17.06.1944
Sameinað þing: 34. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1971 í B-deild Alþingistíðinda. (5426)

Gildistaka lýðveldisstjórnarskrár og forsetakjör

forseti (GSv):

Þá er fundur settur í sameinuðu Alþingi að Lögbergi á Þingvöllum við Öxará.

Vegna þeirra merkilegu mála, er hér eiga að sæta fullnaðarmeðferð, hefur Alþingi í dag með stjórnskipulegum hætti verið flutt af sínum venjulega samkomustað í höfuðstað landsins til þessa fornhelga staðar, þar sem einatt áður dró til úrslita í tilverumálum hinnar íslenzku þjóðar.

Verkefni þessa þingfundar er tvíþætt, í samræmi við það, sem þegar hefur fullgert verið og lög standa nú til, og er samkvæmt dagskrá fundarins ákvarðað þannig:

1. Lýst gildistöku stjórnarskrár lýðveldisins Íslands ásamt öðru, er þeim þætti heyrir.

2. Kjörinn forseti Íslands, er síðan vinnur eið að stjórnarskránni.

Tveir hv. þm. hafa tilkynnt forföll sakir sjúkleika, þm. V.-Húnv. (SkG) og þm. N.-Þ. (GG), og senda jafnframt þinginu og málefnum þess beztu árnaðaróskir.