05.12.1944
Sameinað þing: 70. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 475 í B-deild Alþingistíðinda. (597)

143. mál, fjárlög 1945

Eysteinn Jónsson:

Málflutningur hæstv. ráðh. hefur fljótt snúizt í vörn við þessar umr. Í gærkveld var það gert að einu aðalatriði í ræðu hæstv. forsrh. að afsaka skrum ríkisstj. um nýsköpun með því, að Framsfl. hafi verið reiðubúinn til þess að taka þátt í því, ef hann hefði orðið með í ríkisstj., en sæi nú öll vandkvæði á þessu, af því að hann væri utan við stj.

Hæstv. ráðherrar kyrja hér sama sönginn og áður um nýsköpun og aftur nýsköpun, án þess að nokkur sé nokkru nær en áður um það, hver stefna stj. sé í atvinnumálum. Þeir reyna tæpast að afsaka stefnuleysisfálm ríkisstj. um nýsköpunina, sem mest hefur verið auglýst. Á hinn bóginn bera þeir það fyrir sig, að Framsfl. hafi ekki í viðræðum 12 manna n. gert ágreining um, að í stefnuskrá hugsaðrar þjóðstjórnar yrðu yfirlýsingar um það, að stj. vildi sinna eflingu atvinnulífsins og hafa íhlutun um þau málefni. Þetta mun nú þykja saga til næsta bæjar og furðuleg tíðindi eða hitt þó heldur. Hver er sá, sem ekki vildi lýsa yfir því, að hann væri þessu samþykkur?

En hvað kemur þetta þessu máli við? Hvað ætli núv. ríkisstj. geti lengi lifað á því, þótt Framsfl. kynni að hafa drýgt þá synd að vera ekki nógu skýrmæltur um áform, væntanlegrar fjögurra flokka stj.? En hvað er hið rétta í þessu efni? Það, sem fram kom af hálfu nefndarmanna Framsfl. um þessi mál, voru nokkur atriði almenns eðlis, sem af þeirra hálfu var umræðugrundvöllur, en eftir var að tiltaka nánar um stefnu í atvinnumálum, áður en stjórnarmyndun kom til mála. Til þess kom aldrei vegna þess, að hæstv. forsrh. neitaði að ræða nánar um framfarafyrirætlanir, fyrr en önnur atriði væru rædd til þrautar, og á þeim sprakk.

Það sýnir ráðleysisfálm hæstv. ríkisstj. í þessum málum, þrátt fyrir allt skrumið, að hún skuli reyna að afsaka úrræðaleysi sitt með því, að Framsóknarflokksmenn í 12 manna n. hafi ekki verið búnir að gera grein fyrir stefnu sinni í einstökum atriðum um þau málefni, sem ekki fengust rædd þar til nokkurs gagns vegna afstöðu þeirra, sem nú eru í ríkisstj. Yfirleitt virtist hæstv. forsrh. öðrum þræði vera farið að gruna, að til beggja vona gæti brugðið um endi þess ævintýris, sem hann hefur lagt í, og það á að búa undir ófarirnar með því að hrópa: Framsóknarmenn höfðu léð máls á þessu! — Er þetta málflutningur þeirra, sem trúa á málstað sinn og vilja standa og falla með honum? Áreiðanlega ekki.

En lítum svo á þessar tilraunir til þess að láta aðra fá óorð nú þegar af stefnu stj. og væntanlegum framkvæmdum. Það er gleggst að bera fram nokkrar spurningar til þess að upplýsa þetta og gera um leið grein fyrir því, hvað á milli ber.

Hvenær hefur Framsfl. léð máls á því að taka þátt í ríkisstj., sem notfærði sér tilboð bænda um að falla frá hækkun afurðaverðs, en gengi jafnframt að því með hörku að knýja atvinnurekendur til þess að hækka kaupgjald þeirra, sem bezt eru launaðir allra vinnustétta landsins, og reisa þannig nýja kauphækkunar- og dýrtíðaröldu? En þetta var gert af hálfu hæstv. ríkisstj. Það er mér vel kunnugt um. Hæstv. samgmrh. getur mín vegna, ef hann vill, skemmt sér með því að halda því fram, að hækkanir á launum þeirra, sem hafa yfir 20000 kr. í kaup á ári, séu til samræmis. Flestir landsmanna vita betur.

