30.11.1944
Sameinað þing: 68. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 813 í D-deild Alþingistíðinda. (6053)

184. mál, hlutleysi ríkisútvarpsins

Flm. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. — Í grg. fyrir till. þessari er nokkuð lýst, hverjar orsakir liggja til þess, að hún er flutt. Mér þykir ástæða til að fá úr því skorið, hvort það er vilji Alþingis að halda útvarpinu utan við stjórnmálaerjur eða ekki. Ég vil bæta hér nokkrum orðum við það, sem fram er tekið í grg.

Þegar l. um útvarpið voru sett árið 1930, var gert ráð fyrir hlutleysi þess, og hefur ætíð síðan verið haldið fast við þessa stefnu. Síðar, í starfsreglum settum af útvarpinu sjálfu, eru ýtarleg ákvæði hér um.

Í 1. gr. þessara reglna segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Fréttir þær, sem Ríkisútvarpið flytur af eigin hvötum og á eigin ábyrgð, mega ekki vera mengaðar neins konar ádeilum eða hlutsömum umsögnum um einstakar stjórnmálastefnur, stjórnmálaflokka, stefnur í almennum málum, félagsheildir, atvinnustofnanir eða einstaka menn.“

Hér eru talin þau meginatriði, sem útvarpið skal varast í fréttaflutningi.

Mér er og kunnugt um, að starfsmenn Ríkisútvarpsins hafa lagt sig fram til þess að fylgja þessari stefnu, enda oftast tekizt það. En nú upp á síðkastið hefur allmjög brugðið út af þessu, og má segja, að til þess liggi annarlegar ástæður.

Það ber að játa, að hér er um erfitt og vandasamt mál að ræða, en þess verður að krefjast á hverjum tíma, að þeir aðilar, sem sjá um fréttaflutning útvarpsins, starfi af fyllstu samvizkusemi og láti enga hafa áhrif á sig. Þegar núv. ríkisstj. tók við völdum, tók þegar að bera á nýrri stefnu hjá útvarpsráði, sem auðvitað ber ábyrgð í þessu máli.

Um þær mundir, er séð varð, að takast mundi að mynda stjórn, lýsti forsrh. því yfir, að þrír þingflokkar: Sjálfstfl., Alþfl. og Sósfl. hefðu komið sér saman um myndun ríkisstj. Nú var mörgum á sama tíma kunnugt um, að þessu var ekki svo farið, því að einn fjórði hluti Sjálfstfl. var þessari samvinnu ekki samþykkur. Þessum mönnum mun hafa fundizt rétt að láta sína afstöðu koma fram, og munu flestir vera þeim sammála þar um. Þeir hafa sent útvarpinu yfirlýsingu þess efnis, að þeir styddu ekki þessa stjórn, og var þetta einungis leiðrétting fyrri frétta. En útvarpsráð fellir það á fundi, að þessi yfirlýsing megi koma fram, enda þótt áður væri búið að gefa til kynna, að allur Sjálfstfl. stæði að þessari stjórnarmyndun, m. ö. o., það var verið að meina mönnum að leiðrétta rangan fréttaflutning. Af þessu var ljóst, að nú svifi nýr andi yfir vötnunum og taka átti upp ný vinnubrögð. Þegar myndun ríkisstj. var tilkynnt hér á Alþ., hélt forsrh. langa ræðu um stefnu stj. Einnig vék hann nokkuð að þeim flokki, er ekki var með í myndun þessarar stj., og rakti frá sínu sjónarmiði aðdraganda til stjórnarmyndunar. Þessum fundi í Alþ. var ekki útvarpað, en í fréttatíma um kvöldið heyra menn, að tekið er að spila þessa ræðu á grammófón. Hafði þá forsrh. brugðið við og flutt ræðuna á plötu. Þetta var ekki gert á þingfundi, eins og eðlilegt hefði verið, og það var ekki flutt í þingfréttum, sem og var eðlilegt, og loks var ekki á plötuna tekin greinargerð stjórnarandstæðinga, sem þó var bein afleiðing af ummælum forsrh. um tildrög til stjórnarmyndunar. Þessar aðgerðir Ríkisútvarpsins eru að margra dómi óverjandi, en þó vil ég ekki leggja þær til jafns við það, sem ég kem að síðar. Eðlilega eru það miklar fréttir, þegar ný stj. er mynduð, og þeir, sem þekkja til hæstv. forsrh., ættu ekki að furða sig á því, þótt hér gætti nokkurs yfirlætis, en auðvitað hefði þó allt átt að koma fram, sem gerðist á þessum þingfundi.

Ég hef ekki tekið þetta dæmi í grg., vegna þess að ég tel það ekki eins mikilvægt og annað, og til þess liggja nokkrar afsakanir.

