30.11.1944
Sameinað þing: 68. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 817 í D-deild Alþingistíðinda. (6054)

184. mál, hlutleysi ríkisútvarpsins

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. — Sá málflutningur, sem hér fór fram hjá hv. síðasta ræðumanni, tekur af öll tvímæli um það, hve óvanalegur taugaóstyrkur hefur gripið Framsfl., þegar stj. var mynduð á Alþ. án hans þátttöku og honum að óvörum. Hér er talað eins og ógurlegur glæpur hafi verið drýgður, og formaður þingflokksins heldur hér langa ræðu um öll þessi ósköp, sem á ferð hafi verið. Maður skyldi ætla, að það hafi sorfið nokkuð hart að Framsfl. að hindra réttlætið í landinu. Ég veit ekki, hvort á að taka þennan málflutning alvarlega, en vil þó málsins vegna taka það fram, að ég held, að það sé mjög mikill misskilningur hjá hv. 2. þm. S.-M., að ég hafi gert mig sekan um einhverjar falskar tilkynningar, þegar ég leyfði útvarpinu að hafa eftir mér, að Sjálfstfl., Alþfl. og Sósfl. hefðu gert með sér málefnasamning, þó að ég tæki ekki fram, að það væri ekki allur Sjálfstfl.

Í þeirri yfirlýsingu, sem ég lét birta um málefnasamning stjórnarflokkanna, gat ég ekki um neinn innanflokks ágreining. Það hefur hv. 2. þm. S.-M. manna sízt ástæðu til að lasta, því að svo oft er hann búinn að láta birta auglýsingar og annað í nafni Framsfl., sem minni hluti flokksins var andvígur. Í andstöðunni var þó oft aðalleiðtogi þess flokks að fornu og nýju, Jónas Jónsson. Eitt síðasta dæmið um þetta voru fundaauglýsingar um fundi fyrir austan fjall, sem áttu að eyðileggja fund fyrir Jónasi og bæði framsóknarmenn og sjálfstæðismenn stóðu að.

Yfirlýsing fimmmenninganna var líka birt 21. október, þegar hún kom fram í Alþingi.

Ástæðan til þess, hve mikið hefur verið birt í útvarpinu um það bil, sem stjórnin tók við, og fyrst á eftir, var sú, að blöð komu þá ekki út. Útvarpið sjálft óskaði eftir mörgu af þessu, og yfirmaður stofnunarinnar taldi sér ánægju að birta fréttir af því helzta, sem gerðist. En eftir að blöðin fóru að koma út, varð samkomulag milli mín og útvarpsstjóra um að hætta þessu að mestu.

Ræða hv. 2. þm. S.-M., er hann flutti á Alþ., þegar stjórnin tók við, var birt samdægurs í útvarpinu og það í mjög svo fágaðri mynd, þótt þessi hv. þm. geti annars yfirleitt haldið þokkalegar ræður.

Það er hrein staðleysa, að nokkurri hlutdrægni hafi verið beitt í þessum efnum, og harla lítilfjörlegt allt það, sem hv. 2. þm. S.-M. hefur fundið að, hjá öllu því, sem útvarpið flutti eftir að fyrrv. stj. tók við og birt var mest að tilhlutun Vilhjálms Þórs. Þar voru oft birtar heilar ræður og meira að segja ósannar fregnir af afrekum þeirrar stj. Sá maður er þó í miðstjórn Framsfl.

Það er fjarri öllum sanni, að nokkrar traustsyfirlýsingar eða heillaóskir hafi verið pantaðar af starfsmönnum stj. Ég veit ekki, hvernig þær traustsyfirlýsingar eru, sem hv. þm. fær úr sínu kjördæmi. Þær eru máske pantaðar. Að stj. hefur fengið svo margar traustsyfirlýsingar, stafar af gleði fólksins yfir því, að merkasta stofnun þjóðarinnar skyldi hefja sig upp úr því svaði, sem hún komst í að áliti landsfólksins, meðan eigi tókst að mynda löglega þingræðisstj. Þetta var eðlilegt fagnaðarefni, enda hefur þjóðin sýnt það. — Í því felst engin hlutdrægni, þó að lýst sé fylgi við yfirlýsta stefnu stj. um endurbætur á framleiðslutækjum o. fl.

Að stj. hafi beitt einhverja húsbóndavaldi við útvarpið, er vitanlega helber uppspuni. Ýmist hefur verið birt það, sem ráðamenn útvarpsins óskuðu eftir eða töldu eðlilegt og óhlutdrægt.

Ég sé, að það er tvennt, sem hefur farið í þessar viðkvæmu taugar. Annars vegar það, að talað hefur verið um afrek forsrh. Það er sennilegt, að Framsfl. hafi haft meiri áhuga fyrir forsætisráðherrastólnum en þeim málefnasamningum, sem á bak við lágu. Og einnig hefur það snert Framsfl. ákaflega illa, að í skeyti frá Verkamannafél. Dagsbrún er minnzt á andspyrnu frá þeim þjóðfélagsöflum, sem andvíg eru atvinnulegum framförum. Já, sök bítur sekan. Þeir hirði sneið, sem eiga, þeir, sem endilega vilja taka að sér að vera andvígir þessum framförum. Það er varla eðlilegt, að þeir framsóknarmenn rísi upp og segi: Ég er saklaus. — Ég veit ekki nema þeir ásaki sjálfa sig með slíkri afsökun.

Mér finnst, sem sagt, þetta vera of lítið mál til þess að tefja mjög lengi störf þingsins með umr. um það. Ég skal ekki vera á móti því, að það fari í n. En það er svo langur vegur frá því, að útvarpsstjóri eða útvarpsráð hafi látið undan einhverju húsbóndavaldi, eins og hv. 2. þm. S.-M. dylgjar um hér. Hann var fyrr í stjórn og veit sig kannske sjálfan sekan um það að hafa beitt einhverju húsbóndavaldi við útvarpið. En það er svo langur vegur frá því, að ég hafi gert það í þessum efnum varðandi birtingu fregnanna eða flutning minnar ræðu, fram yfir það, sem útvarpið stakk upp á eða það taldi sér ljúft að gera vegna þess, að það taldi það rúmast innan sinna starfsreglna, sem það hefði sett sér og mundi aldrei víkja frá.

Ég ætlaði mér í þessu efni að fylgja fordæminu frá því í janúar 1942, því að þá þótti okkur það góður kristindómur að fara sjálfir inn í útvarpið, hv. 2. þm. S.-M. og mér, og halda fyrirlestra um stefnu okkar og starf, en meina Stefáni Jóh. Stefánssyni að flytja þar sitt mál. Okkur þótti það prýðilegt þá. Hins vegar þótti það einnig ágætt, þegar Vilhjálmur Þór framsóknarmiðstjórnarmaður var í ráðherrastóli, flutti ræðu í útvarpið án þess að öðrum gæfist kostur á að svara, þó að hann tæki fyrir sjálfan sig heiðurinn af framkvæmd máls, sem aðrir áttu, en ekki hann. — Af þessum ástæðum var það, að mér datt ekki í hug, að maður, sem gengur götuna, studdur bæði á stjórn- og bakborða af Framsfl., villtist út af réttri braut. Enda viðurkenni ég ekki, að hér hafi verið villzt út af réttri braut, og styðst þar algerlega við ummæli yfirmanns þessarar stofnunar, sem taldi sér ljúft að verða við óskum mínum í þessu efni, því að þær rúmuðust svo vel innan þess stranga ramma, sem útvarpið hefði sett sér um starfsreglur.