05.02.1945
Neðri deild: 121. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 546 í D-deild Alþingistíðinda. (5438)

274. mál, bifreiðar handa læknishéruðum

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. — Mér þykir leitt, að þessu skuli komið í það horf, sem virðist valda ágreiningi hér innan þessarar hv. d., en hvað snertir dýralækna, þá er það rétt, að mjög var um þá rætt innan n., og eins og fram kom á fundi, skildist mér, að það væri form. n. einn, sem væri óánægður með þá afgreiðslu að fá þá ekki inn í till. n. Ég kvaddi mér hljóðs til þess að upplýsa, að innan n. kom sú skoðun fram, að dýralæknar ættu að sjálfsögðu að njóta þessara hlunninda, en vegna þess, hve héruð þeirra eru stór, þá er ekki hægt að skylda héruðin til þess að kaupa bifreiðarnar, en sú skoðun hefur komið fram, að ríkið ætti að eiga bifreiðarnar og láta þær af hendi við dýralæknana, og þar af leiðandi gætu þær fylgt embættinu, eins og kom fram í ræðu hv. 2. þm. S.-M.

Það, sem mér virtist vaka fyrir n., var það að útiloka, að þessar bifreiðar yrðu einkaeign. Þess eru dæmi, að menn hafi fengið bifreiðar í nafni embættis og selt þær síðan með miklum hagnaði, án þess að nota þær fyrir embættið. Það var einmitt þetta, sem n. vildi koma í veg fyrir, að farið yrði í brask með þessar bifreiðar, og hugsunin, sem á bak við liggur, er, að bifreiðar þessar vinni sér inn fé til endurnýjunar í viðkomandi læknishéraði, og inn á þessu var n. nokkurn veginn.

Ég held, að það sé rétt, sem skaut upp hjá hv. 2. þm. S.-M., að breyta till. þannig, að ríkið ætti bifreiðar til afnota fyrir dýralækna, en að sjálfsögðu yrði ekki hægt að verzla með þær eða selja sér til hagnaðar, eins og dæmi eru til.

Ég er þakklátur hv. flm. brtt. um Slysavarnafél. Ég var svo hæverskur, að ég vildi ekki hreyfa því innan n., óttaðist, að margar stofnanir aðrar myndu þá koma upp og óska eftir hliðstæðum kjörum. Slysavarnafélag Íslands er góð stofnun og nýtur mikils styrks úr ríkissjóði, og það, sem hér er um að ræða, er að hafa nauðsynleg tæki til að bjarga mannslífum, og eins er það vant að hafa tvenns konar starfsemi, námskeið úti um allt land, en bílakostur dýr í slíkar ferðir, en annað hitt, að leitað er ti1 félagsins, ef leita þarf manna upp til heiða, og er þá ekki sízt nauðsynlegt, að svona bifreiðar geti verið til taks.

Ég vildi óska, að till. yrði breytt þannig, að ekki þurfi að verða árekstur, að hún félli á því, að þarna er hnýtt aftan við till. um bifreiðakost til handa dýralæknum. Þess vegna er ég sammála uppástungu hv. 2. þm. S.-M. um, að dýralæknar fái bifreiðar, en ríkið eigi þær.