.“ Mér hefur skilizt á hv. þm. Borgf., að virkjunin verði látin af hendi þegar þar að kemur, svo að óþarft virðist að breyta fyrirsögn þál. Ég vil svo sannarlega framgang þessa máls, að ég vil ekkert leggja í götu þess, sem verða mætti til að tefja það. Ég vil svo leyfa mér að leggja fram þessa till. og vænti, að báðir aðilar megi sættast á hana.

Hér hefur nú verið lagt fram frv. til raforkul., en þar er ekki tryggt, að dreifbýlið fái raforku. Ríkinu einu er samkvæmt því heimilt að byggja rafstöðvar yfir 100 hestöfl, en ríkinu er ekki bundin nein skylda í þessu efni. Þá er og ákveðið, að þau héruð skuli ganga fyrir, sem mest geta lagt fram. Ég veit ekki, hvernig menn hafa hugsað sér þetta, því að ef við hugsum okkur t. d., að ekki sé hægt að framkvæma nema tvö orkuver á einhverju tímabili, en 6 eða 8 héruð, sem geta lagt fram svo mikið fé, eigi að fara í kapphlaup um það, hvað þau geta lagt mikið fram, og ef ekki yrði tekið upp í lagabálk á sínum tíma ákvæði um það, að hver bær og hvert hérað geti hafizt handa, þegar þeim sýnist, um raforkuframkvæmdir fyrir þá sjálfa, gegn því, að þeir leggi fram ákveðinn hluta, sem ákveðinn er fyrir fram í l. sem lán eða á annan hátt, — þá er ekki hægt fyrir nokkurn mann, sem vill tryggja raforkumálin út um sveitirnar, að fylgja því, því að þá er farið inn á sama og með vegina og brýrnar, að þetta er aðeins gert fyrir þá, sem bezta hafa aðstöðu á þingi á hverjum tíma til að koma sínum málum fram, og það vil ég ekki. Ég get þó vel fallizt á, að þessi takmörkun, hvort sem hún er 18% eða 20%, væri mismunandi, t. d. hærri þar, sem er þéttbýli og möguleikar fyrir kaupstaðina á að útvega meira fé, og miklu lægri fyrir dreifbýlið og hina fátækari hreppa. En það verður að setja í löggjöfina ákveðna takmörkun. Þá skulum við sjá hverjir verða með dreifbýlinu og hverjir á móti.

Orð hv. þm. A.-Húnv., sem hann lét falla um það, að ég vilji ekki, að bæirnir borgi dýrt rafmagn, til þess að sveitirnar fái raforku fyrir sig eru alveg út í bláinn. Ég hef ekkert um það sagt. Ég álít einmitt, að það sé mjög frambærilegt m. a., að allur raforkusjóður sé notaður til styrktar sveitunum í raforkumálum. En ég vil ekki, að þannig sé frá þessum málum gengið, að ef einhverjir staðir á landinu, þótt afskekktir kunni að vera, en hafa góð skilyrði til raforku, vilja raflýsa hjá sér, þá komi ríkið og segi: Nei, við ráðum, hvenær þið fáið rafmagn, og þið verðið að bíða eftir því, þangað til okkur sýnist. En þannig vill einmitt hv. þm. A.-Húnv. marka stefnuna.

Ég vil þá snúa mér að því, sem hv. þm. V.-Húnv. sagði um þetta mál. Hann talaði mikið um það, að Reykjavíkurbær hefði fengið allt sitt rafmagn frá Árnessýslu, þar sem ekki væri búið að raflýsa einn einasta bæ enn þá. En mér er spurn, væri búið að raflýsa marga bæi í Árnessýslu, þótt Reykjavík hefði ekki fengið þaðan rafmagn, og væri landið nokkuð betur sett, þó að Reykjavík væri ekki raflýst? Hefur ekki ríkissjóður grætt mest á því, að Reykjavík hefur verið raflýst? Og hve mikið ætli hafa sparazt af olíu, í ljósum, upphitun o. s. frv.? Menn, sem horfa svona skakkt, ættu ekki að ræða um þessi stóru mál. Ég er viss um, að ef reiknað væri út, hve mikið ríkissjóður hefur grætt á raflýsingu Reykjavíkurbæjar, yrði það ekki lítið fé. Og ég man, að það er ekki langt síðan þessi hv. þm. áleit, að landið hefði skaðazt á því að byggja stöð við Sogsfossana. Það er ekki til þess að lyfta undir þessi mál að ætla að setja fótinn fyrir þá menn, sem hafa verið ríkinu fremri í að beita sér fyrir því að leiða raforkuna um landið.

Hv. þm. minntist á, að ég hefði m. a. beitt mér fyrir því, að ríkið tæki að sér að leggja rafveitu um Reykjanes. Ég held, að ekki verði um það deilt, að ríkið vilji gjarnan veita Suðurnesjamönnum þessi hlunnindi og þeir séu sammála um að taka á móti þeim. En hið sama gildir um Andakílsárfossana. Aðilar þar vilja fá þessa aðstoð, og ef hæstv. Alþ. vill samþ. hana, þá sé ég ekki annað en að það sé sama stefnan og haldið hefur verið uppi áður. En þetta verður aldrei leyst, án þess að allir aðilar hjálpi til að koma því í framkvæmd, og sízt, ef á að útiloka einstaka menn, fyrirtæki eða hreppa frá því að koma þessu í framkvæmd.