Ég vænti þess, að flestir hafi veitt því athygli, hve stjórnarblöðin hafa dæmt það hart, að stjórnarandstæðingar skuli gagnrýna svo mjög hina nýskipuðu stj. og stefnu hennar. Þar segir, að stj. hafi ekki starfað nema í nokkra daga, og því sé ekki hægt að dæma hana. Þá er það talið til hinnar mestu frekju, að framsóknarmenn hafa farið til fundarhalda út á landi, þeir hefðu heldur átt að bíða og sjá, hvað stj. gerði, og dæma hana síðan.

En hæstv. ríkisstj. var ekki fyrr komin á laggirnar en hún tók að gera ráðstafanir til þess, að félög og ýmis samtök færu að senda dóma og spár og þakkir til þeirrar stj., sem ennþá hafði ekkert gert.

Að þessu var gengið með atorku. Þrátt fyrir það, að stj. hafði mikið að gera og þurfti að fá þinghlé um hálfsmánaðartíma, höfðu hæstv. ráðh. tíma til að sitja á fundum, hlusta þar á lof og kjassmæli og dorga eftir vilyrtum ályktunum.

En á sama tíma víta þessir menn framsóknarmenn fyrir það, að þeir halda nokkra fundi, sem þó senda ekki frá sér neinar háværar yfirlýsingar, enda þótt full ástæða hefði verið til. Þrátt fyrir ásakanir hér um í garð stjórnarandstæðinga, hefur hæstv. ríkisstj. sjálf staðið að fjölmörgum fundum. Hún hefur litið svo á, að andstæðingarnir mættu ekki segja neitt, en hinir ættu að standa á torgum og gatnamótum og hrópa ríkisstj. lof og dýrð og lýsa því, hve hún væri vænleg til alls góðs. Hæstv. forsrh. hefur setið með sveittan skalla, ef svo má segja, og sent þær yfirlýsingar og spár, sem hann hefur aflað sér sjálfur, niður í Ríkisútvarp, og útvarpið hefur tekið við, þangað til það fór að kvisast, að mönnum þætti nóg um og farið væri að spá, frá hvaða félögum yfirlýsingar mundu koma næst; voru þá jafnvel nefnd til hin ólíklegustu nöfn. Allt þetta var birt í fréttum útvarpsins með því fororði, að það væri frá skrifstofu forsrh., en flutningur þess samrýmist ekki þeim venjum, sem gilt hafa um fréttaflutning útvarpsins, og þeim reglum, sem það hefur sett. Þetta hafa verið umsagnir um stefnu stj., — mjög hlutlausar umsagnir, og skal hér fært eitt dæmi til þess.

Í yfirlýsingu frá stjórn Landssambands ísl. útvegsmanna þakkar hún ríkisstj. fyrir, „að hún hefur valið sér það höfuðviðfangsefni að styrkja og endurskapa aðalatvinnuveg þjóðarinnar, sjávarútveginn.“

Ég þykist hafa athugað stefnuskrá ríkisstj. grandgæfilega, en ég get ekki séð þess nokkur merki, að hún ætli sér að styrkja sjávarútveginn. Aftur á móti mun það margra skoðun, að samkv. þessari stefnuskrá verði sjávarútveginum íþyngt, og mun það sönnu nær. Þetta er dómur, sem samrýmist ekki reglugerð ríkisútvarpsins að flytja.

Fleiri dæmi mætti nefna, t. d. það, að í einni yfirlýsingunni er sérstaklega verið að býsnast yfir því mikla afreki, sem forsrh. hafi unnið með því að koma á þessari nýju ríkisstj. Þetta er líka fullkominn hlutdrægnisdómur um störf hæstv. forsrh., því að margur lítur ekki á það sem afrek, þótt hann hafi komið á fót þessari ríkisstj.

Þá er það greinilega tekið fram í hlutleysisreglum útvarpsins, að fréttir af pólitík megi ekki vera mengaðar neins konar ádeilum eða hlutsömum umsögnum um einstakar stjórnmálastefnur, félagsheildir eða stjórnmálaflokka. Þessum reglum hefur líka algerlega verið skotið til hliðar, því að í sumum ályktunum eru dylgjur um stjórnarandstöðuna, sérstaklega þó í einni ályktun, þar sem segir frá verkamannafélaginu Dagsbrún. Þar er gefið í skyn, svo ljóst sem verða má, að þeir, sem leyfi sér að finna að þessari stefnu núv. hæstv. ríkisstj., eða réttara sagt stefnuleysi, séu fjandsamlegir framförum í atvinnulífi þjóðarinnar. Frá því fólki megi nú vænta andstöðu við núv. ríkisstj. Ég sé, að hv. form. Dagsbrúnar brosir og þykist góður að hafa komið þessari yfirlýsingu á stjórnarandstöðunni í útvarpið. En þetta verður að teljast fullkomið brot á reglum útvarpsins um tíðindaflutning.