Hvenær hefur Framsfl. léð máls á þeirri afgreiðslu fjárhagsmála að stofna til 150 millj. kr. ríkisútgjalda án þess að gera sér grein fyrir því, hvernig undir því verði risið, hækka starfslaunagreiðslur ríkisins um 4–5 millj. kr. og lofa ofan á þetta allt út í bláinn, að á næstunni verði afgreidd fullkomnasta tryggingarlöggjöf í heimi, að því er helzt verður skilið, sem vitanlega kostartugi milljóna í framkvæmd? Hvenær hefur Framsfl. léð máls á þátttöku í ríkisstj., sem í öllum greinum íþyngdi kosti framleiðslunnar, sem ekki má þó lakari vera fyrir, og gerðist jafnframt svo óskammfeilin að lýsa yfir því með miklu yfirlæti, að hún sæi úrræði til þess að framkvæma stórfellda nýsköpun í atvinnulífi landsmanna á þeim grundvelli? Hvenær hefur Framsfl. léð máls á að taka þátt í ríkisstj., sem beinlínis hefði það markmið að telja landsmönnum trú um, að það hafi engin áhrif á afkomu þjóðarinnar, þótt styrjaldarviðskipti hætti og niður falli tekjur af skiptum við heri bandamanna í landinu, sem numið hafa stundum langdrægt jafnmiklu og allar framleiðsluvörur landsmanna hafa selzt fyrir? — Eða ríkisstj., sem berði höfðinu við steininn og héldi því fram, að ófyrirsynju væri talað um ósamræmi kaupgjalds og verðlags útflutningsvara, enda þótt milljónatugir séu greiddir úr ríkissjóði til þess að koma í veg fyrir, að kaupgjaldið í landinu falli með fullum þunga á framleiðsluna, og bætir við þeirri ósvífni, að þessir milljónatugir séu greiddir vegna landbúnaðarins?

Allt þetta hefur núv. hæstv. ríkisstj. tekið sér fyrir hendur. Allt er þetta svo fjarri skoðunarhætti, stefnu og vinnuaðferðum framsóknarmanna sem frekast getur verið, og er þýðingarlaust fyrir hæstv. ríkisstj. að leita til þeirra um liðsinni við þessi störf eða reyna að koma óorði á þá í sambandi við þessar framkvæmdir og fyrirætlanir. Það var þessi skoðanamunur á grundvallaratriðum, sem varð þess valdandi, að Framsfl. lýsti yfir því, að hann teldi umr. um fjögurra flokka stj. þýðingarlausar að óbreyttum ástæðum. Afstaða hans í þessum efnum er því nákvæmlega hin sama nú og þá.

En þessar umr. gefa tilefni til þess að benda á, hvernig hæstv. forsrh. er settur að þessu leyti. Meðan hæstv. ráðh. gerði tæpast ráð fyrir, að til stjórnarmyndunar mundi draga með kommúnistum, var hann ekki myrkur í máli um það, að kaupgjaldið væri orðið í ósamræmi við verðlag útflutningsvara, hélt því fast fram, að stöðvun kaupgjaldsins yrði að vera grundvöllur stjórnarstefnunnar, og lagði fram till. í 12 manna n., sem hann las hér upp í útvarpið í gær, hróðugur nokkuð, og byggð er á stöðvun og samræmingu, sem útskýrð var þannig, að hækkun launa hjá hæstlaunuðu stéttunum, sem þá áttu í deilum, kæmi ekki til mála. Um sömu mundir var núv. hæstv. fjmrh. ekki heldur myrkur í mali um launalfrv., — kvað það mundu setja ríkið á höfuðið og vera óvit að samþ. það.

