10.03.1944
Sameinað þing: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 2046 í B-deild Alþingistíðinda. (5792)

Þormóðsslysið

Gísli Jónsson:

Ég mun verða við þeim tilmælum hæstv. forseta að verða ekki langorður um þetta mál. Ég kemst þó ekki hjá því að víkja að því nokkrum orðum.

Hv. þm. Ísaf. bar fram fyrir nokkrum dögum fyrirspurn í Nd. í sambandi við rannsókn Þormóðsslyssins. Eins og kunnugt er, á ég þar ekki sæti, og gafst mér því ekki tækifæri til þess undir þeim umræðum að hrekja ýmislegt af því, sem hv. þm. Ísaf. bar þar ranglega fram, annaðhvort vísvitandi eða óafvitandi. Mér ber því að þakka, að hann hefur nú í þinglokin hreyft þessu máli hér í Sþ. og þar með gefið mér tækifæri til andsvara.

Vil ég þá fyrst og fremst upplýsa, að teikning sú, er hv. þm. Ísaf. lagði fram í Nd. undir umræðunum og síðar er bir; í dagblaðinu „Vísi“, er ekki af flaki því, sem rekið hefur úr Þormóði, eins og hv. þm. Ísaf. hefur fullyrt. Mér var ekki kunnugt um að rekið hefði nema eitt flak úr hlið skipsins, en það flak var flutt hingað til Reykjavíkur og er enn geymt í Slippnum. Ég spurði því hv. þm. Ísaf. að því síðar, hvar flak það væri, er teikningin hefði verið gerð af, hvar það hefði fundizt og jafnframt hver hefði gert þessa teikningu. Fór hv. þm. þá allur undan í flæmingi. Taldi, að teikningin bæri það ekki með sér, hver væri höfundur hennar, né hitt, hvar flakið hefði fundizt, en hann héldi þó, að þetta flak væri nú geymt í Slippnum hér í Reykjavík. Síðar staðfesti hann það við mig, að teikningin væri gerð af fyrrnefndu flaki, sem geymt væri í Slippnum. Sannleikurinn er, að teikningin er ekki af því flaki. Það flak er úr hásetaklefa skipsins, en ekki úr miðju skipi, eins og sýnt er á teikningunni. Styrktarhlutföllin á teikningunni svo og þau, sem hv. þm. skýrði frá í ræðu sinni, eru á engan hátt í samræmi við flakið. Þessi teikning, sem hv. þm. Ísaf. hefur lagt fram hér á Alþ., er því falskt gagn í málinu, gert til þess eins að blekkja, eins og flest það, sem þessi hv. þm. hefur sagt um þetta mál og öryggismálin í heild. Ég vildi aðeins láta þetta koma fram, svo að hinn rangi framburður hv. þm. Ísaf. í máli þessu standi ekki í þingtíðindunum án mótmæla.

Mér þykir leitt, að hæstv. dómsmálaráðh. skuli ekki vera hér viðstaddur. Ég hef fyrir alllöngu sent ráðuneyti hans mikilvægt sönnunargagn í þessu máli með ósk um, að það yrði birt almenningi. Þetta skjal er umsögn dómkvaddra manna, sem skoðuðu flak það, sem rak úr Þormóði, og staðfestir, að skipið hafi farizt á grunni, en ekki vegna leka eða fyrir þær sakir, að það hafi verið of veikt, eins og hv. þm. Ísaf. og aðrir hafa verið að klifa á allan tímann. Harma ég, að ráðuneytið skuli enn ekki hafa orðið við þessari ósk minni um að birta þessi gögn. Vildi ég enn eindregið mega vænta þess, að hæstv. ríkisstj. léti birta skjalið nú þegar, svo að almenningi mætti verða ljóst, að hv. þm. Ísaf. og margir aðrir, sem um þetta mál hafa rætt og ritað, vita minna um afdrif skipsins en þeir halda sig vita, eftir ummælum þeirra að dæma.

