10.10.1944
Neðri deild: 62. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 370 í B-deild Alþingistíðinda. (551)

71. mál, Hjúkrunarkvennaskóli Íslands

Frsm. (Sigurður Thoroddsen):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur athugað þetta frv., og eins og sést á nál., mælir hún með samþykkt þess með breyt. við 5. gr., sem þar er tilfærð. Enn fremur hefur n. komið sér sama um að fylgja brtt., sem ég mun afhenda hæstv. forseta skriflega, og mun ég gera grein fyrir henni á eftir. Frv. þetta kemur í staðinn fyrir ákvæði laga nr. 13 23. júní 1932, um ljósmæðra- og hjúkrunarkvennaskóla Íslands, þau ákvæði, er varða sérstakl. hjúkrunarkvennafræðsluna. Í frv. er svo fyrir mælt, að ríkið haldi uppi heimavistarskóla, er hafi það hlutverk að veita konum fræðslu til að verða vel menntar hjúkrunarkonur. Hjúkrunarkvennaskóli Íslands hefur verið rekinn í sambandi við Landsspítalann síðan hann var stofnaður, og er þetta frv. flutt til þess aðallega að koma fastri skipan á kennsluna þar, og eins ætlazt til þess, að rekið sé á eftir, að hafizt verði handa um byggingu nauðsynlegrar vistarveru fyrir skólann. Hingað til hefur stjórnarnefnd ríkisspítalanna annazt rekstur skólans, en lítið eða ekkert látið sig varða annað en fjárreiður hans. Í frv. er ætlazt til, að hún hafi þær áfram á hendi, en að öðru leyti séu málefni skólans falin sérstakri fimm manna skólanefnd, sem tilgreind er í frv. — Hingað til hefur forstöðukona Landsspítalans haft á hendi forstöðu skólans, en s.l. tvö ár hefur henni verið fengin til aðstoðar sérstök kennsluhjúkrunarkona, og samkv. 3. gr. frv. er ákveðið, að þessi kennsluhjúkrunarkona verði skólastýra, svo að þetta skapar engin aukin fjárútlát. Þá er enn fremur í 3. gr. kveðið svo á, að kennslu skólans skuli hafa á hendi, auk skólastýru, yfirhjúkrunarkona og aðalaðstoðarlæknar Landsspítalans, sem að vísu hafa hingað til verið kennarar við skólann, en er nú skylt að hafa þessa kennslu á hendi og launaðir með tilliti til þess, og ætti þetta þá að vera komið í fast horf. — Námstíminn er ekki lengdur í frv., en þó er heimild til forskólahalds aukin úr allt að 6 vikum upp í 8–12 vikna námstíma. Í þessari grein frv. segir, að eigi síðar en eftir 6 vikna reynslutíma skuli úr því skorið af skólanefnd eftir till. skólastýru, hvort nemandi sé hæfur til að halda námi áfram. Nú hefur sagt mér landlæknir og eins yfirhjúkrunarkona Landsspítalans, að hér muni vera um misgáning að ræða. Í stað 6 vikna eigi að koma 6 mánuðir, enda sé nú miðað við þann tíma, og hér mun því vera hreinni ritvillu um að kenna. Hefur því heilbr.- og félmn. orðið sammála um að flytja brtt. þess efnis, að í stað þessara orða, 6 vikna, komi: 6 mánuðir.

Þá kem ég að brtt., sem heilbr.- og félmn. flytur við 5. gr. frv. Í þessari gr. er kveðið svo á, að um kaup fyrir hjúkrunarstörf í sambandi við námið Pari eftir því, sem um semst milli skólanefndar og hlutaðeigandi sjúkrahúsa. Okkur nefndarmönnum þótti óviðkunnanlegt, að hjúkrunarnemar hefðu hér engan forsvarsaðila, og varð niðurstaðan sú, að þetta skyldi orðað á þann veg, að kaup fyrir hjúkrunarstörf í sambandi við námið skyldi ákveðið af skólanefnd, hlutaðeigandi sjúkrahúsum og Félagi íslenzkra hjúkrunarkvenna.

Þá er tekið fram í 6. gr. frv., að reglugerð skólans megi setja reglur um almennt framhaldsnám hjúkrunarkvenna, svo að þær geti menntað sig í sérgreinum, og er það vel farið.

Í 7. gr. er nýmæli, þar sem í reglugerð skólans má ákveða, að'skólinn haldi uppi sérnámskeiðum í hjúkrunarfræðum, þ. á. m. fyrir ljósmæður, í því skyni að gera þær hæfar til að taka að sér heimahjúkrun í umdæmum sínum. Mér fyrir mitt leyti finnst heldur öfugt að setja þetta í lög, að ljósmæður geti, með því að taka þátt í stuttu námskeiði, fengið á sig stimpil hjúkrunarkvenna, sem þó er af heimtað 3–4 ára nám. Teldi eðlilegra, að heimtað væri, að ljósmóðurfræðslan væri sérgrein innan hjúkrunarfræðslunnar, þannig að ljósmóðir gæti sú ein orðið, er áður hefði lokið hjúkrunarnámi, en ég tel, þó ekki ástæðu til að bera fram brtt. um þetta. Ég lit á þetta sem bráðabirgðaákvæði vegna núverandi ástands, en eins og nú er ástatt, er mjög lítið um verkefni fyrir ljósmæður víða í sveitum, og hefur gengið illa að fá ljósmæður til að setjast þar að vegna þess, enda væri ekki vanþörf á að bæta svo úr kjörum þeirra; að þau geti talizt viðunandi. Þetta frv. er borið fram, eins og ég gat um, til þess að koma fastri skipun á hjúkrunarfræðsluna. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að mikill skortur er á hjúkrunarkonum, og ef þetta frv. gæti orðið til þess, að úr því yrði bætt, þá er það vel farið. Það er auðvitað fyrsta skilyrði fyrir því að fá góðar hjúkrunarkonur, að skóli sé til fyrir þær og að skólinn sé miðaður við húsnæðisþarfir fræðslunnar. Hingað til hefur aðbúð skólans verið mjög léleg, og aðsókn að honum hefur farið minnkandi. Má ætla, að það hafi stafað af illri aðbúð skólans. Ég tel þó, að hitt muni þyngra á metunum, hve illa hjúkrunarkonur hafa verið launaðar. Skal ég svo ekki frekar fjölyrða um þetta, en legg til fyrir hönd nefndarinnar, að frv. verði samþ. með breyt. þeim, er ég hef gert grein fyrir.