En þetta var fyrir „siðaskiptin“. Nú kveður við annan tón. Afturhaldsmenn einir og verkalýðsböðlar haldi því fram, að ósamræmi sé milli kaupgjalds og útflutningsverðlags, og í því sambandi skiptir engu máli, þótt ríkisstj. stefni hröðum skrefum út í stórfelldar lántökur til þess að borga niður kaupgjaldið og verðlagið, svo að útflutningsframleiðslan stöðvist ekki. Öll öfl eru sett á hreyfingu til þess að knýja atvinnurekendur til kauphækkunar, sem áður kom ekki til mála og dregur á eftir sér nýjar kauphækkanir. Launalfrv. er afgreitt með hækkunum á þá lund, að það hefur í för með sér launahækkanir til flestra fastlaunamanna í landinu.

Þetta er nú sagan um stefnufestu núv. hæstv. ráðh. Sjálfstfl. — Það er lítil furða, þótt hæstv. forsrh. telji sig geta brugðið öðrum um skoðanaskipti, eftir því, hvort þeir taka þátt í stj. landsins eða ekki.

Framsóknarmönnum er borin á brýn íhaldssemi í kaupgjaldsmálum af talsmönnum dýrtíðarbandalagsins frá 1942, sem nú hefur tekið við völdum á ný. Því hefur verið haldið fram, að Framsfl. legði einhliða áherzlu á stöðvun kaupgjaldsins eða lækkun þess sem úrræði í dýrtíðarmálunum. Þetta er rangt. Framsfl. hefur jafnan lagt megináherzlu á að láta eitt yfir hvort tveggja ganga, kaupgjaldið og afurðaverð, í jöfnum, réttum hlutföllum og jafnframt, að stríðsgróðinn yrði tekinn í almannaþágu. Hitt er annað mál, að hann hefur ekki fengið þessu ráðið annarra vegna, og þess vegna hefur einhliða afurðaverðslækkun átt sér stað.

Kommúnistarnir hafa fundið upp og boðað þá kenningu hér á landi til þess að grafa undan fjármálakerfi þjóðarinnar og atvinnuvegunum, að verkalýðurinn yrði skilyrðislaust að berjast fyrir hækkuðu kaupi í krónutölu, hvað sem liði afleiðingum þess í aukinni dýrtíð og minnkandi kaupgetu krónunnar.

Þeir hafa jafnan fengið liðsauka í þessum leik, og nú er það enn á ný talinn versti fjandskapur við verkalýðinn að benda á þann háska, sem af þessu hefur þegar leitt og mun leiða.

En lítum á, hvað aðrar þjóðir gera og hafa gert. Er það af fjandskap við verkalýðinn, sem verkalýðsleiðtogarnir Per Albin Hansson í Svíþjóð og Bevin í Englandi hafa beitt sér alveg eindregið gegn þeirri stefnu í kaupgjaldsmálum, sem hér hefur verið fylgt og núv. ríkisstj. gerir gælur við? Er það af fjandskap við verkalýðinn, að verklýðsleiðtogar í nær öllum löndum, sem við þekkjum til, hafa stutt þá stefnu, sem Framsfl. hefur barizt fyrir hér í kaupgjalds- og verðlagsmálum, en fordæma hina, sem dýrtíðarbandalagið fylgir?

Þeir hafa ekki fundið upp það snjallræði til þess að skipta stríðsgróðanum að þynna út gjaldmiðilinn og standa síðan og dást að hinum bólgnu, verðlitlu sjóðum, eins og hæstv. fjmrh. gerði hér í kvöld.

Framsfl. má vel una því að vera í þessum málum settur á bekk með þeim Per Albin Hansson og Mr. Bevin, og hann leyfir sér að draga það í efa, að íslenzkir kommúnistar og þeir, sem eftir þeirra pípu hafa dansað, séu þeir einu í veröldinni, sem hitt hafa rétta lagið á meðferð þessa máls, enda nú að því komið, að sopið verði seyðið af því, sem hér hefur gerzt fyrir þeirra tilverknað.

Ég vil þá víkja örlítið að aðdraganda stjórnarmyndunarinnar að gefnu tilefni í umr.

