06.09.1944
Sameinað þing: 39. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 725 í D-deild Alþingistíðinda. (5933)

79. mál, endurskoðun stjórnskipunarlaga

Bjarni Benediktsson:

Tilgangur þessarar till. er sá að tryggja betur en ella, að sú endurskoðun, sem fram á að fara á stjórnarskrá lýðveldisins, verði að gagni og í samræmi við óskir almennings í landinu. En mér virðist nokkur vafi á, að slíkum tilgangi verði náð með þeim hætti, sem till. gerir ráð fyrir. Og ég tel það sérstaklega mjög miklum vafa undirorpið, hvort hæstiréttur er til þess hæfari en Alþingi eða þá einhver almenningssamtök að tilnefna menn í slíka n., sem hér er ráð fyrir gert. Mér sýnist sannast að segja, að af öllum stofnunum í landinu sé hæstiréttur einna ólíklegasta stofnunin til þess að fela slíkt vald, sem till. gerir ráð fyrir. Af því mundi leiða óhjákvæmilega, að hæstiréttur yrði dreginn inn í deilur manna og ósamkomulag ýmiss konar, venjuleg starfsemi hans yrði trufluð og hann gerður tortryggilegur um skör fram, ef að líkum lætur um það, hvernig venjulegum stjórnarráðstöfunum er nú tekið hér á landi. Ég hef líka skilið það svo, að fyrir tillögumönnum væri það engan veginn neitt höfuðatriði, með hverjum hætti þessi aukna trygging fyrir happasælli endurskoðun stjskr. yrði fengin. Þeir bentu einungis á eina leið, en létu standa opið að taka til athugunar, hvort aðrar leiðir gætu ekki verið jafngóðar eða þá ef til vill enn þá heppilegri. Slíkar leiðir gætu verið annaðhvort að fela eða heimila einhverjum almenningssamtökum beinlínis að tilnefna menn í stjskrn., eða þá að heimila þeim að koma fram sem ráðgefandi aðili gagnvart n. Þessar tvær leiðir eru fyrir hendi. Mér sýnist sem þær báðar mundu verða heppilegri heldur en sú leið, sem hér er stungið upp á, og virðist mér þó vert að athuga þá leið í sambandi við aðrar leiðir, sem mönnum kynnu að koma í hug.

Mér sýnist því eðlilegast, að málinu yrði að svo stöddu vísað í n. Þar sem hér er um að ræða sameinað þing og á þessu þingi er enn þá starfandi n., sem að vissu leyti fjallaði um stjskr.málið, bæði tiltekna hluta þess og í heild á fyrri hl. þings, sem sagt skilnaðarn., sem um leið var samvinnunefnd stjskrn. beggja deilda, þá vildi ég gera það að till. minni, að þáltill. yrði vísað til þessarar n. til íhugunar, og þar yrði reynt að leita að, með hverjum hætti samkomulag gæti orðið um, að betri árangur mætti verða af starfi mþn. heldur en a. m. k. tillögumenn telja nú líkur fyrir, samkv. skipun n. óbreyttrar.