14.02.1944
Neðri deild: 12. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1981 í B-deild Alþingistíðinda. (5492)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Pétur Ottesen:

Það er vafalaust ekki ofsögum sagt, hvaða vá er fyrir dyrum, ef sjávarútveginn færi að skorta veiðarfæri.

Nú er ekki liðinn nema 11/2 mánuður af vertíðinni hér við Faxaflóa. En á þessum tíma hefur flotinn orðið fyrir hinum mesta skaða á veiðarfærum, í sumum róðrunum hafa bátar misst öll veiðarfæri, er þeir lögðu í sjó. Má af þessu ráða, hvílíku tjóni við höfum orðið fyrir, og er ljós, að hin mesta vá er fyrir dyrum, ef ekki tekst að afla veiðarfæra í skyndi. Takist það ekki, verður ekki hægt að nota þann tíma, sem eftir er af venjulegri vertíð. Þessi óhöpp hafa bætzt við verulega örðugleika á að afla veiðarfæraefnis, eins og hæstv. viðskmrh. hefur lýst yfir. Veit ég, að hann mun reyna eftir öllum hugsanlegum leiðum að afla veiðarfæra eða efnis í þau, og sé þá lagt kapp á að hraða veiðarfæragerð innanlands, meðal annars með því að skipta vöktum í veiðarfæragerðinni. Ef það tekst ekki, er nokkurn veginn víst, að við verðum að hætta veiðum á yfirstandandi vertíð 1–2 mánuðum fyrr en venjulega. Sá tími, sem af er vertíðinni, hefur notazt illa sökum þess, hve ógæftasamt hefur verið. Frátök mikil og sjóveður vond, þá róið hefur verið. Vil ég lýsa ánægju minni yfir yfirlýsingu hæstv. fjmrh. um, að leitað verði ýtrustu ráða til að ráða bót á þessum vandræðum. En eins og ég tók fram áðan, verður það að gerast á örskömmum tíma, eða á meðan bátarnir eru að slíta þeim veiðarfærum, sem þeir nú eiga eftir. Beztu veiðarfærin hafa nú tapazt, því að bátarnir geyma þau lakari, þar til líða tekur á og veður fara að skiljast. Nýi hluti veiðarfæranna er tapaður, fór mikiðaf honum í áhlaupaveðri því, sem gerði síðastliðinn laugardag, bæði við Vestmannaeyjar og í Faxaflóa og eins á Vesturlandi. Veit ég, að hæstv. viðskmrh. skilur vel nauðsyn þá, sem er fyrir hendi, og mun neyta allra ráða til þess að fá bætt sem skjótast úr þessum vandræðum, og á skjótri úrlausn í þessu efni byggist það, hversu mönnum reiðir af með aflabrögðin á þessari vertíð.