05.12.1944
Sameinað þing: 70. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í B-deild Alþingistíðinda. (593)

143. mál, fjárlög 1945

Forseti (GSv):

Þá hefjast útvarpsumr., eldhúsumr., síðara kvölds. Verða þrjár umferðir, og hefur hver þingflokkur ræðutíma þannig:

1. Sjálfstfl., stuðningsmenn stj.

2. Sameiningarfl. alþýðu, Sósfl.

3. Alþfl.

4. Framsfl.

Samkv. því, sem getið var í gærkvöld, verða andstöðuflokki stj. í umræðunum, Framsfl.; ætlaðar nú til viðbótar þær mínútur, sem stjórnarflokkarnir þurftu að nota fram yfir það, sem ákveðið var, með því að eigi var kleift að jafna það við þá einu umferð, er þá var viðhöfð, þar eð téður andstöðuflokkur var fyrstur í röðinni. Þykir þetta hentara en sneiða af tíma hinna flokkanna. Þessar mínútur eru 13 alls og verður skipt á umferðirnar.

Í kvöld verður að öðru leyti jafnað þannig um ræðutíma flokkanna, að ef einhver flokkur notar ekki allan sinn tíma í fyrri umferð, fær hann afganginn viðbættan í þeim síðari, en ef farið er fram úr tilskildum ræðutíma, kemur það til frádráttar síðar. En í síðustu umferð er áríðandi, að hv. ræðumenn haldi sér nákvæmlega við tíma sinn eins og hann þá verður, svo að eigi þurfi að koma til frekari athugasemda.