04.01.1945
Sameinað þing: 80. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 2007 í B-deild Alþingistíðinda. (5549)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Lúðvík Jósefsson:

Það er augljóst, að hv. þm. Str. leggur sig í framkróka til að fá það út úr þessu tilboði, sem alls ekki stendur í því. Í bréfi því, sem fiskimálan. skrifaði fiskframleiðendum við Faxaflóa, segist hún vilja stinga upp á því við fiskiframleiðendur við Faxaflóa. að hún annist ísfisksflutningana fyrir þá á komandi vertíð með eftirfarandi hætti: 1. nefndin afli með aðstoð ríkisvaldsins nægilega margra skipa til fiskflutninganna og ráðstafi þeim til útflutningshafna, eftir því sem þörf krefur og ástæður leyfa.

Þetta vill hv. þm. skýra svo, að með þessu lofi n. að hafa til nægilega mikið af skipum til að flytja fisk, ekki aðeins eins mikið og á s.l., ári, heldur líka hraðfrystihúsafiskinn, ef eigendurnir krefjist þess. Þetta er mistúlkun. Fiskimálan. hefur ekki lofað að skaffa skip, heldur stingur hún upp á þessu, og það er tekið fram í bréfinu, að með velviljaðri aðstoð ríkisins muni vera hægt að afla nægilegs skipakosts, og ég hef skilið það svo, að hún hafi það ekki fyrirfram á sinni vitund, hvort skipin fengjust. (HermJ: Bréfið er skrifað í samráði við ráðh.) Mér er fullkunnugt um, að bréfið er sent í samráði við ráðh. Þeim, sem mest; eiga undir þessu máli, datt ekki í hug að skilja bréfið á sama veg og hv. þm. Str. Þeir gerðu sér þegar fullljóst, að ekki var víst, að skipakostur fengist til að flytja nema hluta af aflanum, en fyrir það, sem hægt er að flytja, vilja þeir fá eins hátt verð og hægt er að fá. Verðuppbætur áttu að geta komið á allan þann fisk, sem n. flytti út, en ekki annan fisk. Ef ekki reyndist kleift að fá nægan skipakost, ná engar uppbætur til þess fisks, sem n. getur ekki flutt, svo að hv. þm. Str. gerir sér alrangar hugmyndir um áhættuna af þeim. Gert er ráð fyrir, og um það er fullt samkomulag, að hraðfrystihúsin fái álíka mikið af fiski og í fyrra, að jöfnum afla, og með óbreyttu 45 aura verði. Þó að einn bátur leggi meira en annar í hraðfrystihúsin, á verðjöfnun að koma í veg fyrir, að það valdi misrétti.

Ef hv. þm. Str. skyldi sjálfur trúa þeim skilningi sínum á orðum bréfsins, að boðið sé að greiða uppbætur jafnt á fisk, sem út er fluttur eða aldrei fluttur, ætti hann að losna við þann ótta með því að ganga úr skugga um, að skilningur fiskeigenda og fiskimálan. er nákvæmlega eins og allt annar en hans. Þetta þarf hann að kynna sér.

Okkur hefur verið það alveg ljóst, að gera þarf miklu ýtarlegri samning en ymprað er á í þessu bréfi um fiskflutningana. og eru samningsumr. þegar hafnar, rætt um einstök atriði. Það er með öllu rangt, að þetta útflutningsform yrði til þess. að hraðfrystihúsin stöðvuðust, heldur mundi það aðstoða þau verulega. Sízt sakar það hraðfrystihúsin, þótt betra verð fáist fyrir það, sem út er flutt á vegum n., og síðan gerð verðjöfnun. Þau munu þar ekkert þurfa að óttast.

Þó að allur íslenzki flotinn væri tekinn til fiskflutninga og sá færeyski í viðbót, mundum við þurfa á miklu meiri skipastóli að halda og eigum þá til erlendra aðila að sækja. Þess vegna er það, að n. getur ekki veitt ákveðin loforð um næg skip og ríkisstj. ekki heldur, en reynt verður það, sem hægt er. Það þýðir ekkert fyrir hv. þm. Str. að reyna að snúa út úr þessu.