21.02.1944
Sameinað þing: 19. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 808 í D-deild Alþingistíðinda. (6036)

35. mál, hátíðarhöld 17. júní 1944

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. — Hv. 6. þm. Reykv. hóf mál sitt á því að lýsa yfir, að sig undraði sá þytur, sem fram hefði komið út af till. hæstv. forsrh. um að vísa þessari þáltill. til ríkisstj. Ég get ekki tekið þátt í undrun þessa hv. þm., því að mér finnst mikið tilefni til þess, að nokkur þytur skapist út af svo furðulegri till. Og vitanlega er það með þeim tíðindum, sem margur maður mundi láta segja sér oftar en einu sinni, að þáltill., sem flutt er af 13 þm., fái þá meðferð á hæstv. Alþ., að hún sé afgr. með þeim einfalda hætti að vísa henni frá til ríkisstj.

En við skulum nú athuga efnishlið þessa máls nánar. Hv. 6. þm. Reykv. hélt því fram, að með þessari meðferð, að vísa þáltill. til ríkisstj., væri bókstaflega öllu náð, sem fram á væri farið í þáltill., því að till. fjallaði eiginlega um það eitt að skora á hæstv. ríkisstj. að verja fé til hátíðahalda á Þingvelli og víðar í sambandi við stofnun lýðveldis á Íslandi. — Ég verð að segja það, að ég er dálítið hissa á þessum málflutningi einmitt frá þessum hv. þm., sem ég hef annars reynt, að væri enginn undirhyggjumaður, heldur ærlegur í málsmeðferð og svo skýr, að yfirleitt vefðist það ekki fyrir honum að skýra einföldustu hluti. Hver, sem les þessa þáltill., gerir sér ljóst, að aðalatriði hennar felst í þessum orðum, sem ég vil lesa, með leyfi hæstv. forseta, að n., sem þáltill. leggur til, að skipuð verði, á að „annast undirbúning hátíðahalda á Þingvelli og víðar 17. júní 1944 vegna gildistöku lýðveldisstjórnarskrár Íslands þann dag.“ — Þetta er mergur málsins, að í þáltill. lýsir Alþ. yfir því, að lýðveldisstjskr. taki gildi 17. júní 1944. Og það þarf engum blöðum um það að fletta, að sú till., sem hæstv. forsrh. kom fram með, er komin fram vegna samninga, sem gerðir hafa verið á bak við tjöldin um það, að Alþ. skuli ekkert samþ., sem bendi til þess, að lýðveldisstjskr. taki gildi 17. júní 1944. Það er þetta, sem hér er um að ræða fyrst og fremst, en ekki heimild til þess að verja fé til hátíðahalda. Það er þetta, sem nokkur þytur er út af, hvort það eigi einnig að hverfa úr þessari þáltill., að Alþ. ætlist til þess, að lýðveldisstjskr. taki gildi ákveðinn dag.

Ég get ekki komizt hjá því að fara nokkuð aftur í tímann til þess að gera grein fyrir, hvers vegna ég álít eðlilegt, að nokkur þytur fari um þingsalinn, þegar þetta kemur fram. Og þá er þess fyrst að minnast, að 8. apríl s. l. ár var undirskrifað hér í Alþingishúsinu samkomulag fulltrúa frá öllum stjórnmálaflokkunum um frv. að lýðveldisstjskr. og um gildistöku hennar. Allir þessir fulltrúar allra þingflokkanna voru þá sammála um að leggja til, að lýðveldisstjskr. skyldi taka gildi eigi síðar en 17. júní 1944. Og orðalagið „eigi síðar en 17. júní“ var notað að yfirlögðu ráði, því að það var samkomulag, að konungssamband yrði ekki tekið aftur upp við Dani eða utanríkismálin seld í hendur Dönum á ný.