Það eru skoplegir tilburðir hæstv. forsrh., þegar hann gefur skýrslu um þessi efni. Ýmist fær hann samvizkubit og tekur þá að afsaka sig með ýmsu móti: Ekki margra góðra kosta völ. — Þrautreynt við framsóknarmenn, en dramb þeirra og frekja verið þröskuldur í vegi, — mótsett kunnu lítillæti hans og hógværð. — En þess á milli forherðist hæstv. ráðh., færist í aukana og lýsir yfir því, hve glæsilegur þessi kostur sé, sem tekinn. var, og hversu hann nú fagni því eftir á, að framsóknarmenn voru nógu frekir, til þess að hann fékk að komast í stj. með kommúnistum — og verða forsrh., — hefði átt að bæta við.

Allar eru frásagnir hæstv. forsrh. um hinar miklu samningagerðir við framsóknarmenn til þess að losna við stjórnarmyndun með núv. ráðherrum hinn mesti blekkingavefur, sem hugsazt getur.

Hámarki sínu náði þessi frásögn, þegar hæstv. forsrh. kom með þá skáldsögu, að hv. þm. Str. hafi gengið á milli manna á Alþ. og sagt: Annaðhvort getið þið tekið mig sem forsrh. eða þið fáið hrunið. — En nokkrum augnablikum síðar skýrði sami ráðh. frá því, að ekki hafi verið hægt við Framsfl. að eiga vegna þess, að hann hefði sett sem ófrávíkjanlegt skilyrði, að dr. Björn Þórðarson yrði forsrh.

Hæstv. forsrh. verður sjálfur að meta, hvað hann telur sér samboðið, en ekki er hann öfundsverður af þessum skáldskap.

Þá er með öllu tilhæfulaust, að Framsfl. hafi fengið tilboð um stjórnarmyndun frá Sjálfstfl., sem hafnað hafi verið. Slíkt boð hefur flokknum aldrei borizt og af þeirri einföldu ástæðu aldrei hafnað því. Vill hæstv. forsrh. ekki lesa hér í útvarpið tilboð það, sem hann gefur í skyn, að flokknum hafi verið sent um þetta efni?

Framsfl. gerði hins vegar Sjálfstfl. tilboð um stjórnarmyndun með hlutlausum forsrh., — ekki neina úrslitakosti bundna við ákveðinn mann, eins og hæstv. forsrh. var svo djarfur að gefa í skyn, — heldur samningsgrundvöll. Þetta var margtekið fram við hæstv. forsrh., svo að ekki varð um villzt. Þetta tilboð var rætt á einum einasta fundi, samningarnir voru alveg á byrjunarstigi, form. Sjálfstfl. átti að boða næsta, en ýmsir samninganefndarmenn áttu að búa sig undir hann með því að athuga einstök mál. Þann fund boðaði formaður Sjálfstfl. aldrei, heldur sleit þannig umr. á byrjunarstigi og sneri sér að stjórnarmyndun með kommúnistum. Þegar þessi vinnubrögð eru borin saman við margra vikna viðræður til þess að koma á stjórnarmyndun með verkamannaflokkunum, þá mun menn geta rennt grun í, hvert hugurinn hefur stefnt. Þá ber og að hafa í huga, að við þá leið voru bundnar allar metnaðarvonir hæstv. forsrh. Við þetta voru bundnar allar vonir hæstv. forsrh. um að hrista af sér ámælið frá 1942, og því skyldi nú öllu til hætta. Hér við bættist, að ef ekki væri hægt að koma á 4 flokka stj., þá hlutu að skiljast leiðir sjálfstæðismanna við stjórnarmyndun, svo djúptækur skoðanamunur ríkti þar um meginstefnuna, og þá var hiklaust valinn sá kostur að slíta sambandinu við þann hluta Sjálfstfl., sem nær stóð stefnu vinnandi framleiðenda, en höfuðáherzla lögð á að keppa við kommúnista um lausafylgið í bæjunum, einkum Reykjavík.

En hvað er um kommúnista að segja í þessu sambandi? Hvernig stendur á því, að þeir skyldu nú allt í einu gleypa við stjórnarsamstarfi við Kveldúlfsklíkuna, sem þeir hafa kallað svo, og gera sjálfan höfuðpaur hennar að forsrh.?

