16.02.1945
Sameinað þing: 94. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 610 í D-deild Alþingistíðinda. (5775)

284. mál, leiga á færeyskum skipum o.fl.

Forseti (GSv):

Eins og fram hefur komið, eru það tilmæli hæstv. ráðh., að afgreiðslu þessa máls ljúki í dag að fullu frá þinginu. Í öðru lagi hefur hæstv. atvmrh. farið fram á; að þetta mál gangi ekki til n. Nú hafa raddir komið fram frá form. n. einmitt um það, að nauðsyn bæri til þess, að málið verði athugað betur, áður en það er afgr., og þá í n.

Mér skilst, að hvort tveggja sé, að ef málið færi til n., þá geti orðið að því hagnaður, ef samkomulag yrði um orðalag till., svo að viðunanlegt væri, og í öðru lagi ætti það ekki að þurfa að taka sérlega langan tíma að athuga málið í n., þannig að halda mætti tvo fundi um málið þess vegna á þessum degi.

Ég beini því til hæstv. atvmrh., að þar sem ekki er hér að tala um, að leyfi því, sem í þáltill. felst, verði breytt eða rift, heldur hitt aðeins, að samþykkt sú, sem þingið gerir, sé í samræmi við það, sem hentast og eðlilegast er og ætti að vera, þá skilst mér, að ekki sé hætta á ferð, þótt málinu sé nú vísað til n. Á morgun yrði kvaddur saman fundur um málið, ef þurfa þætti að bíða með það þangað til.