En það kom í ljós furðufljótt, að einn þeirra, er undirskrifuðu þetta samkomulag, hvarf fljótlega frá því. Menn mega kalla það hvað þeir vilja, en allir vita, hvað það heitir á íslenzku máli að ganga frá gerðu samkomulagi. Þetta varð mönnum yfirleitt hryggðarefni.

Næst gerðist það svo, að þrír þingflokkar, er stóðu saman að lýðveldismálinu, gerðu með sér samkomulag 30. nóv. s. l. um að standa fast á ákvörðunum frá 8. apríl, þ. e., að hér yrði stofnað lýðveldi eigi síðar en 17. júní 1944. Þessir þrír flokkar kusu svo níu manna n. til að vinna að undirbúningi þessa máls fyrir næsta þing, er samþ. var, að kæmi saman 10. jan. til þess að ganga frá þessum málum. Auk þess skipuðu þessir flokkar þriggja manna fulltrúaráð til að vinna eins að þessum undirbúningi. Síðan eru teknir upp samningar við þann eina mann, er brugðizt hafði samkomulaginu frá 8. apríl, og þvert ofan í samkomulag þriggja flokkanna, sem ekki var hægt að breyta nema með samþykki þeirra allra, var ákvæðið um 17. júní tekið út úr stjskr. Þetta eru brigð á samningnum frá 30. nóv., og er raunalegt til þess að vita. Hvers vegna er þetta gert? Ráðamenn Sjálfstfl. og Framsfl., hv. þm. G-K. og hv. þm. Str., sögðu þá, að það skyldi eigi að síður tryggt, að lýðveldi yrði stofnað hér eigi síðar en 17. júní, og til þess að sanna þetta fylgdu þeir þeirri þál., sem hér er til umr. En rétt eins og þeir hafi brennt sig á fingrunum, kippa þeir að sér hendinni og vilja nú forðast þessa samþykkt Alþ.

Hvað er hér á ferðinni? Hvaða spor verður stigið næst? Hver er tryggingin fyrir því, að lýðveldið verði stofnað eigi síðar en 17. júní?

Ég heyrði hv. 6. þm. Reykv. segja hér, að hann væri með því, að þetta yrði ekki dregið lengur en til þessa umsamda dags, og mér dettur ekki í hug að væna hann um fals í málinu, ég veit, að það er hans einlægt áhugamál. En hvers vegna er þá verið að þurrka þessa dagsetningu út úr stjskr. og þessari þál.? Er það ekki til að halda dyrunum opnum fyrir nýjum brigðum. Ég tek skýrt fram, að ég væni hv. 6. þm. Reykv. ekki um slíkt, en ég væni hv. þm. G-K. um það, og vænti ég þess, að hann megi heyra mál mitt. Ég trúi honum til að beygja af stig af stigi í öllum þessum málum og fylgja því, að lýðveldisstofnun yrði dregin lengur en til 17. júní, ef svo byði við að horfa. Og mér þykir rétt að rökstyðja það, hvers vegna ég væni hann um brigð og eins hv. þm. Str. (PHerm: Þetta er óprestlega mælt). Ég væni þá um brigð, af því að þeir beittu sér fyrir að rjúfa gert samkomulag þriggja flokkanna, og af því, hvernig hv. þm. G-K. og hv. 2. þm. S-M. hafa lýst orðheldni og trúleik hvor annars í stjórnarsamstarfinu. Ég hef líka lesið blaðaskrif hv. þm. G-K. og hv. þm. Str. um sömu efni, og eftir þessar ræður og skrif þá verð ég að segja, að ég treysti hvorugum, því miður, hvort sem það þykir óprestlega mælt eða ekki. Og þegar þeir geta beitt sér fyrir, að brigð séu gerð í alvarlegasta og örlagaríkasta máli þjóðarinnar, þá óttast ég, að þeir gangi alltaf lengra og lengra frá gerðu samkomulagi, og ég treysti þeim ekki til að standa við að fylgja lýðveldisstofnun hér eigi síðar en 17. júní í vor.