Í síðustu kosningum komust 10 kommúnistar inn á Alþ. með því að básúna það með miklum þyt, að þeir ætluðu sér að vinna með ábyrgum umbótaflokkum á þinginu og taka þátt í myndun umbótastjórnar. Eftir kosningar tóku framsóknarmenn að sér að kanna til fullrar hlítar, hvað hæft væri í þessu skrafi kommúnista um stefnubreyt. Það kom þá í ljós, að kommúnistar voru beinlínis fjandsamlegir hugmyndinni um myndun róttækrar umbótastj. Þeir settu marga tugi skilyrða fyrir slíkri stjórnarþátttöku af sinni hálfu, þ. á m. skilyrði um hreinsun í ríkiskerfinu, eins og það hét á þeirra máli, um lögvernd pólitískra verkfalla og um þingrofsrétt sér einum til handa, svo að aðeins örfátt sé nefnt. Að lokum lýstu þeir yfir því, að um slíka stjórnarmyndun væri ekki að ræða, nema fallizt væri á stefnu kommúnista og skilyrði þeirra, eins og þau lægju fyrir. Og æðsti prestur þeirra, núv. hæstv. uppeldismálarh., lýsti yfir, að það væri ekki aðeins ábyrgðarleysi, heldur glæfrar, ef flokkurinn léti sig henda það að taka þátt í stj. Alþfl. og Framsfl.

Kommúnistar höfðu þá undanfarið haft stöðugt nána samvinnu við hluta af Sjálfstfl. í verkalýðshreyfingunni og víðar til þess að reyna að koma Alþfl. fyrir kattarnef. Þessi samvinna hélt áfram leynt og ljóst, eftir að þeir komust á þing 10 saman. Þannig komu þeir fyrir kattarnef öllum róttækum till. um frekari skattlagningu stríðsgróðans en orðin var ásamt sjálfstæðismönnum og fluttu á sama tíma hvert fjandskaparmálið öðru illræmdara á hendur landbúnaðinum og bændastéttinni sérstaklega. Þannig tókst þeim með samstarfi við Kveldúlfshluta Sjálfstfl. að koma í veg fyrir, að nokkur róttæk umbótalögg jöf væri samþ. á þinginu frá því um síðustu kosningar og fram á þennan dag. Þessi aðstoð og samvinna var svo viðurkennd af hálfu ýmissa sjálfstæðismanna í þinglok 1943 með því að kjósa kommúnista í vel launaðar trúnaðarstöður í síldarútvegsn. og stj. Síldarverksmiðja ríkisins, og í leiðinni var haldið áfram samstarfi gegn Alþfl. með því að sparka þeirra mönnum úr þessum trúnaðarstöðum.

Það hefur ekki leynt sér undanfarið, að kommúnistar hafa verið hræddir við stórkostlegt ámæli fyrir framkomu sína á Alþ. og við stjórnarmyndunarsamningana. Hafa þeir haft af þessu hinar þyngstu áhyggjur. Á síðasta sumri fór að bóla á því, að þeir hyggðust að taka upp nýjar starfsaðferðir, enda er það í fullu samræmi við það, sem sams konar flokkar í öðrum löndum hafa gert nú á þessu ári. Varð þessa nokkuð vart þegar í samningum þeim um stjórnarmyndun, sem byrjuðu í ágústmánuði s.l. En þá var sá vandi óleystur fyrir kommúnista, hvernig þeir gætu komizt í ríkisstj. til þess að reyna að hindra í bili þá trú, að þeir væru óábyrgir og vildu ekki vinna með öðrum að vandamálum landsins án þess að þurfa að stíga nokkurt skref, sem dró úr líkunum fyrir allsherjarupplausn og öngþveiti í landinu.

Þetta var því aðeins hægt, að mynduð væri ríkisstj., sem ekki hefði neinn ákveðinn málefnasamning, en gumaði þeim mun meira af því, hvað hún ætlaði að taka sér fyrir hendur, ríkisstj., sem héldi áfram kauphækkunarstefnunni, en aðhefðist ekkert til þess að stöðva dýrtíðina, hvað þá lækka hana.

