26.02.1945
Sameinað þing: 97. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 704 í D-deild Alþingistíðinda. (5893)

260. mál, kaup Þórustaða í Ölvusi

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Ég skal ekki níðast á hæstv. forseta. En mér finnst þó sjálfsagt að mótmæla því, sem hér kom fram hjá hv. þm. V.-Sk., að ég hafi verið að níðast á landsetum ríkisins. Ég sagði ekkert þeim til miska. Það voru aðrir menn, sem komu inn á það atriði, sízt landsetum ríkisins til hnjóðs. Ég hef ekki á neinn hátt kastað steini að þessum mönnum. Ég var þvert á móti að lýsa því, hvernig ríkið kæmi fram við þá, en ekki öfugt.

Að því er snertir aths. hv. 2. þm. N.-M., þá hef ég aldrei getað skilið þetta dæmi. Ég þekki jörð, sem nú er verið að byggja upp, og kostar byggingin um 50–60 þús. krónur. Ég get nú ekki skilið, hvað er betra fyrir þessa menn að standa undir þeirri byrði en þótt þeir þyrftu að standa undir allri byrðinni og vera frjálsir að eign sinni. Og þess vegna vil ég ekki „agitera“ fyrir því, að kjósendur mínir fari út á þá glæfrabraut að byggja upp fyrir ríkissjóð, þegar þeir eiga kröfu á því, að landeigendur byggi yfir þá. (PZ: En þá kröfu eiga þeir ekki, sé hægt að byggja jörðina á erfðafestu.)