26.02.1945
Sameinað þing: 97. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 678 í D-deild Alþingistíðinda. (5854)

224. mál, virkjun Fljótaár

Frsm. l. minni hl. (Þóroddur Guðmundsson):

Herra forseti. — Þetta mál hefur verið til afgreiðslu hjá fjvn., og fór það þannig, að n. er þríklofin um málið. Við, sem erum í 1. minni hl., leggjum til, að till. verði samþ., þó með dálítilli breyt. frá því, sem hún var upphaflega. Við teljum, að það sé ekki hægt að stöðva þetta mál, því að nú er framkvæmdin svo langt komin, að vonazt er eftir, að stöðin verði tekin til notkunar eftir nokkra daga, en það mundi fara svo, ef þessi ríkisábyrgð fengist ekki, að þetta stóra lán, sem vantar til viðbótar, til að hægt sé að ljúka virkjuninni, mundi sennilega ekki fást, eða a. m. k. yrði það miklu dýrara, og fyrir ekki stærra bæjarfélag en Siglufjörð getur orðið nokkuð örðugt að standa undir þessu, þó að ekki komi til viðbótar 50–100 þús. kr. árlegur skattur, en það er líklegt, að ef Siglufjarðarbær yrði að taka lánið án ríkisábyrgðar, mundi það muna bæinn um 100 þús. kr. árlega vegna hærri vaxta.

Við leggjum til, 1. minni hl., að ríkisábyrgð verði bundin við 85% af heildarkostnaðinum. Er þar farið eftir því, sem gert hefur verið með aðrar ríkisábyrgðir. Þá leggjum við einnig til, að þetta verði einnig bundið því skilyrði, að Rafmagnseftirlit ríkisins telji, að fyrirtækið geti staðið undir sér. Það hefur þegar farið fram nokkur rannsókn á þessu máli, og einn af færustu mönnum þjóðarinnar á því sviði, Steingrímur Jónsson rafmagnsstjóri Reykjavíkur, hefur gert um þetta útreikninga og kemst að þeirri niðurstöðu, að miklar líkur séu til, að fyrirtækið geti staðið undir sér. Hins vegar hefur hann ekki haft nema stuttan tíma til þessara athugana. Og það er líka rétt, að Rafmagnseftirlit ríkisins fór aftur í gegnum þetta og fyrir lágu álit í þessu efni.

Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta mál. Það er búið að ræða þetta svo á þingi, og þetta mál er búið að liggja lengi frammi. Menn hafa haft góðan tíma til að hugsa um það. Og ég geri ráð fyrir, að þær umr., sem um þetta mál fara fram hér í kvöld, breyti engu um afstöðu manna til málsins, enda er búið að ræða þetta í öllum flokkum. Hæstv. ríkisstj. hefur einnig rætt um málið og rannsakað það. — Þó eru það aðeins nokkur orð, sem ég vil víkja að hv. 2. minni hl. n. Mér skilst, að hv. þm. í 2. minni hl., sem vilja í raun og veru ná því sama eins og 1. minni hl. n., sem sé veita þessa ábyrgð, hafa verið vélaðir í málinu. Þau skilyrði, sem hv. 2. minni hl. leggur til, að verði sett, eru með öllu óaðgengileg og mundu verða til þess að tefja þetta mjög mikið og jafnvel gera Siglufjarðarkaupstað ókleift að komast heilsteyptum út úr þessu. Svo að ég vona, að það muni ekki verða margir hv. þm., sem fylgja hv. 2. minni hl. í þessu máli, a. m. k. að engir af þeim hv. þm., sem á annað borð vilja veita þessa ábyrgð, séu að hengja sig í því að vilja láta setja þessi skilyrði, sem ekkert vinnst með, en mundi gera Siglfirðingum óleik og tefja málið. Því að ef það ætti að taka það bókstaflega, að ekki ætti að veita ábyrgðina, fyrr en þessum skilyrðum væri fullnægt, þá væri svo að segja útilokað, að það yrði hægt fyrr en eftir nokkra mánuði. En málið þolir alls ekki slíka bið.

Þá er álit 3. minni hl. fjvn., sem hv. þm. S-Þ. skrifar undir og tveir aðrir hv. nm. með honum. Það er bersýnilegt, að það væri miklu hreinlegra að neita alveg um ríkisábyrgðina heldur en að samþ. brtt. hv. 3. minni hl., með svo miklum útúrsnúningum, sem hv. þm. S-Þ. og þeir hinir stinga upp á, ef þessi ábyrgð væri aðeins bundin við, að það væru ekki nema 3½ millj. kr., sem ábyrgðin væri veitt fyrir, þegar vitað er og upplýst, að það vantar 5 millj. kr. til þessa verks, en þeir í 3. minni hl. n. segja, að Siglufjörður geti staðið undir hinu sjálfur. Því er þar til að svara, að Siglfirðingar ætla sér að standa undir þessu öllu. En hér er farið fram á, að Siglfirðingum verði veitt hliðstæð hjálp eins og mörgum öðrum hliðstæðum kaupstöðum og kauptúnum hefur verið veitt, með því að ríkið gangi í ábyrgð, til þess að lánin fáist með betri vaxtakjörum. Og það væri einkennilegt, ef farið væri þarna inn á alveg nýja braut og veitt ríkisábyrgð aðeins fyrir þessum parti af láni því eða lánum, sem bærinn þarf að taka til þessa mannvirkis. Því að, eins og ég gat um áðan, hefur það verið siður, að ábyrgðir, sem veittar hafa verið einstökum kaupstöðum og kauptúnum undanfarið til slíkra hluta, hafa verið bundnar við 85% heildarkostnaðar. Og það mun nægja í þessu tilfelli. Ég veit ekki, hvað fyrir þessum hv. þm. í 3. minni hl. fjvn. vakir. En maður gæti látið sér detta í hug, að eftir að búið var að ræða þetta við hæstv. ráðh., sem mætti á fundi í fjvn., — og við flytjum eiginlega orðrétta till., sem sá hæstv. ráðh. flutti í fjvn. í samráði við hann og fleiri hæstv. ráðh., — þá getur maður látið sér detta í hug, að þessir hv. þm. í 3. minni hl. fjvn. vilji bara reyna að klekkja með þessu áliti sínu og brtt. á hæstv. ríkisstj. með því að fallast ekki á till. hennar í málinu.

Ég bið hv. alþm., sem vilja á annað borð veita þessa ábyrgð, að samþ. okkar till. í 1. minni hl., en ekki þá till., sem hv. 2. minni hl. n. leggur til, því að það að samþ. till. hv. 2. minni hl. mundi verða til þess að skapa mjög mikil óþægindi og það alveg að ástæðulausu, og það vinnst heldur ekkert við að samþ. þá till.