Þegar hér var komið sögu, hurfu öll skilyrði, sem höfðu verið nauðsynleg við myndun umbótastjórnar, eins og dögg fyrir sólu, bæði þau, sem snertu áhugamál umbjóðenda þeirra, og hin fáránlegu, sem höfð voru á oddinum til þess að koma í veg fyrir stjórnarsamstarf áður. Aðeins tvennt var nauðsynlegt: að öngþveitið í dýrtíðarmálunum héldi áfram — og ykist þó fremur en hitt; að væntanleg upplausn og úrslitabarátta yrði undirbúin með því, að ný ríkisstj. tæki sér fyrir hendur að telja þjóðinni trú um, að allt væri í hinu bezta lagi um atvinnu og fjárhagsmál þjóðarinnar, allt gæti staðið áfram eins og það hefði verið á stríðsárunum, ef rétt væri á haldið, m.ö.o., að hin nýja stj. tæki að sér að kveikja vonir með þjóðinni, sem hlytu að bregðast og valda sársauka og erfiðleikum, þegar að því kæmi.

Kommúnistum mun fljótlega hafa verið ljóst, að þess var enginn kostur, að Framsfl. ætti þátt í slíkri stjórnarmyndun, en hins vegar alið þá von í brjósti, að núv. hæstv. forsrh. væri rétti maðurinn til þess að standa fyrir þessu fyrirtæki. Ekki settu þeir það fyrir sig, að þeir höfðu um fjölda ára haldið því fram og verið kosnir á þing fyrir þann málflutning m.a., að Kveldúlfsvaldið og stríðsgróðavaldið yfirleitt væri hættulegt vald í landinu, að ógleymdu Landsbankavaldinu, sem mjög var bent á sem höfuðfjanda verkalýðsins.

Kommúnistar urðu ekki fyrir vonbrigðum um núv. forsrh. Hann reyndist óðfús til þess að taka þátt í þessum leik og hefur nú myndað ráðuneyti, sem vafalaust uppfyllir allvel hugmyndir kommúnista um fyrirmyndarstjórn í auðvaldsþjóðfélagi, þ.e.a.s. ráðleysisstjórn, sem mun auka erfiðleika atvinnulífsins, verða aðgerðalítil um flest aðkallandi framfaramál og tefla fjárhag ríkisins í öngþveiti á þeim mestu uppgangstímum, sem Íslendingar hafa nokkru sinni lifað.

Ég finn ekki á þessu neina aðra skýringu en þá, að kommúnistar ætli sér að skapa falska trú og andvaraleysi og síðan, þegar ekki verður lengur hægt að flýja frá raunveruleikanum, að hlaupa frá ábyrgðinni og í bak þeim, sem nú eru nógu grunnhyggnir til þess að láta þá hafa sig til þess að gefa þjóðinni alveg rangar hugmyndir, hvernig ástatt er um horfur fram undan. Þegar erfiðleikarnir verða ekki lengur umflúnir, þykir mér líklegt, að þeir segi: Vorum við ekki allir sameiginlega búnir að lýsa yfir þeirri skoðun, að ef rétt væri á haldið, þá gæti allt verið eins og það var á stríðsárunum, meðan gullflóðið var mest? Nú kveður við annan tón hjá ykkur, en við erum sömu skoðunar og áður. Það er vegna þess, að þið ætlið að bregðast, en við ætlum að finna þessum orðum stað í framkvæmd og skorum á menn að veita okkur til þess fulltingi og koma á þeirri þjóðfélagsbyltingu, sem ein getur skapað grundvöll fyrir því. að þessi spádómur okkar og Ólafs Thors rætist. — Það furðulega hefur einnig skeð, að Alþfl. hefur gengið inn í þetta samstarf gegn hálfkveðnum loforðum um nokkur áhugamál flokksins. Þó eiga hér í hlut höfuðfjendur hans, sem unnið hafa saman dyggilega undanfarin ár gegn honum sérstaklega, og er nú fengin staðfesting fyrir því í sambandi við Alþýðusambandsþing, sem nú er nýafstaðið, að enn er haldið áfram sömu stefnu, aðeins með meiri ofsa en nokkru sinni fyrr. Það munu því fáir verða hissa, þótt nokkurs kvíða yrði vart hjá hæstv. samgmrh. í gærkvöld um vinnubrögð hæstv. ríkisstj.