Þá úir og grúir í þessum yfirlýsingum af villandi ummælum um fyrirætlun hæstv. ríkisstj., og m. a. er frá einni félagsstjórninni lýst sérstaklega yfir fylgi við stefnuyfirlýsingu stj. í sjálfstæðismálinu. Ég veit nú ekki, við hvað hér er átt, og fleira í þessum yfirlýsingum er villandi. Úr því að hæstv. ríkisstj. pantaði þessar yfirlýsingar, hefði ekki mátt minna vera en hún hefði séð um, að svo vel væri frá þeim gengið, að skiljanlegt væri það, sem þar er tekið fram. Það er alveg augljóst mál, að í sambandi við flutning á þessum yfirlýsingum og tíðindum öllum hafa allar hlutleysisreglur útvarpsins verið lagðar til hliðar um þjóðfélagsfréttir. Það hefur verið venja Ríkisútvarpsins, ef hægt hefur verið að finna einhver brot eða frávik frá reglum þess í ræðum eða yfirlýsingum, sem ætlaðar hafa verið til flutnings, að umskrifa þær. En hér hefur verið allt annar háttur á hafður, og efast ég ekki um, hvaðan það er komið. Þessi tíðindi hafa verið send frá hæstv. forsrh., auðvitað með allra hæstum úrskurði um, að þau skyldu birt í útvarpinu eins og það kom frá þeirri hv. stofnun, og má vera, að hæstv. forsrh. beri á móti því, að það hafi verið honum að kenna. Það vita allir menn, að ekki hefur verið breytt um stefnu í útvarpinu, af því að hæstv. forsrh. hefur sent út tilkynningu frá sinni skrifstofu og útvarpið misskilið aðstöðu sína þannig, að það væri skylt að birta það eins og það kæmi fyrir, en lyti ekki venjulegum reglum um tíðindaflutning útvarpsins.

Menn geta rétt ímyndað sér, hversu fer með Ríkisútvarpið, ef því heldur áfram, að stjórnmálamenn í landinu, hvort heldur þeir fara með stjórn á þeim tíma eða eru stjórnarandstæðingar, fara að tíðka það að leita eftir umsögnum um störf sín hjá öllum mögulegum stofnunum í landinu og hafa síðan aðgang að því að setja þessa dóma og umsagnir í útvarpið. Því að ef ríkisstj. heldur áfram uppteknum hætti, verður það vitanlega krafa annarra manna, að sams konar tilkynningar séu birtar frá þeim og þeir geti fengið birta eftir vild sinni í útvarpinu vitnisburði um þau mál, sem efst eru með þjóðinni á hverjum tíma um stjórn landsins. — Ég fyrir mitt leyti er viss um, að hér hefur verið látið undan húsbóndavaldi hæstv. forsrh. Ríkisstj. hefur haft nokkurn glímuskjálfta, þegar hún byrjaði starf sitt, eins og eðlilegt er. Hún hefur kviðið fyrir þeim undirtektum, sem hún kynni að fá, þar sem þetta var nokkuð nýstárlegt fyrirbæri. Hún hefur því strax í byrjun hugsað sér að setja undir þennan leka með því að senda út þessar tilkynningar, sem eiga að sýna, hve mörgum miklum stofnunum í landinu lítist vel á þetta fyrirtæki. Það er mannlegur breyzkleiki að láta sér detta í hug að fara þessa leið, en ekki verjandi að hafa gert það.

Það er hættulegt fordæmi gefið með þessu móti um fréttaflutning útvarpsins. Ef ætti að fylgja því bókstaflega, mundi það helzt þýða það, að hvaða ríkisstj., sem væri, gæti, með því að tilkynna það Ríkisútvarpinu, flutt hvað, sem væri, um stefnu sína og framkvæmdir. Af þessum ástæðum, fordæmisins vegna, hef ég tekið það ráð að flytja þessa þáltill. og fá úr því skorið, hvort hæstv. Alþ. sýnist ekki enn sem fyrr rétt, að Ríkisútvarpið fylgi þeirri hlutleysisstefnu, sem það, að því er ég bezt veit, hefur reynt að fylgja fram að þeim tíma, að hæstv. ríkisstj. tók við völdum, er allar reglur voru lagðar á hilluna í sambandi við tilkynningar frá forsrh. Íslands. Ég vil því fá úr því skorið, hvort hæstv. Alþ. vill ekki, að haldið verði áfram þeirri stefnu, sem er í reglugerð útvarpsins um fréttaflutning, og ég tel, að yfirlýsing um það væri fengin, ef þessi þáltill. væri samþ.