21.02.1944
Sameinað þing: 19. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 797 í D-deild Alþingistíðinda. (6024)

35. mál, hátíðarhöld 17. júní 1944

Forsrh. (Björn Þórðarson):

Herra forseti. — Ég skal ekki vera langorður um þetta mál eða svara orði til orðs því, sem hv. þm. Borgf. og hv. 2. þm. Reykv. hafa nú tekið fram. En hv. þm. Borgf. lýsti undrun sinni yfir því, að stj. væri að færa sig upp á skaftið með því að bera fram ósk um, að þessari þáltill. yrði vísað til hennar.

Ég vil bara svara því, að stj. hefur bæði borið fram till. til þál. um skilnað Íslands og Danmerkur og enn fremur frv. til lýðveldisstjórnarskrár. Þetta hefur stj. gert, og þetta mál, sem hér liggur fyrir, er beint framhald af meðferð þessara tveggja greindu mála, — og skal ég ekkert svara þessu frekar.

En viðvíkjandi því, sem hv. 2. þm. Reykv. bar fram um það, að ríkisstj. tæki aftur till. um, að þessari þáltill. verði vísað til hennar, þá get ég að sjálfsögðu ekki orðið við þeirri ósk, eftir að ég hef heyrt hinar eindregnu undirtektir formælenda þriggja þingflokka hér.