04.01.1945
Sameinað þing: 80. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 2000 í B-deild Alþingistíðinda. (5539)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Hermann Jónasson:

Ég heyrði á hæstv. ráðh., að hann vill ekki mótmæla því að stíga þetta skref annars staðar. Það, sem ég vildi benda á, er það, að eftir að þetta skref er stigið við Faxaflóa, er það í raun og veru stigið um allt landið. Það verður ekki komizt hjá því. Ég segi jafnframt og vil taka það skýrt fram, að ég er hvorki að hvetja til þess á þessu stigi málsins né letja að stíga slíkt skref. Ég sagði, að ekki verði hjá því komizt að stíga það, eins og málum er komið. Það þarf ekki að rekja fyrir þm., hvaða skref þetta er í raun og veru, ef stigið er um allt landið. Það má nærri geta, hvernig gengur að afnema þetta, ef hámarksverði í Englandi verður breytt. Í raun og veru er að mínu áliti, eins og oft hefur komið fram áður, alls ekki hægt að reka atvinnuvegina með þessu móti.

Ég vil svo enn á ný þakka hæstv. ráðh. fyrir svar hans við spurningu minni. Vænti ég þess, að einmitt þetta atriði, sem við höfum síðast rætt, liggi nú sæmilega ljóst fyrir öllum hv. þm., og að með bréfinu, sem ég las upp, sé stigið æði stórt skref í atvinnumálum okkar.