06.02.1945
Sameinað þing: 91. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í D-deild Alþingistíðinda. (5643)

268. mál, flutningur hengibrúar frá Selfossi að Iðu

Ingólfur Jónsson:

Ég skal ekki segja mikið um þetta mál, en hv. 2. þm. N-M. vakti athygli á því, sem Rangæingar hafa vitað áður, að það gæti komið til mála, að brúin á Ölfusá hentaði vel á Hólmsá í Landeyjum, en okkur þm. Rang. þótti þó ekki ástæða til að koma með brtt., því að þessi till. fer aðeins fram á, að það verði rannsakað, hvort það henti að nota þessa brú hjá Iðu. Vegamálastjóri segir, að þar sem það sé ekki útilokað að nota brúna á Hvítá hjá Iðu, sé hann ekki á móti því, að till. verði samþ., en hann telur ýmiss konar vandkvæði á því. Brúin hjá Iðu þurfi að vera 100 metrar, en Ölfusárbrúin sé ekki nema 75 metrar. Ég veit, að það er mikil þörf á því að brúa Hvítá sunnar í Árnessýslu, og finnst mér því, að það ætti að rannsaka, hvort ekki hentaði betur að nota hana þar en á Hólmsá. En ég veit, að vegamálastjóri muni nota brúna á annan hvorn þennan stað, eftir því sem hún hentar, og tel ég þess vegna óviðeigandi, að við Rangæingar færum að flytja brtt. við þessa till. og keppa um það við þm. Árn., hvort brúin yrði á Hvítá hjá Iðu eða á Hólmsá, því að það er enginn vafi á því, að vegamálastjóri mundi setja brúna niður þar, sem hún hentaði bezt, hvernig svo sem till. hljóðaði. Þessi till. er þannig orðuð, að því er ekki slegið föstu, að brúin verði sett hjá Iðu, heldur aðeins, að það fari fram rannsókn á þessu brúarstæði, og það mundi aðeins verða til þess að opna þetta meira að fara að flytja brtt. um þetta efni. Ég vildi aðeins taka þetta fram, að það er ekki vegna þess, að við Rangæingar munum ekki eftir brúnni á Hólmsá, að við komum ekki með brtt., heldur er það af því, að okkur er ljóst, að brúin verður sett þar, sem hún hentar bezt, hvað sem till. þessari líður.