Hv. þm. Ísaf. fullyrti í ræðu sinni, að Þormóður hefði ekki í mikilvægum atriðum fullnægt íslenzkum reglum frá 1936 um styrkleika skipa af hans stærð, en þó verið leyft að sigla svo lengi sem hann hefði getað flotið. Hér hefði því verið framið glæpsamlegt athæfi gegn hinni ísl. sjómannastétt og gegn þjóðinni. Undir þetta hafa tekið ýmsir aðrir og þar á meðal sum dagblöðin. Ef rannsókn Þormóðsslyssins hefur leitt í ljós, að svo sé, sem hv. þm. Ísaf. heldur fram, og jafnframt að það eitt hafi vakað fyrir honum og öðrum, sem haldið hafa uppi gagnrýni á skipaeftirlitið, að tryggja líf sjómannanna, þá bar þeim fyrst og fremst skylda til þess að krefjast þess, að öll skip, sem byggð eru á sama hátt og Þormóður var og uppfylla þá heldur engan veginn þessar reglur, verði nú þegar stöðvuð og þeim eigi leyft að sigla, fyrr en búið væri að styrkja þau á þann hátt, sem reglugerðin mælir fyrir um. Mér er að minnsta kosti kunnugt um 2–3 skip, sem byggð eru líkt og Þormóður, hafa verið umbyggð líkt og hann og fá enn að sigla tálmunarlaust á milli landa, þrátt fyrir þær staðhæfingar, sem nú hafa verið gefnar út um Þormóðsslysið. En auk þessara skipa veit ég, að meginhluti tréskipa, sem byggð hafa verið fyrir 1920, uppfylla ekki, sem von er, ströngustu fyrirmæli reglugerðar frá 1936 um styrkleika nýrra skipa. Hv. þm. Ísaf. og aðrir útverðir öryggismálanna gætu nú ekki lengur komizt hjá því að krefjast þess, að öll þessi skip verði stöðvuð til rannsóknar og endurbóta, nema því aðeins, að eitthvað allt annað liggi á bak við allan gauragang þingmannsins út af þessu máli. Ef líf þeirra, sem með Þormóði fórust, týndust fyrir það eitt, að skipið hafi verið of veikbyggt og skipaeftirlitið og eigendur með vanrækslu á viðhaldi og útbúnaði framið glæpsamlegt athæfi, þá er það enn glæpsamlegra að stöðva ekki nú þegar öll þau skip, sem líkt er ástatt um og enn sigla. Með því yrði þá fyrirbyggt, að sams konar slys kæmu fyrir á þeim skipum, þótt þau hrepptu sams konar veður. Nema hv. þm. Ísaf. meti eitthvað minna líf þeirra manna. Ég vil því alvarlega beina því til hæstv. atvmrh., hvort hann sjái ekki ástæðu til þess að láta stöðva þessi skip og athuga haffæri þeirra með tilliti til þess, sem nú hefur verið upplýst.

Öll meðferð málsins hjá sjódómi Reykjavíkur hefur verið á þann hátt, að undrun sætir. Móti allri venju eru öll réttarhöldin og allar vitnaleiðslur látið fara fram fyrir luktum dyrum. Beinir aðilar, svo sem skipaskoðunin, skipaútgerð ríkisins, eigendur, vátryggjendur og aðstandendur þeirra, er fórust með skipinu, fá engir að vera þar við eða að hafa þar fyrir sig umboðsmenn. Jafnvel eftir að rannsókninni var að mestu lokið og varðskipið Ægir sent á slysstaðinn til þess að reyna að ná skipinu upp, er eigendum bannað að vera með. Með þessu setti sjódómurinn í upphafi alveg að ástæðulausu einhvern leyndardómsblæ á alla meðferð málsins, auk þess sem vitnisburður réttarvitna fær allt annan blæ og ef til vili allt aðrar niðurstöður heldur en ef aðilum var leyft að spyrja þau og fylgjast með framburði þeirra. Útdrættir, sem birtir hafa verið af vitnaframburði, sýna líka gleggzt, hve vitnaleiðslan hefur verið einhliða í málinu. Þó tekur alveg út yfir, þegar sjódómurinn, sem ávallt hafði haldið málinu lokuðu fyrir öllum aðilum, eins og skýrt hefur verið frá, opnar nú allar gáttir fyrir hv. þm. Ísaf. og leyfir honum einum að vaða þar um með óhreina skó, setja rétt yfir sjálfum dómurunum og spyrja þá sem vitni um eitt og annað, og það áður en skýrsla sjódómsins var birt. Þetta er því furðulegra, þegar sjódómnum jafnt sem öðrum mátti vera það ljóst, að fyrir snápum þeim, sem hér hafa verið að verki, vakir ekkert annað en pólitískar agitationir, ef vera mætti, að þeim tækist að afla sér og flokkum sínum nokkurra atkvæða.