26.01.1945
Sameinað þing: 88. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 527 í D-deild Alþingistíðinda. (5381)

222. mál, virkjun Andakílsár

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. — Ég ætla fyrst að minnast á það atriði í ræðu hv. þm. Barð., er snertir rafveituna við Sogið.

Ég hef aldrei, hvorki fyrr né síðar, látið nein orð um það falla, að það hefði verið landinu til tjóns, að Reykjavíkurbær byggði stöð við Sogið, og eru því þessi ummæli hv. þm. alveg tilefnislaus. En hitt tel ég að hefði verið heppilegra á þeim tíma, sem l. voru sett um Sogsvirkjunina, að tryggt hefði verið í þeirri löggjöf, að Reykjavíkurbær hefði um leið bætt eitthvað úr raforkuþörf þeirra byggða, sem næst liggja þessari orkustöð. Það var ekki gert, og því fór sem fór, eins og ég gat um í fyrradag í umr. um þetta mál, að það er aðeins einn sveitabær í nánd við þetta stóra orkuver, sem fær þaðan rafmagn, enn sem komið er.

Annars stóð ég aðallega upp til þess að gera aths. við ræðu hv. þm. Borgf. Það var nú töluvert um að vera hjá þeim hv. þm., og vildi hann leggja á það mesta áherzlu, að þm. heyrðu allt, sem fram gengi af hans munni. Nú sé ég hann því miður ekki hér í d., en mun ekki láta það hafa nein áhrif á mig og geri mínar aths. eftir sem áður.

Ég held, að það sé öllum ljóst, sem kynnt hafa sér þessa till., sem hann flytur ásamt hv. þm. Mýr., að ætlun þeirra er fyrst og fremst sú að bæta úr raforkuþörf íbúa Akraness og Borgarness. Og það mun sýna sig, að þegar þessi virkjun er komin upp, þá verða það þeir, sem nota þetta rafmagn, en mjög fáir aðrir, a. m. k. fyrst um sinn, og er ekki gott að segja, hve lengi sú skipun verður þar á.

Hér í grg. með till. þeirra stendur m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Rafmagn frá virkjun þessari verður leitt til Akraness, Borgarness, Hvanneyrar og allmargra sveitabæja, sem eru á leið þeirri, sem línurnar liggja um, og auk þess einhverjar leiðslur um nágrenni Akraneskaupstaðar og e. t. v. víðar“.

Það er sem sé gefið í skyn, að það muni verða leitt víðar. Það eru raunar nokkrir bæir á þessari leið, en þeir eru ekki margir að tiltölu við þann bæjafjölda, sem er í þessum sýslum.

Þá sagði hv. þm. Borgf., að Akraneskaupstaður taki þátt í þessu aðeins að ?, en Mýra- og Borgarfjarðarsýsla eigi hina ? þessa fyrirtækis. Hann vill í sambandi við þetta halda því fram, að í raun og veru séu það því sveitahéruðin, sem ráði að mestu yfir þessu fyrirtæki, og þess vegna muni sveitirnar njóta þess ekki síður en íbúar kauptúnanna. Ég hefði gjarnan viljað beina til hv. þm. Borgf. nokkrum spurningum viðvíkjandi þessu atriði, en fyrst hann hefur ekki tíma til að vera hér, vildi ég, að hv. meðflm. hans, hv. þm. Mýr., tæki þetta til athugunar og gæfi svör, áður en lýkur. Ég vildi vita, hvernig samningum er háttað milli þessara sýslna og kaupstaðar innbyrðis, sem hér eiga hlut að máli. Í grg. segir, að Akranes eigi ?, Borgarnes ? og Mýrasýsla ?, en eftir er þá að vita, hvernig þeim samningum er háttað. Þegar t. d. að því kemur að leiða rafmagn út um byggðirnar, hefur þá verið samið um að selja það með sama verði á öllu svæðinu? Eða getur t. d. Akranes, sem á ?, heimtað að fá ? af rafmagninu, sem þarna er framleitt, fyrir það, sem það kostar komið niður á Akranes, en verða sýslurnar að sjá um dreifingu á rafmagninu að öðru leyti og bera allan aukakostnað, sem er því samfara að leiða rafmagnið um hin strjálli héruð? Mér þætti mjög vænt um að fá upplýsingar um það, hvernig þessir samningar eru.

Þá sagði hv. þm. Borgf., að hann hefði ekkert á móti því, að Andakílsfossavirkjunin yrði liður í hinu væntanlega landskerfi, og enginn árekstur þyrfti að verða. Ég vil þá beina þeirri spurningu til hans, hvort hann sé með því, að ríkið taki þessa virkjun til eignar fyrir kostnaðarverð hvenær sem henta þykir. Hv. þm. Barð. hefur nú boðað, að hann muni flytja skrifl. brtt. við till., sem, að því er mér skilst, gengur í þá átt, að ríkið hafi heimild til að taka virkjunina með kostnaðarverði hvenær sem er. En hafi ég tekið rétt eftir, þegar hann las þessa till., er miðað við það, að þetta verði gert áður en verkinu er að fullu lokið. Ég vil þó benda á, að þetta yrði e. t. v. ekki framkvæmt meðan á verkinu stendur, og þess vegna hefði ég talið heppilegra, að hann hefði fellt aftan af sinni till. einmitt þetta, því að ef það er talið heppilegra, að ríkið taki síðar þessa virkjun, þá getur það eins vel orðið eftir að búið er að fullgera hana eins og meðan hún er í smíðum. Ég vil skjóta því til hv. þm., hvort hann vill ekki taka þetta til athugunar.

Þá þætti mér einnig vænt um að heyra, hvort hv. þm. Borgf. mundi vilja, að ríkið taki þessa virkjun fyrir kostnaðarverð. Skilst mér, að þetta ætti að geta gengið, án þess að leita þyrfti nokkurrar heimildar frá hæstv. Alþ., heldur væri samið um slíkt um leið og þessi stuðningur er veittur, sem nú er farið fram á. En ef menn geta fallizt á, að það sé eðlilegt, að ríkið geti hvenær sem er tekið að sér þessa virkjun, fæ ég ekki séð, að neitt sé því til fyrirstöðu, að ríkið geri það nú þegar, eins og við förum fram á í okkar brtt., því að eins og ég gat um í fyrri ræðu minni, er engin ástæða til að ætla, að það mundi tefja fyrir þessum framkvæmdum.

Hv. þm. Borgf. sagði, að hann hefði áður haft afskipti af raforkumálum hér á hæstv. Alþ. og hefði því kunnugleika á þeim. Þetta er rétt hjá honum, því að ef ég man rétt, hefur hann verið nokkuð við riðinn og stutt að einhverjum hinum varhugaverðustu framkvæmdum á þessu sviði. Hvort nokkurt samband er hér á milli, skal ég ekkert um segja.

Hv. þm. Borgf. var, að því er mér skildist, að áfella mþn. í raforkumálum fyrir það, hve langur dráttur hafi orðið á nefndarstörfum. En í ræðu sinni áðan var hann að ásaka sömu nm. fyrir það, að því er mér skildist, að þeir kæmu of snemma með sitt frv. Finnst mér ekki gott samræmi í þessu.

Skal ég svo ekki fara um þetta fleiri orðum, en vænti þess, að fyrrgreindum fyrirspurnum verði svarað.