Ef til vill hafa sumir landsmenn litið svo á undanfarnar vikur, að ríkisstj. byggi yfir einhverjum bjargráðum í atvinnumálum landsins og hefði fundið úrræði, sem áður voru dulin. En hafi þessu verið til að dreifa um einhverja, þá er þess að vænta, að þeir hafi hlustað í gærkvöld á lýsingar hæstv. ráðh. á fyrirætlunum stj. um framkvæmd nýsköpunarinnar. Fyrst fóru fullyrðingar um, hvílík óhæfa væri að tala um, að kaupgjald og framleiðslukostnaður væri orðið í ósamræmi við útflutningsverð afurðanna. Síðan komu lýsingar á því, að menn vilji leggja fjármuni sína í allt annað fremur en sjávarútveg, — þá fjálglegur kafli um það, að tekjur fiskimanna væru í algeru ósamræmi við tekjur launamanna, sem vinna í landi, og stórfelldur skortur væri s jómanna á fiskiflotann, jafnvel nú þegar, hvað þá, ef flotinn verður aukinn stórlega. Þá var og skýrt tekið fram, að stj. mundi ekki styrkja sjávarútveginn, en hún mundi hugsa hlýlega til hans! Rætt var um, að ýmis ráð væru til þess að bæta hlut fiskimanna, en vandlega þagað yfir því, hver þau væru, hvað þá heldur, að lýst væri yfir, hvað stj. mundi gera í þeim efnum. Menn voru rækilega varaðir við falsspámönnum, sem flyttu þær villukenningar, að kaupgjald í landinu, sem skapar verðlagið að mestum hluta, hafi nokkur áhrif á það, hvernig hlutur sjómannsins hrekkur til lífsframfæris eða til þess að hann hafi sambærilegar tekjur við aðra vinnandi menn í landinu. Loks var haft í hótunum við menn og því lýst yfir, að ef menn ekki trúi því, að allt sé í lagi, og breyti samkv. því, þá verði fé manna af þeim tekið og lagt í þjóðnýtingu útgerðarinnar. Dagar einstaklingsframtaksins séu þá taldir. Er þá komið að þeim þætti í áætlun ríkisstj., sem hæstv. forsrh. hefur hér á Alþ. talið í því fólginn að sækja féð til manna „inn í rottuholurnar“.

Með þessu skrafi viðurkenna hæstv. ráðherrar í öðru orðinu það, sem þeir harðneita í hinu. Hvers vegna skyldu menn vilja leggja peninga sína í flest annað fremur en útflutningsframleiðslu nema af því, að menn sjá fram á, að algert ósamræmi er nú þegar orðið milli kostnaðar og verðlags, og þar við bætist, að núv. hæstv. ríkisstj. mun enn auka á þetta ósamræmi.

En hvernig stendur þá á því, að nú skuli vera svo komið, þrátt fyrir margfalt fyrirstríðsverð á sjávarafurðum, að hlutarmenn eru að verða hálfdrættingar á við þá, sem í landi sitja, að mokafla skuli þurfa, til þess að nokkur von sé um, að bátaútvegur beri sig, og borga þarf milljónatugi úr ríkissjóði, sem senn er tómur, til þess að halda niðri framleiðslukostnaðinum?

Það er svona komið vegna þess, að þjóðin bar ekki gæfu til þess að hlíta ráðum Framsfl. um stöðvun dýrtíðarinnar snemma á stríðsárunum. Það er svona komið vegna þess, að núv. hæstv. forsrh. og kommúnistar hafa fengið tækifæri til þess að ráða stefnunni í dýrtíðarmálunum. Ef dýrtíðin hefði verið stöðvuð, þótt ekki hefði verið fyrr en haustið 1941 eða um áramótin 1942, þá hefðu afkomuhorfur sjávarútvegsins verið glæsilegar, hlutur fiskimanna í fullu samræmi við tekjur annarra landsmanna, enginn hörgull ungra, vaskra sjómanna, sem höfðu glæsilegar tekjuvonir, og stj. landsins ekki þurft að hafa í hótunum við menn í þeirri von, að þeir fengjust þá til þess fremur en ella að hætta fé sínu í þann atvinnurekstur, sem nær öll utanríkisviðskipti landsmanna hvíla á. Þá hefði ríkissjóður verið skuldlaus og átt stóra sjóði, aldrei þurft að borga niður verðlag á innlendum markaði né útflutningsuppbætur: Þá hefði verið léttara undir fótinn fyrir framkvæmd þeirrar nýsköpunar, sem þarf að verða í atvinnulífi landsmanna, og barátta Framsfl. í dýrtíðarmálinu hefur einmitt ekki sízt verið við það miðuð, að verðbólgan hlaut og hlýtur óhjákvæmilega að verða þröskuldur á vegi framfaranna nú í lok styrjaldarinnar og eftir hana.

Í stað þess að byrja á því að lagfæra nokkuð það ástand, sem ríkir í atvinnumálum þjóðarinnar, og auka mönnum með því áræði og bjartsýni, vinnur núv. ríkisstj. í gagnstæða átt og þar með gegn þeirri nýsköpun, sem hún talar mest um. Það er fávíslegt og hefnir sín að segja þeim, sem ekki eru litblindir, að svart sé hvítt og hvítt sé svart. Það er enn þá fávíslegra að ætla sér að framkvæma nýsköpun með því að láta ríkið kaupa atvinnutæki, sem menn vilja ekki eiga, af því að ekki er hægt að reka þau nema með tjóni. Slíkt er hreint og beint óframkvæmanlegt, og sú dýrð stendur stutt, sem af slíku leiðir, þótt reynt væri. Það er ekki hægt að byggja nýsköpun atvinnulífsins á því að halda framleiðslunni í úlfakreppu og knýja menn áfram með hótunum.

Það er furðu ófyrirleitið að slá því fram; að það skilji á milli stjórnarandstæðinga og stjórnarsinna, að stjórnarliðið vilji nýsköpun, — hinir ekki. Stjórnarandstæðingar vilja nýsköpun á heilbrigðum grundvelli, og þeir vara við því, að stefnuleysi og ráðleysi núv. ríkisstj. muni reynast Þrándur í götu þess, að framkvæmdir til aukningar atvinnulífsins og almennra framfara verði jafnstórstígar í náinni framtíð og verða þarf. Það eru allar horfur á því, að stefna hæstv. ríkisstj. leiði til þess, að Íslendingar glati á næstu missirum mörgum tækifærum, sem þeir hefðu haft til þess að efla framfarir í landinu.

Því hefur verið haldið á loft af talsmönnum hæstv. ríkisstj., að það mætti telja til ábyrgðarleysis Framsóknarflokksmanna að vera ekki með í ríkisstj., rjúfa eininguna, eins og það heitir á tungumáli núv. hæstv. forsrh. og kommúnista. Það er nú mál út af fyrir sig um eininguna í stjórnarflokkunum og þeirra á milli, — sbr. það, að 1/4 þingflokks sjálfstæðismanna er á móti stj., og sbr. einnig vinnubrögð og vinnuaðferðir kommúnista og sjálfstæðismanna á Alþýðusambandsþingi.

En víkjum að ábyrgðarleysinu. Samkv. hinum nýju siðareglum hæstv. forsrh. og kommúnista og eftir „siðbót“ þeirra, þá mundi það eiga að teljast bera vott um ábyrgóartilfinningu að taka þátt í ríkisstj., þótt menn væru sannfærðir um, að varðandi þýðingarmestu verkefnin yrði ýmist um gagnslaust fálm að ræða af hendi stj. eða framkvæmdir, sem stefndu í öfuga átt við það, sem menn teldu rétt, og þótt menn vissu, að málflutningur hennar yrði öðrum þræði innihaldslaust skrum, en á hinn bóginn villandi lýsingar á því, hvernig ástatt er í landinu og hverju landsmenn muni þurfa að mæta á næstunni.

Framsóknarmenn hafa svo gamaldags hugmyndir um þingmannsskyldur sínar, að þeir skilja ekki þessar nýju hugmyndir um ábyrgðartilfinningu og hafa því ekki tekið þátt í stjórnarmynduninni, en í þess stað talið það skyldu sína að vara þjóðina við og undirbúa framkvæmd réttari og heilbrigðari stefnu.